Það eru óvenjulegir tímar. Ekki bara vegna þess að ríkisstjórn leidd af Sjálfstæðisflokki sprakk í enn eitt skiptið. Það er orðið að venju í íslensku samfélagi að ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn er í forsvari fyrir eða sitji í, springi og skapi reglulega þá óreiðu og glundroða sem formanni Sjálfstæðisflokksins er nú tíðrætt um og óttast hvað mest.
Nei, tímarnir eru óvenjulegir vegna þess að efnahagslegar ástæður eru ekki ástæða þess núna að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks heldur ekki velli, heldur er ástæðan þær feminísku baráttubylgjur gegn kynjaofbeldi og kynferðisafbrotum gegn börnum sem hafa gengið yfir íslenskt samfélag undanfarin misseri sem hafa nú sprengt ríkisstjórn. Sem hafa riðlað hinu margumtalaða feðraveldi. Orðinu sem svo margir hata.
Leyndarhyggjan hefur verið skoruð á hólm og samtryggingin í samfélaginu hefur opinberað sitt rétta andlitLeyndarhyggjan hefur verið skoruð á hólm og samtryggingin í samfélaginu hefur opinberað sitt rétta andlit. Samtryggingin spyr ekki um stétt né stöðu; af gögnunum um uppreist æru sést að lögreglumenn í áhrifastöðum mæla með dæmdum nauðgurum og hæstaréttarlögmenn og áhrifamenn í íslensku viðskiptalífi síðustu áratugina standa þétt með barnaníðingum. Þessir karlar taka sér stöðu með þeim sem frömdu glæpina, en láta þjáningu fórnarlambanna liggja á milli hluta.
Þolendur kynferðisafbrota og hryllilegs barnaníðs hafa sýnt ótrúlegt hugrekki og þrautseigju. Neitað að gefast upp fyrir þöggun og leynd, hafa haldið áfram að krefjast upplýsinga og þess að hlustað sé á þau á æðstu stöðum íslensks stjórnarkerfis. Fyrir ólýsanlegt hugrekki og magnaða þrautseigju þolenda nú og áður, ber að þakka. Margfalt.
Án þolenda sem sögðu hingað og ekki lengra, án fjölmiðla sem gáfust ekki upp þó svo að dyrum upplýsinga væri lokað á þá og án feminískrar baráttu sem virðist á svo undursamlegan hátt ganga í endurnýjun lífsdaga með hverri kynslóð, væri íslenskt samfélag mun verra en það er.
Við sem sitjum á Alþingi verðum að hlusta á þolendur og taka undir með baráttufólki fyrir útrýmingu kynferðisofbeldisVið sem sitjum á Alþingi verðum að hlusta á þolendur og taka undir með baráttufólki fyrir útrýmingu kynferðisofbeldis. Við verðum að virða þessa baráttu og halda áfram að leggja okkur öll fram um að breyta íslensku samfélagi með þeim ráðum sem við höfum. Annað er óboðlegt.
Það er ekki í boði að segja að hér sé um lítil mál að ræða líkt og einstaka ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa því miður sagt opinberlega. Það er ekki í boði að smætta kynferðisafbrot eða gera þar með lítið úr nauðgunarmenningu. Og það er aldrei í boði að standa ekki með börnum sem þurfa að ganga í gegnum helvíti þegar kemur að kynferðisafbrotum gegn þeim.
Sýnum samhug og virðingu fyrir þolendum. Berjumst öll gegn yfirhylmingu og þöggun. Líka á hinu pólitíska sviði.
Höfundur er þingmaður VG í Suðvesturkjördæmi.