Nánast vikulega lesum við fréttir um versnandi líðan ungmenna, aukna notkun geðlyfja og bágri stöðu heilbrigðiskerfisins almennt. Mikið hefur verið fjallað um hækkandi tíðni kvíða- og tilfinningavanda barna og unglinga, sérstaklega stúlkna á framhaldsskólaaldri. Auðvitað er þetta áhyggjuefni sem við þurfum að taka alvarlega og vinna að úrbótum á.
Heitt umræðuefni
Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að umbætur í heilbrigðiskerfinu eru ofarlega á baugi hjá frambjóðendum til Alþingiskosninga 2017. Núna, korter í kosningar, virðist geðheilbrigði barna og unglinga sérstaklega vera í deiglunni.
Þverpólitísk sátt virðist ríkja um að gera þurfi betur í málefnum sem snúa að geðheilsu barna og unglinga, sem auðvitað er mjög jákvætt! Skiptar skoðanir eru þó um útfærslu á þessum málefnum. Forystumenn flokkanna takast meðal annars á um málefni sem snúa að mismunandi áherslum á opinbert eða einkarekið heilbrigðiskerfi. Sýn frambjóðenda á alvarleika geðheilbrigðisvandans er ólík og þar af leiðandi mismunandi skoðanir á því hvernig og hversu miklu ríkisfé eigi að ráðstafa í þessum tilgangi.
Heilbrigðiskerfi á brauðfótum
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók það sterkt til orða í leiðtogaumræðum á RÚV að hann teldi að heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga stæði á brauðfótum. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, hefur einnig tjáð sig opinberlega um óánægju sína með fyrirhuguðum útgjöldum til heilbrigðiskerfisins í frumvarpi sitjandi ríkisstjórnar til fjárlaga og veltir því fyrir sér hvers vegna ekki sé brugðist sterkara við fjársvelti innan þess. Bjarni Benediktsson, sitjandi forsætisráðherra, vill sömuleiðis auka við fjárframlögum til heilbrigðiskerfisins en lagði áherslu á að bera þurfi saman opinbera og einkarekna heilbrigðisþjónustu í Forystusætinu á RÚV fyrr í mánuðinum. Hann taldi mikilvægt að hið opinbera heilbrigðiskerfi tæki við þeim allra veikustu og að á ríkisrekinni stofnun eins og Landspítalanum yrðu framkvæmdar allar stærri og flóknari aðgerðir meðal annars þegar líf fólks væri í hættu. Út frá þeirri staðhæfingu tel ég einfalt að færa rök fyrir því að barn eða unglingur í sjálfsvígshættu ætti einnig að hafa greiðan aðgang að fagaðila, eins og t.a.m. sálfræðingi, óháð fjárhag foreldra. Þannig er það ekki fyrir þessar kosningar og í raun þurfa mörg börn með alvarlegan geðrænan vanda enn að bíða eftir þjónustu þessara fagaðila.
Hvað getum við gert betur?
Við berum öll ábyrgð á því að halda umræðunni um betra geðheilbrigði á lofti. Rannsóknir hafa sýnt að forvarnir eru mikilvægur liður í því að bæta geðheilsu ungs fólks. Vafalaust þarf að efla tilfinningafræðslu og aðra fræðslu í skólum um gagnlegar leiðir til að takast á við mótlæti í lífinu.
Miklvægt er að heilbrigðisstarfsfólki sé gert kleift að viðhalda og efla sérþekkingu sína innan heilbrigðiskerfisins.
Einnig þarf að bæta aðgengi að fagaðilum í geðheilbrigðisþjónustu. Börn og unglingar eiga ekki að þurfa að bíða eftir því að komast að hjá sálfræðingi og eiga að geta sótt slíka þjónustu óháð fjárhag foreldra.
Göngutúr í átt að breytingum
Aukin vitundarvakning í samfélaginu og umræða frambjóðenda um geðheilbrigði er eitt skref. Við sem samfélag eigum þó mörg skref ógengin enn. Mikilvægt er, hvernig sem úrslit ráðast í Alþingiskosningunum 2017, að ólíkir flokkar geti sameinast um heillavænlega stefnu í geðheilbrigðismálunum og gengið sama veg. Ekki er gerð krafa um að hinir verðandi kjörnu fulltúrar leiðist í hendur heldur skulu þeir einbeita sér að því að ganga í sömu átt. Gönguhraðinn þarf að vera þokkalega góður og jafn í stað þess að byrja á spretthlaupi sem endar óneitanlega á því að menn verða á stuttri stundu uppiskroppa með orkuna.
Hugsum og ræðum vandlega um það hvaða þjónustu við viljum að börn okkar hafi aðgang að og hvernig við ætlum raunverulega að láta það verða að veruleika.
Höfundur er sálfræðingur og starfar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.