Hlýnun andrúmsloftsins er sannarlega stærsti umhverfisvandi jarðarbúa. Þessi vá er nátengd öðru umhverfismáli: hnignun og hruni vistkerfa. Enda er það svo að margir meginsáttmálar Sameinuðu þjóðanna eru tengdir: loftslagssamningurinn, samningurinn um vernd líffjölbreytileika og samningurinn um varnir gegn landhnignun og eyðimerkurmyndun. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun gera ráð fyrir stórfelldri endurheimt vistkerfa um allan heim. Ef litið er til heimaslóða er hrun vistkerfa landsins í hópi verstu dæma um slíkt í heiminum. En góðu fréttirnar eru þær að auðveldara er að græða land á Íslandi en víða annars staðar og hægt er að sameina baráttu gegn loftslagshlýnun og uppbyggingu vistkerfa á Íslandi með afgerandi hætti.
Óröskuð mold á Íslandi, svokölluð eldfjallajörð, hefur afar sérstæða eiginleika því hún bindur feikilegt magn kolefnis til frambúðar, gjarnan meira en 150 CO2 á hvern fermetra. Þetta er mun meira en annar þurrlendisjarðvegur getur bundið. En það er jafnframt einmitt svo að kolefnisforðinn í moldinni er næmasti mælikvarðinn á frjósemi vistkerfa; kolefnið er orkuforði kerfisins og undirstaða næringarhringrásarinnar. Stór hluti aukningar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu á rætur að rekja til losunar koltvísýrings úr jarðvegi vegna ofnýtingar í landbúnaði á borð við akuryrkju og beit - fæðuframleiðslan hefur gengið á gæði moldarinnar. Íslensk vistkerfi í slæmu ástandi losa kolefni út í andrúmsloftið, en stærðargráða þeirrar losunar hefur verið metin til jafns við alla aðra losun frá Íslandi og jafnvel mun meiri samkvæmt nýlegri skýrslu. Við endurheimt vistkerfa binst kolefni úr andrúmsloftinu í mold og gróðri á ný. Árleg binding í moldinni er gjarnan 200-300 tonn CO2 á ferkílómetra við uppgræðslu á lítt grónu landi. Við bindinguna bætist svo kolefni í gróðrinum, sem getur verið mjög mikil, t.d. í birkiskógi.
Langvarandi nýting vistkerfa landsins hefur einnig rýrt kerfin sem þó eru enn gróin. Þannig eru yfir 20 000 km2 lands sem telst rýrt mólendi en stór hluti þess lands er á láglendi sem var áður skógi vaxinn með gríðarlegan kolefnisforða og frjósemi. Það er mjög mikilvægt að ekki sé aðeins horft til auðna og illa gróins lands við bindingu kolefnis hérlendis heldur einnig til hnignaðra vistkerfa á borð við rýrt mólendi.
Mold á Íslandi er sífellt að þykkna vegna áfoks frá flæðum jökulánna og öðrum slíkum svæðum. Þar sem áfokið sest í kjarnmikinn gróður safnast kolefni fyrir jafnharðan í hin nýju moldarefni, sem enn eykur á kolefnisbindinguna. Hún getur hæglega numið 15 t CO2/km2 á ári í frjóum vistkerfum. Þar sem gróður er rýr safnast minna kolefni fyrir, jafnvel minna en moldin er að losa í formi CO2, sérstaklega þar nýting er mikil og rof í sverðinum. Lítið sem ekkert kolefni safnast fyrir á auðnum þótt áfokið sé mikið, þvert á móti, þær eru margar hverjar enn að gefa frá sér mikinn koltvísýring.
Baráttan við loftslagsbreytingar og endurheimt landkosta á Íslandi kalla á heildstæða nálgun, sem m.a. felur í sér breytta landnýtingu á þeim svæðum þar sem gróður er rýrastur. Að hætt sé að beita illa gróna afrétti á gosbeltinu. Sjálfgræðsla skilar mjög miklu en stundum er nauðsynlegt að hjálpa náttúrulegri framvindu, ekki síst þar sem yfirborðið er óstöðugt eða lítið fræframboð. Endurheimt votlendis er einnig mikilvæg þar sem þess er kostur. Verkefni sem lúta að því að búa til misrýra grashaga til beitar á bújörðum er góðra gjalda verð en fela í raun í sér afskaplega lágreist markmið; horfa þarf til fjölbreyttari vistkerfa, t.d. birkiskóga sem hafa margfalt gildi til nýtingar og bindingar kolefnis.
Við breytingar á styrkjakerfi landbúnaðar er unnt að ná fram margþættum markmiðum í þágu kolefnisbindingar og endurheimt vistkerfa. Slíkar breytingar geta falið í sér friðun auðna og illa gróins lands, endurheimt votlendis og stuðningsgreiðslur við endurheimt landkosta. Aðgerðir á sviði vistheimtar geta hæglega skilað kolefnisbindingu sem nemur stærðargráðunni 1 milljón tonn CO2 á ári (endurheimt votlendis ekki meðtalin) í stað losunar sem hugsanlega nemur 1 milljón tonna CO2 (ávinningur upp á 2 milljón tonn CO2 eða meira). Reyndar eru til útreikningar (fyrrnefnd skýrsla) sem sýna að losun frá auðnum og rýrum móum geti numið mörgum milljónum tonna CO2 á ári, sem væri hægt að stöðva með bættri landnýtingu og vistheimt.
Það er mikilvægt að breikka sjóndeildarhringinn í aðgerðum í loftslagsmálum, hætta nýtingu á illa grónum afréttum og stórauka vistheimt á mjög rýru landi. Þar má m.a. nefna endurheimt birkiskóga í nágrenni þéttbýlis. Æskilegt er að sveitarfélög komi í auknum mæli að slíkum verkefnum. Samningar þjóðarinnar við sauðfjárbændur verða að taka tillit til loftslagsmála. Í þeim geta falist fjárhagslegir hvatar til að færa framleiðslu frá verst förnu svæðunum, styrking búskapar þar sem gróðurfar er hentugt til slíkrar nýtingar og mikilvægt er að auka áherslu á endurheimt vistkerfa. Land og mold eru sannarlega sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Við berum öll ábyrgð.
Höfundur er prófessor við auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands.