Hver sá sem hefur fylgst með efnahagsumræðu á Íslandi hefur líklega rekið augun í að ég er ekki hrifinn af efnahagslegum afleiðingum verðtryggingar. Á vaxta- og verðtryggingarfundinum í Háskólabíói þann 7. október bar ég m.a. rök fyrir eftirfarandi þegar kemur að verðtryggðum lánum til einstaklinga (sjá ítarlegri rökstuðning m.a. á heimasíðu minni patreon.com/olafurmargeirsson):
- Þau tryggja lántökum ekki lægri raunvexti m.v. óverðtryggð lán
- Þau ýta undir áhættutöku á fasteignamarkaði
- Þau ýta undir líkurnar á fjármálalegum óstöðugleika
- Þau draga úr áhrifamætti vaxtastefnu Seðlabanka Íslands
- Þau valda því að vaxtastig verður almennt hærra m.v. ef lán væru almennt óverðtryggð
- Þau valda því að vaxtastig verður almennt sveiflukenndara m.v. ef lán væru almennt óverðtryggð
- Þau ýta undir sveiflur í gengi krónunnar
- Þau ýta undir verðbólgu
En þótt ég haldi þessu fram og telji mig með hagfræðilega skynsöm rök að baki mér er auðvelt að finna hagfræðinga og aðra sem segja þennan lista tóma vitleysu. Samkvæmt þeim hefur verðtryggingin í besta falli góð áhrif á íslenskt hagkerfi og í versta falli engin áhrif. Og þá er eðlilegt að spyrja: af hverju eru hagfræðingar svona ósammála?
Forsendur skipta máli
Þetta misræmi í svörum hagfræðinga er, skiljanlega, erfitt að skilja. En ástæðan er einföld: mismunandi aðferðafræði.
Nýklassískir hagfræðingar samþykkja almennt að verðtrygging sé af hinu góða. Það eru flestir íslenskir hagfræðingar. Post-Keynesian hagfræðingar, eins og ég, samþykkja það ekki. Og ástæðan er að mismunandi viðhorf okkar hagfræðinga, post-Keynesian sem annarra, varðandi hvernig hagkerfið virkar leiða okkur til mismunandi niðurstaðna: forsendur um virkni efnahagslegra stærða eru mismunandi – og þessar forsendur skipta máli.
Dæmi um mikilvægi þessa munar er t.d. þegar Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands, bendir á, í ritinu Verðtrygging og peningastefna (2009), að verðtrygging dragi úr sveiflum á greiðslubyrði lána.
Þetta er rétt og er, samkvæmt post-Keynesian hagfræðiheimsmynd, einmitt vandamálið: einmitt vegna þess að verðtrygging ver lántaka frá greiðslubyrðisáhrifum stýrivaxtabreytinga verða stýrivextir að breytast meira en ella til þess að ná fram tilætluðum áhrifum á eftirspurnarhlið hagkerfisins; ef ætlunin er að minnka ráðstöfunartekjur heimila og fyrirtækja um 10.000kr. á mánuði til að minnka eftirspurn í hagkerfinu og með því verðbólguþrýsting þarf að hækka stýrivexti meira ef lán eru almennt verðtryggð m.v. ef þau væru óverðtryggð. Þetta samþykkir Ásgeir.
En Ásgeir segir þetta ekki skipta meginmáli því ekki hefur verið sýnt fram á að verðtryggingin á lánum til einstaklinga skerði getu peningastefnunnar til að hafa áhrif á langtímavexti. Þá heldur hann því fram (ranglega að mínu mati) að „[e]f verðbólguhorfur eru mjög óvissar er verðtrygging forsenda fyrir framboði langtímalána“ (bls. 11). Þetta á aftur að styrkja peningamálastefnuna. Þetta á, samkvæmt Ásgeiri, að vera það sem skiptir máli frekar en greiðsluflæðin af lánunum og hvernig greiðsluflæðin breytast við breytingar á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands.
Ástæðan fyrir því að nýklassískir hagfræðingar hugsa svona er m.a. sú forsenda þeirra að peningar séu hlutlausir, a.m.k. til langs tíma: peningar eru hlutlaus hula í viðskiptum þar sem öll ákvörðunartaka byggist á rauntölum, s.s. raunvöxtum, frekar en nafntölum, s.s. samningsbundnu greiðsluflæði. Jafnvel þótt samningar séu augljóslega ritaðir í nafntölum, á borð við „kr.“, þá er fólk, í þeirra huga, haldið peningaglýju hugsi það í nafntölum, á borð mánaðarlega greiðslubyrði af lánum, frekar en í rauntölum, á borð við raunvexti af lánum.
En fyrir post-Keynesíska hagfræðinga eins og mig skiptir þetta máli. Peningar eru t.d. aldrei álitnir hlutlausir, hvorki til skamms né langs tíma, í post-Keynesian hagfræði. Ég sérhæfði mig í mínu doktorsnámi í fjármálalegum stöðugleika og þar er áherslan á að skilja hvernig greiðsluflæði hagkerfisins haga sér af þeirri einföldu ástæðu að hagkerfið er samtíningur samninga um greiðslur sem inntar eru af hendi að nafnvirði en ekki raunvirði. Og ef fólk stendur ekki við samningsbundin greiðsluflæði mun hagkerfið verða fyrir áhrifum af slíku, bæði til skamms sem langs tíma.
Athugið í þessu samhengi að greiðsluflæði fela í sér bæði breytingar á rauntölum, t.a.m. raunvöxtum, sem og nafntölum, t.a.m. nafnvöxtum. Nálgun nýklassískra hagfræðinga er því ekki eins tæmandi og nálgun post-Keynesian hagfræðinga.
Fyrir hinn almenna lesenda getur þetta hljómað sem ómerkilegt torf. En aðferðafræði skiptir máli! Aðferðafræðin og forsendurnar sem í henni eru búa til ímyndaðan heim sem reynt er að klæða hinn raunverulega í til þess að skilja betur hinn síðarnefnda. Hinn ímyndaði heimur – líkanið – verður aldrei annað en ófullkomin skuggamynd af hinum raunverulega heimi en sé raunhæfum forsendum beitt í hinum ímyndaða heimi eru a.m.k. meiri líkur á að réttum skilningi á hinum raunverulega heimi sé náð.
Popúlísmi eða raunhæfari hagfræði?
Með pólítíska sögu síðasta áratugar eða svo í huga skil ég fólk vel sem þrykkir popúlismalímmiðanum á hvern þann sem talar um afnám verðtryggingar á lánum til einstaklinga (ég tönnlast á þessu því ég vil hafa þetta skýrt: öfugt við tilfelli einstaklinga ætti að stórauka útgáfu verðtryggra ríkisskuldabréfa). En persónulega hef ég engan hag af því að verðtryggingu á lánum til heimila sé hætt: ég bý erlendis, hyggst ekki flytja til Íslands í fyrirsjáanlegri framtíð, verðtryggða námslánið mitt mun vera verðtryggt áfram og ég hef engan áhuga á frama í pólítík. Ég finn mig einfaldlega knúinn til að benda á, samkvæmt minni post-Keynesian aðferðafræði, eins augljósan hlut og að verðtrygging á lánum til einstaklinga hafi þau efnahagslegu áhrif sem ég lista hér að ofan.
Ég treysti svo hinum almenna lesenda sem ekki er blindaður af forsendum nýklassískrar hagfræði til að geta dæmt um það sjálfur hvort greiðsluflæði af lánum skipti máli eða ekki.
Höfundur er doktor í hagfræði.