Undanfarin ár hefur ítrekað komið upp sú staða að kjörnir fulltrúar almennings hafa orðið uppvísir að því að gera ekki grein fyrir eigin hagsmunum á sama tíma og þeir hafa verið að taka ákvarðanir um þessa sömu hagsmuni, sem kjörnir fulltrúar. Hæfisreglur stjórnsýslulaganna taka vissulega á slíkum tilvikum og menn eiga ekki að geta verið í þessari stöðu. Gallinn er bara sá að þegar menn hafa grafið upplýsingar um sína hagsmuni djúpt ofan í skúffum ráðuneyta eða á aflandseyjum er enginn til frásagnar um þá. Og þeir sjálfir steinþegja.
Um þetta fjallaði heill kafli í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar er sérstaklega talað um góða „samstöðu“ milli stjórnmálamanna og aðila í fjármálalífinu, um að stefnumótun stjórnvalda um fjármálakerfið hafi verið lítilfjörleg og einkum einkennst af því að heimila útrásarvíkingunum að haga sér eins og þeim sýndist og draga úr eftirliti og heimildum til inngripa. Þar er líka fjallað um myndarlega styrki sem stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök þáðu frá hagsmunaaðilum í atvinnulífinu. Sem eitt og sér ætti að gera stjórnmálaflokka og -menn vanhæfa til að fjalla um þá hagsmuni. Stjórnmálamenn flokkuðu gagnrýni sem öfund og óvild og sögðu sérfræðinga þurfa að sækja endurmenntun. Talað var um „pólitíska lömunarveiki“ þegar á reyndi. Sem er ekki sjúkdómur heldur val. Þeir sem höfðu vald til að koma í veg fyrir hrunið, hlustuðu ekki á sérfræðinga, losuðu um allar hömlur, veiktu eftirlitið meira en þeir þurftu og beinlínis lugu um ástandið þegar hér var allt komið í kaldakol. Lærdómurinn sem skrifaður var í Rannsóknarskýrslu Alþingis var að efla þyrfti fagmennsku og stórbæta vinnubrögð innan stjórnsýslunnar og að stjórnmálamenn þurfi að setja sér siðareglur sem draga fram og skerpa þá ábyrgð sem í störfum þeirra felst.
Það er heldur ekki boðlegt á árinu 2017 að kjörnir fulltrúar feli persónulega hagsmuni sína til að geta sýslað með þá í skjóli hylmingar. Það er heldur ekki boðlegt að fela sig á bak við eigin túlkun á ákvæðum laga. Störf kjörinna fulltrúa þurfa að vera vandaðri en svo að þau eingöngu standist lög. Þau þurfa að einkennast af heiðarleika, þau þurfa að vera gagnsæ og þola dagsljósið og þau eiga alltaf að einkennast af því að hagsmunir almennings séu teknir fram yfir eigin persónulega hagsmuni. Og hagsmunir almennings eiga alltaf að njóta vafans. Fréttastofa Ríkisútvarpsins á ekki að þurfa að kæra skort á upplýsingum, sem eiga, lögum samkvæmt að vera aðgengilegar. Við eigum ekki að þurfa að slást við kerfið til að komast að því að forsætisráðherra sé að vandasamri stöðu vegna gjörða föður síns eftir að Sjálfstæðisflokkurinn allur lagðist þver í feluleiknum við að fela þá stöðu. Við eigum ekki að þurfa erlenda rannsóknarfjölmiðla til að komast að því að annar forsætisráðherra eigi auðæfi falin á aflandseyjum og hafi ekki greitt af þeim skatta hérlendis. Eins og við hin.
Það eru stórar og mikilvægar ákvarðanir framundan fyrir okkur Íslendinga. Íslenska ríkið á gríðarleg verðmæti sem hafa byggst upp í fjármálakerfinu í endurreisninni eftir hrun. Og nú ætla báðir þeir kjörnu fulltrúar sem gegnt hafa sem forsætisráðherrar, og ég nefndi hér að framan, að seilast í þá fjármuni með því að selja bankana. Ég á hins vegar í verulegum vandræðum með tvennt, hafandi tekið slaginn við einn þessara banka, ekki einu sinni heldur tvisvar.
Í fyrsta lagi treysti ég ekki þessum mönnum. Þeir hafa sýnt það ítrekað að þeir láta eigin hagsmuni ganga fyrir hagsmunum almennings. Það er ekki boðlegt. Við eigum betra skilið. Í annan stað get ég ekki séð að við höfum enn þann dag í dag dregið þann lærdóm sem við hefðum átt að draga af Rannsóknarskýrslunni. Það er ekki búið að móta heildarstefnu um fjármálakerfið. Við höfum ekki eflt eftirlit með bönkunum. Og stjórnmálamenn afgreiða gagnrýni ennþá sem öfund og óvild. Fagmennskan er af jafn skornum skammti og hún var þegar bankarnir voru seldir upphaflega. Og nú vilja sömu flokkar (eða afsprengi þeirra) komast að þessum kjötkötlum sem sannanlega eru sameign okkar allra.
Við höfum búið við pólitískan óstöðugleika of lengi, farið í gegnum hrun og í gegnum ósanngjarnt uppgjör eftir það. Þar hefur meðaljóninn borgað brúsann, ekki sérhagsmunaelítan sem hefur setið í forsætisráðuneytinu undanfarin misseri. Okkur hefur samt tekist að svipta hulunni af leyndarhyggju og óheiðarleika sem sprengir ríkisstjórnir og kostar þjóðina bæði fjármuni og óróleika í samfélaginu. En nú þarf kjark til að spyrna við fótum.
Við þurfum að endurheimta heiðarlega sterka stjórn á Íslandi, sem hefur heiðarlegar rætur og leggst ekki flöt í vind eins og strá til að verja hagsmuni sína. Ríkisstjórn úr heiðarlegum flokkum þarf að geta gefið þjóðinni þá tilfinningu að hún viti hvað hún er að gera. Veljum þá sem eru lausir við óheiðarlega sögu, strúktúr sem tryggir völd þeirra gráðugu og eru lausir við að þurfa að endurgjalda fjárhagslega greiða á kostnað almennings. Veljum þá sem hafa kjark til að breyta því sem við getum breytt.
Höfundur er þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.