Oft er reynt að ljá röngum staðhæfingum trúverðugleika með því að bera þær fram undir virtu nafni. Dæmi þess má finna í dálki í Viðskiptablaðinu 19. sept. sl. þar sem reynt er að koma höggi á formann Samfylkingarinnar með fölskum staðhæfingum, sem settar eru fram undir dulnefni.
Formanni Samfylkingarinnar er eignað það að vilja „gefa öldruðum tækifæri til að vinna meira til að eiga fyrir auðlegðarskattinum enda leggst hann harðast á þá." Þessu fylgir sú falsfrétt að „Síðast þegar auðlegðarskattur var lagður á, gjaldárin 2010 til 2014, bitnaði hann einna harðast á tekjulágum eldri borgurum sem bjuggu, eftir langa starfsævi í skuldlitlu húsnæði." Þessi staðhæfing er sótt í bréf Sjálfstæðisflokksins fáum dögum fyrir kosningar 2013, sem helst er frægt fyrir það að fögur loforð þess voru öll svikin nema það eitt að veita meiru fé þangað sem mest var fyrir.
Ég ætla Loga Einarsson fullfæran að verjast skotum úr launsátri en nefni þetta hér vegna þess hversu augljóst fleipur það er. Lágmarks könnun á fyrirliggjandi staðreyndum t.d. á vef RSK og greina í Tíund hefði leitt í ljós að fjarri öllum sanni er að auðlegðarskatturinn hafi lagst harðast á tekjulága eldri horgara. Einhver rökhugsun hefði einnig bjargað pistlahöfundi frá þessu bulli.
Álagning á árinu 2014 sýnir að þau 10% hjóna, sem hæstar tekjur höfðu, greiddu 75% af öllum auðlegðarskatti, sem lagður var á hjón, og reyndar greiddu 2% tekjuhæstu hjónin 62% hans. Tekjuhærri helmingur hjóna greiddi yfir 88% af skattinum. Um 7,5% skattsins var lagður á þau 30% hjóna sem lægstar tekjur höfðu. Nánar um það hér á eftir.
Sú staðhæfing að skatturinn hafi helst lagst á „tekjulága eldri borgara sem bjuggu eftir langa starfsævi í skuldlitlu eigin húsnæði” stenst ekki röklega hugsun. Fríeignamark auðlegðarskatts fyrir hjón var 120 milljónir króna. Fasteignamat á íbúðarhúsnæði, það verðmæti sem skatturinn miðast við, var yfirleitt á bilinu 200 - 300 þús. kr. á fermetra í á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2013. Til þess að íbúðareign ein næði því að verða tilefni til auðlegðarskatts þurfti sú íbúð þvi að vera 400 til 600 fermetrar. Skyldu margir „tekjulágir eldri borgarar” búa við þann húsakost?
Dæmi finnast um hjón í neðri hluta tekjuskalans skv. framtölum sem greiddu auðlegðarskatt. Að því þarf þó að huga að sá tekjur skv. framtali sýna ekki alltaf raunverulegar tekjur framteljandans. Launatekjur, lífeyrir, vaxtatekjur og annað sem venjulegur skattborgari hefur úr að moða er samviskusamlega tíundað. Það á hins vegar ekki við um margvíslegar eignatekjur og eignaaukningu í ýmsu formi. Nefna má að þeir sem oft eru nefndir “athafnamenn” eða “fjárfestar” hylja tíðum eignir sínar og ávöxtun þeirra í einkahlutafélagi. Félagið greiðir þeim sultarlaun - ef þá nokkur - sem tryggir þeim lendingu í neðsta hluta tekjuskattsskalans (og eftir atvikum barnabætur, vaxtabætur og ellilífeyri). Líklegra er að finna tekjulága” auðmenn en eldri borgara í hópi þeirra sem greiddu auðlegðarskatt.
Hrafnarir fornu, Huginn og Muninn, eru einkennisfuglar Menntaskólans á Akureyri, nafngjafar skólafélagsins og skólablaðsins. Flugu þeir um heim allan og upplýstu Óðinn um hvaðeina, sem gerðist. Mun Óðinn trauðla hafa sætt sig við bull og blaður úr goggi þeirra. Sem fyrrum nemandi MA misbýður mér notkun Viðskiptablaðsins á nöfnum þessara heiðursfugla fyrir feluskrif og falsfréttir og leyfi mér að benda blaðinu á að nota í staðinn fuglanöfn við hæfi svo sem blaðurspói og bullustelkur.
PS. Sjánlega ofbýður fleirum en mér meðferð fugla þessara á staðreyndum, sbr. grein Gamalíels Sveinssonar í Viðskiptablaðinu.