Við lifum á hættulegum tímum. Tímum þar sem staðreyndir skipta æ minna máli, tölur eru kokkaðar upp til að gefa málflutningnum vægi, andúð í garð útlendinga er falin undir samúð með fátæku fólki og spilað er á ótta og öryggisleysi. Ísland er ekkert öðruvísi en önnur lönd og það er raunveruleg hætta á því að hér muni grassera útlendingaandúð ef við stígum ekki fæti niður og að hún öðlist lögmæti í stjórnmálum.
Ég á afskaplega erfitt með að sýna fólki annað en hlýju og skilning. Ég brosi þegar ég heilsa, faðma jafnvel (undanfarið hef ég tekið upp á því að smella kossi á fólk um leið og ég faðma, fólk sem ég þekki kannski lítillega, ekki veit ég af hverju) og spjalla kurteislega, sýni áhuga. Ég hef oft velt því fyrir mér hvað þetta er. Er þetta þrá eftir viðurkenningu, að fólki líki við mig? Óöryggi? Það eru ekki beint hvatir sem ég tengi við mig, en ég er kannski ekki besti dómarinn um það.
Ég finn það hins vegar að þolinmæði mín gagnvart fólki sem talar gegn hælisleitendum og flóttafólki er á þrotum. Að ég tali nú ekki um fólk sem hyggst bjóða fram í kosningum með slíkt í farteskinu. Þetta upplifði ég sterkt á Fundi fólksins á Akureyri um helgina. Þannig háttaði til að Vinstri græn voru með kynningarbás við hlið Flokks fólksins. Og ég sat þar um hríð og spjallaði við einhvern fulltrúa hans. Sá var ósköp indæll í viðkynningu, við ræddum um ljósmyndun og myndavélar og hann kappkostaði við að gefa góð ráð. En ég fann að mig langaði ekki að spjalla um daginn og veginn við þennan mann. Mann sem reynir að vinna stórhættulegum skoðunum fylgi.
Um helgina gerðist það einnig að fjöldi fólks mótmælti því að tveimur landlausum börnum skyldi vísað úr landi ásamt fjölskyldum. Af því tilefni skrifaði einn bloggarinn, maður sem reglulega er vitnað til í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins, um Íslendingana sem hefðu rústað öllu í sínu lífi með alkóhólisma og gjaldþroti og nærðust á því sem hann kallað hjartnæmum, hönnuðum sögum af flóttafólki. Og þar sem ég er sjálfhverfur tók ég þetta til mín, verandi alkóhólisti sem hefur lagt inn gjaldþrotabeiðni, og ég skrifaði um þetta á Facebook. Þar var ég spurður að því af hverju Alþingismaður væri að eyða tíma sínum í þetta og svar mitt var: „Af því að svona viðhorf verða æ algengari og vel getur farið svo að innan tíðar einkenni þau einhverja þingmenn. Ég sé ekki eftir þeim fimm mínútum sem ég eyddi í þetta.“
Og nú ætla ég að eyða meira en fimm mínútum í þetta, því að ég óttast að við fljótum sofandi að feigðarósi. Með því að hundsa þessi viðhorf, láta eins og þau séu ekki til, þá leyfum við þeim að grassera. Og með því að brosa og vera kurteis finnst mér ég á einhvern hátt viðurkenna viðhorfin, ýta undir þau. Þetta sé allt saman einhver leikur og við höfum mismunandi leikaðferðir, en spilum öll sama leikinn, við stjórnmálamennirnir. En það er engin leikaðferð að ala á ótta og andúð gegn hælisleitendum og flóttafólki. Það er bara mannvonska.
Maður verður ekkert mannúðlegri við að tala fyrir auknum fjármunum til fátækra, ef maður á sama tíma vill skera niður kostnað við hælisleitendur og flóttafólk. Mannúð er ekki valkvæð; ef þú sýnir þessum hópi mannúð en ekki hinum, þá áttu ekki að skreyta þig með því hugtaki.
Nú hef ég fengið nóg af þessu. Ég ætla ekki að kóa lengur með þessu, að láta eins og það sé bara í lagi að vera rasisti. (Og nú mun upphefjast söngur um ósanngirni þess að tala um rasisma. Við það fólk segi ég: Hættu að tala eins og rasisti ef þú ert ekki rasisti.) Það er einfaldlega komið miklu meira en nóg af því að það sé í lagi ljúga upp tölum um kostnað og aðbúnað hælisleitenda og flóttafólks og tengja það fátækt á Íslandi. Af hverju tengir fólk þetta aldrei saman við kostnað við sendiráð, eða jarðgangagerð eða hvað annað? Jú, af því að með því að tala um fátækt fólk tekst því að fá samúð, það bregður samhygðarblæju yfir útlendingaandúð sína. Nei, ég er sko ekki á móti útlendingum, ég er með fátæku fólki.
Og allt í einu er maður sagður fylgjandi því að fólk eigi ekki til hnífs og skeiðar og þurfi að gista í tjöldum í Laugardal, bara af því að maður vill að komið sé fram við flóttafólk og hælisleitendur eins og fólk.Það á aldrei að ljúga, sérstaklega ekki pólitík og sérstaklega ekki þegar jafn viðkvæm mál eru undir og hér er rætt um. Það er ekkert í lagi að fullyrða um að svo og svo stór hluti barna búi við fátækt ef það er ekki þannig. En þetta er taktík, ekki mistök. Af því að þegar það er leiðrétt fær maður strax á sig spurninguna hvort manni finnist það bara allt í lagi að þau börn sem þó geri það búi við fátækt, þó þau séu færri en fullyrt var. Og allt í einu er maður sagður fylgjandi því að fólk eigi ekki til hnífs og skeiðar og þurfi að gista í tjöldum í Laugardal, bara af því að maður vill að komið sé fram við flóttafólk og hælisleitendur eins og fólk.
Það er þetta sem er hættulegast af öllu; að stilla þessu upp sem einhverjum andstæðum, fátækt og hælisleitendum og flóttafólki. Það gerir tvennt; etur fólki saman annars vegar og gefur útlendingaandúð réttmæti hins vegar. Hver vill ekki að eldri borgarar búi við betri kjör, öryrkjar, þau lægst launuðu, að allir hafi þak yfir höfuðið? (Reyndar virðast sumir stjórnmálaflokkar ekki vilja það nóg til að setja fjármuni í þessi mál, en það er önnur saga.) Og sé fólk nógu skeleggt í baráttu sinni fyrir þessu getur það fengið fylgi út á það. En þá laumast útlendingaandúðin með. Og þannig hefur hún öðlast réttmæti, er orðin stefna stjórnmálaflokks.
Við höfnum þessari stefnu, vinnum ekki með fólki sem predikar hana. Og berjast með kjafti og klóm gegn öllum hugmyndum Flokks fólksins, eða hvers sem er, sem vinna gegn hælisleitendum og flóttafólki, bera með sér útlendingaandúð. Það er á ábyrgð okkar allra.Við þurfum að taka höndum saman og afneita þessari stefnu. Stjórnmálin þurfa í heild sinni að segja nei, takk. (Sjáið, enn er kurteisin að plaga mig). Við höfnum þessari stefnu, vinnum ekki með fólki sem predikar hana. Og berjast með kjafti og klóm gegn öllum hugmyndum Flokks fólksins, eða hvers sem er, sem vinna gegn hælisleitendum og flóttafólki, bera með sér útlendingaandúð. Það er á ábyrgð okkar allra.
Nú er komið nóg af kurteisishjali. Það hafa allir rétt á að tala fyrir sínum skoðunum og vinna þeim fylgi. En hættulegum skoðunum þarf að vinna gegn. Þá skiptir engu hvort við erum úthrópuð sem vitleysingar, alkóhólistar, fjármálaóreiðufólk, fífl og bláeygir bjánar. Það er aðeins fórnarkostnaður í baráttunni fyrir betra mannlífi.
Við þurfum að segja öllum sem tala fyrir þessum skoðunum hvað okkur finnst um þær. Öllum, bæði krúttlegum ömmum og öfum, sem og krúnurökuðum flúrmennum. Frænkum og frændum, nágrönnum og þeim sem við skiptum við í daglega lífinu.
En við þurfum líka stórátak í því að bæta stöðu þeirra sem verst standa í samfélaginu. Og þá allra, bæði þeirra sem dvalið hafa alla sína tíð á Íslandi og hinna sem eru nýkomnir. Aftengjum þann þátt hinnar villandi röksemdafærslu með því að bæta hag þeirra sem verst standa. Og líka af því að það er rétt. Grunnvandinn er nefnilega misskipting auðsins og gæðanna, ekki flóttafólk og hælisleitendur.
En hvað sem því líður þurfum við að mótmæla rasisma, útlendingaandúð, aðför gegn hælisleitendum og flóttafólki. Gerum það hátt. Látum þau sem þá skoðun hafa vita að okkur finnist það ekki í lagi. Að það setji niður fyrir okkur vegna þeirra. Tölum fyrir mannúð og samhygð til handa öllum, en gegn mannfjandsamlegum skoðunum.
Við þurfum þjóðarsátt gegn rasisma, því rasismi er það.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.