Það er allt svo frábært. Eða það segja Sjálfstæðismenn að minnsta kosti. Ég er hins vegar ekki sammála og sama má segja um stóran hluta þjóðarinnar ef horft er til þess fylgis sem ríkisstjórnarflokkarnir mælast með í könnunum. Eftir rúma viku fara fram þriðju kosningarnar á rúmum fjórum árum og maður getur ekki annað en reynt að kryfja hvað liggur að baki. Efnahagsmálin eru í þokkalegu standi, uppgangur er í samfélaginu og hagvöxtur er mikill.
Samt erum við að fara að kjósa enn og aftur og margir furða sig á því hvernig standi eiginlega á þessu öllu saman. „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?!“ eru fræg orð sem Árni Mathiesen lét falla þann 17. mars árið 2007 á þingi þegar talið barst að því hvort ekki ætti að taka alvarlega viðvaranir greiningardeilda, erlendra banka og sérfræðinga um hættumerki í efnahagsspám. Þessi fleygu orð minna um margt á viðbrögð hægri aflanna þessa dagana við þeim óróa og þeim óánægjuröddum sem heyrast í samfélaginu. Þau skilja ekkert í því af hverju við séum ekki ánægð, - það er jú svo svo mikill hagvöxtur og kaupmáttur hefur aukist svo mikið. Af hverju sjáum við ekki veisluna?
Ástæðan er sú að okkur er ekki boðið í hana. Meirihluta þjóðarinnar er ekki boðið. Það er heldur enginn alvöru stöðugleiki. Kannski er stöðugleiki á innstreymi fjár inn á bankareikninga efstu 10% þjóðarinnar en annan stöðugleika er erfitt að merkja í íslensku samfélagi. Ég kalla það hvorki stöðugleika né veislu að við fáum daglega fréttir af bágu ástandi heilbrigðiskerfisins. Ég kalla það hvorki stöðugleika né veislu að fólk fái ekki þá læknisþjónustu sem það þarf á að halda af því að það er ekki pláss á spítalanum, að tækin séu of léleg eða ekki til staðar eða að það hafi ekki efni á henni. Ég kalla það ekki stöðugleika að húsnæðis- og leiguverð hafi hækkað svo mikið að fólk hafi ekki þak yfir höfuðið á sér. Ég kalla það ekki veislu að 6000 börn búi við fátækt á Íslandi. Ég kalla það ekki veislu að húsnæðisverð sé meira en tvöfalt hærra en það var fyrir hrun og að fólk eigi ekki pening fyrir nauðsynjum eftir að hafa borgað af húsnæðinu hver mánaðamót.
Innviðir samfélagsins eru að grotna niður í miðju góðæri. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír höfðu engar hugmyndir eða áætlanir um að snúa þeirri þróun við. Þvert á móti staðfestu þeir vilja- og metnaðarleysi sitt með síðasta fjárlagafrumvarpi. Þessu verður að breyta og það ekki seinna en núna. Gæðunum er verulega misskipt hér á landi þar sem fjármagnseigendur fá til sín sífellt stærri skerf af kökunni á meðan almenningur fær ekki að njóta afraksturs erfiðis síns. Ísland er ríkt af auðlindum en einungis lítill hluti þjóðarinnar fær að njóta góðs af því.
En hey! Ekki örvænta kæri lesandi, nú er tækifæri til breytinga. Notum hagsældina til að byggja upp sterkt mennta- og heilbrigðiskerfi þar sem allir geta sótt sér þá þjónustu sem þeir þurfa, óháð efnahag, komum húsnæðismálunum í lag og styðjum við nýsköpun. Gerum það sem þarf til að standa við Parísarsáttmálann, eflum löggæsluna og réttarkerfið, aukum gagnsæi og ráðumst í nauðsynlegar kerfisbreytingar sem stuðla að markmiðum um réttlátara og jafnara samfélag.
Gleðilegar kosningar!
Höfundur er stjórnmálahagfræðingur. Greinin birtist fyrst í tímariti Ungra jafnaðarmanna – Jöfn og frjáls.