Áralöng femínísk barátta er að skila sér í viðhorfsbreytingum í okkar samfélagi gagnvart nauðgunum, fórnarlömbum kynferðisofbeldis og klámvæðingu. Hún sýnir svo ekki verður um villst að hugmyndir skipta máli. Undirstaða samfélags okkar eru í raun þær hugmyndir sem sátt er um. Hins vegar er það svo að nýjar hugmyndir, og sér í lagi róttækar, hugnast fæstum þegar þær eru fyrst lagðar fram. Þetta á sérstaklega við um þær sem fela í sér breytingar á löngu viðteknum venjum, hefðum eða siðum.
Einn er sá siður sem nú er að koma okkur í koll. Samfélög heimsins eru knúin jarðefnaeldsneyti. Þannig er það t.d. viðtekin venja fólks að fara allra sinna ferða á bíl, sem fylltur er reglulega bensíni eða dísil sem unnið er úr olíu sem dælt hefur verið mis djúpt úr iðrum jarðar. Olían er mengandi, heilsuspillandi, leggur til ófriðar og spennu í heiminum og er að leggja til breytingar á sjálfu loftslagi hnattarins sem munu ekki reynast samfélagi okkar né umhverfi vel. Hagkerfi heimsins gengur fyrir olíu, sem er staðbundinn auðlind sem tryggja þarf sér völd yfir. Þessi orkugjafi og tilurð hans sem kjarni og drifkraftur samfélaga heimsins er þó saga fjölda ákvarðanna og tilviljana sem réðu því að svona er þetta í dag. Með öðrum orðum; þetta þarf ekki að vera svona.
Hins vegar þegar ljáð er máls á því að vinda ofan af olíuhagkerfinu, hrökkva margir við og segja að hagvöxtur heimsins sé í hættu. Hagvöxtur er önnur hugmynd sem er orðin að venju; einhvers konar heilög kýr. Það verður alltaf að verða til meira í dag en í gær. Vöxtur og gróði liggur því hagvexti til grundvallar. Þannig skrúfast reglulega upp þenslukúrfur, sem hrynja svo og nýtt skeið hefst. Það er saga hagkerfis okkar frá iðnbyltingu og í dag erum við Íslendingar að upplifa hvirfilvind enn einnar slíkrar þenslu. Svarið við þeim sem telja hagvöxt í hættu er oft að tæknibreytingar í átt frá olíuhagkerfinu muni leiða til grænnar iðnbyltingar með tilheyrandi hagvaxtarkipp. Hins vegar má líka horfa til þess að þegar við venjum okkur af olíunni skapist færi á að huga að því sem kallað hefur verið „hjöðnun“ hagkerfis okkar (e. de-growth). Við gætum nýtt tækifærið sem í breytingunum felst til að koma á hagsæld í stað hagvaxtar. Stefán Gíslason bryddaði á þessu í íslensku samhengi þegar árið 2010 (hér) og talar um „sjálfbæra hjöðnun“
Hugmyndin um „sjálfbæra hjöðnun“ felur í sér lýðræðislega og sanngjarna umbreytingu frá núverandi fyrirkomulagi til smærri hagkerfa þar sem framleiðsla og neysla er stöðug og innan þeirra marka sem auðlindir jarðar þola um ókomna tíð, þ.e.a.s. minni en við eigum að venjast. Markmiðið er að skapa samfélag sem byggist á gæðum fremur en magni og á samvinnu fremur en samkeppni.
Samfélag okkar mun alltaf ganga fyrir orku. Hún er límið sem heldur samfélaginu saman. Orkan er hins vegar alls staðar í kringum okkur í öllu sem hreyfist fyrir tilstuðlan sólar. Það er því ekki nokkur ástæða til að treysta á aðflutt jarðefnaeldsneyti til að knýja samfélag okkar. Um leið og við áttum okkur á að orkan er allt um lykjandi getum við leitt hugann að þeim gæðum sem eru einnig allt í kringum okkur. Við þurfum ekki að sækja lífsfyllingu og hamingju í aðfluttu dóti, ekkert frekar en við þurfum að reiða okkur á aðflutta olíu.
Hvernig væri ef í stað þess að einblína á vöxt hagkerfis að horfa á jafnvægi við náttúru? Hagkerfi okkar snerist því ekki um fjármálaafleiður, arðsemi og vöxt, heldur um hvað kæmi náttúru til góða, vitandi að sjálfsögðu að við erum hluti hennar. Ég vil að við nýtum þær umbyltingar sem framundan eru í orkumálum heimsins til að grandskoða stöðu okkar í honum. Færum okkur frá skyldutrú á hagvöxt, allavega eins og hann er mældur í dag. Hugsum málið útfrá hagsæld, dreifum gæðunum jafnt, látum hagkerfið hjaðna og horfum á gæðin og orkuna sem eru allt um lykjandi.