Ísland er vistfræðilega eitt verst farna land Evrópu. Frá landnámi hefur gróður- og jarðvegseyðing vegna ósjálfbærrar landnýtingar, sem ekki hefur tekið mið af óblíðri veðráttu og tíðum eldgosum, rústað stórum hluta vistkerfa landsins. Tæplega 1/3 af yfirborði Íslands hefur minna en 20% gróðurþekju. Langstærstur hluti þess svæðis var áður gróið þó einhverjir jökulsandar og svæði á miðhálendinu, í regnskugga norðan jökla, séu þarna meðtalin. Því til viðbótar er ríflega 1/3 landsins með laskaða gróðurþekju.
Auðlindin Ísland er í verulega döpru ásigkomulagi – með meira en helming af öllum sínum gróður- og jarðvegsauðlindum í eyddu eða löskuðu ástandi. Það sem verra er – Hluti laskaða landsins er enn að rofna og losa gríðarlegt magn kolefnis út í andrúmsloftið.
Jarðvegseyðing hraðar súrnun sjávar
Jarðvegseyðing á norðurslóðum eykur styrk CO2 í andrúmslofti en einnig í hafi þar sem talsverður hluti kolefnisins sem losnar endar beint í hafinu og oxast þar. Jarðvegseyðing og landhnignun hefur því bæði óbein og bein áhrif á að hraða súrnun sjávar.
Rannsóknir gefa til kynna að minnsta kosti helmingur þess kolefnis sem losnar við jarðvegsrof hérlendis oxist yfir í CO2. Stærðargráða CO2 losunar vegna núverandi jarðvegseyðingar og landhnignunar hérlendis hefur þannig verið metin til jafns við alla aðra losun frá Íslandi og jafnvel mun meiri samkvæmt nýlegri skýrslu frá LBHÍ.
Losun frá beitilöndum sauðfjár
Stór hluti þeirra svæða sem eru enn að losa kolefni eru nýtt sem sumarbeitilönd fyrir sauðfé. Þetta eru svæðin sem þarf að stöðva rof og landhnignun á og endurheimta vistgetu þeirra. Í grein dr. Ólafs Arnalds sem birtist nýverið í Kjarnanum kemur fram að það sé hægt að draga úr losun frá löskuðu landi og framræstu votlendi um jafnvel 1 milljón tonna CO2 árlega og binda á ný í jarðvegi og gróðri um 1 milljón tonna CO2 úr andrúmslofti. Árlegur ávinningur landbótaaðgerða gæti þannig numið um 2 milljónir tonna CO2 á ári.
Okkar ábyrgð
Ísland getur því miður ekki nýtt allan þennan mögulega ávinning beint í loftslagsbókhaldi sínu þar sem hann fellur aðeins að takmörkuðu leyti undir skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi um minni losun. Það er því ekki útlit fyrir að við getum keypt okkur frá skuldbindingum okkar um minni losun, með auknum landbótaaðgerðum, eins og lagt er til í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktar og sauðfjárbænda.
Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að íslenska ríkið verður að bregðast við þessum alvarlegu staðreyndum af festu og ganga í að stöðva jarðvegsrof og landhnignun. Ríkið getur þannig ekki haldið áfram að niðurgreiða lambakjötsframleiðslu á illa grónum og löskuðum svæðum. Það ber samfélagslega ábyrgð á að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi. Minni losun frá landi kemur andrúmsloftinu mjög til góða og er líklega stærsta einstaka skref sem við sem þjóð getum tekið til að draga úr hlýnun jarðar og súrnun sjávar.
Höfundur er landgræðsluvistfræðingur og aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra.