Það hefur verið skammt stórra högga á milli í íslenskri knattspyrnu undanfarnar vikur. Kvennalandsliðið okkar hefur sýnt og sannað að það er innistæða fyrir þátttöku þess í stórmótum, nú síðast með glæsilegum sigri á sigursælasta landsliði knattspyrnusögunnar, því þýska, og með jafntefli við það tékkneska. Rétt rúmlega 340.000 manna eyland við heimskautsbaug er á leiðinni með karlalandslið sitt á einn stærsta íþróttaviðburð jarðar, HM í Rússlandi næsta sumar, og sló tugmilljónaþjóðum með ríka knattspyrnuhefð og margfalt meiri burði til að halda úti öflugu landsliði ref fyrir rass. Hvernig getur þetta gerst?
Auðvelt er að grípa til þess að klappa þjóðarsálinni bara duglega á bakið, því við séum nú bara svona frábær. Íslenska geðveikin, víkingaeðlið, sagan, menningin og allur sá pakki. Slíkar útskýringar hrökkva þó skammt þar sem við vorum nákvæmlega jafn geðveik og nákvæmlega jafn miklir víkingar í eðli okkar þegar við vorum ömurleg í fótbolta. Skýringanna verður að leita annars staðar.
Tilviljun, eða hvað?
Sannleikurinn er sá að þessi frábæri árangur er alls engin tilviljun, heldur afleiðing ferlis sem hófst fyrir alvöru árið 2002, með meðvitaðri stefnubreytingu innan KSÍ. Þjálfaramenntun var efld og alþjóðlega vottuð. Þjálfun yngri flokka fór úr því að vera unnin af lítt menntuðum áhugamönnum, oft á tíðum foreldrum eða öðrum aðstandendum barnanna í sjálfboðavinnu, yfir í að vera unnin af vel menntuðum knattspyrnuþjálfurum sem fengu greitt fyrir sína vinnu.
Veglegum fjárhæðum var veitt í uppbyggingu innviðanna sem þarf til að iðka knattspyrnu allt árið um kring á 66. gráðu norður. Fjölmörg knattspyrnuhús, gervigrasvellir og meira en 130 minni sparkvellir voru reistir um land allt þar sem börn gátu leikið sér að vild.
Árangur KSÍ á sínu sviði á heimsvísu er eitthvað sem aðrar menntastofnanir, hvort heldur sem er á grunn-, framhalds- eða háskólastigi geta ekki einu sinni byrjað að láta sig dreyma um. Við erum ekki í heimsklassa í raunvísindum, læknisfræði, félagsvísindum, iðn- og tæknifræði, listnámi, landbúnaðarvísindum né neinu öðru. Erlendar menntastofnanir á þeim sviðum eru ekki á leiðinni í neinar pílagrímsferðir til Íslands til að yfirheyra skólastjóra landsins um hvernig þeir geti breytt sínum skólum til að vera meira eins og við.
En í okkar huga er þó stærsti kosturinn við þetta knattspyrnu ævintýri ekki árangurinn sem slíkur, knattspyrnulegur eða þjóðhagfræðilegur, heldur sú einfalda staðreynd að KSÍ hefur vísað þjóðfélaginu okkar veginn og sýnt okkur hverju er hægt að áorka þegar hlutirnir eru gerðir vel, því aðferðafræðina sem KSÍ hefur fylgt er hæglega hægt að yfirfæra á nokkurn veginn allt sem samfélag tekur sér fyrir hendur.
Setjum okkur markmið
Hvað ef við einsettum okkur að innan einhvers ákveðins tímaramma muni Íslendingur, eða manneskja menntuð á Íslandi verða tilnefnd til Nóbelsverðlauna? Eða hljóta Fields-orðuna, æðstu viðurkenningu stærðfræðinnar? Eða sambærileg verðlaun í öðrum geirum? Hversu langt getum við náð ef viljinn er fyrir hendi, og hversu æðislegt væri það ef við myndum ná jafngóðum árangri í einhverju sem sannarlega skiptir máli? Fyrir marga er knattspyrna lífið, en í víðara samhengi hlutanna er hún nú samt ekkert annað en leikur spilaður fólki til dægrastyttingar.
Tökum eitt dæmi frá meginlandi Evrópu. Á svipuðum tíma og KSÍ lagði af stað í sína vegferð setti Holland sér það markmið að framleiða tvöfalt meira af matvælum með helmingi minna álagi á náttúruauðlindir. Og viti menn, með samstilltu átaki ríkis, sveitarfélaga, einkageirans og menntastofnana hefur þetta pínulitla land slegið öll met í matvælaframleiðslu per hektara af ræktarlandi og á sama tíma snarminnkað notkun á vatni, áburði, sýklalyfjum, skordýraeitri og eiginlega öllu sem þarf til að framleiða matvæli. Hollenskt hugvit og tækni í landbúnaði er nú flutt út til meira en 140 landa, og fólk flykkist til landsins til að nema við hollenska landbúnaðarháskóla.
Í þessu verkefni er þungamiðjan sú sama og í stefnu KSÍ - fjárfesting í menntun, mannauði og innviðum.
Spilling, sérhagsmunagæsla og pólitísk inngrip
Áhangendur króatísku og tyrknesku landsliðanna, sem fóru hamförum á samfélagsmiðlum, voru á einu máli um hvers vegna liðin þeirra hefðu ekki staðið sig sem skyldi í undankeppninni: spilling, sérhagsmunagæsla og pólitísk inngrip.
Á Íslandi er allt gott
Hljómar þetta ekki óþægilega kunnuglega þegar við hugsum um flest okkar kerfi hér á landi? Hvers vegna er öll stefnumörkun til framtíðar í skötulíki. Hvers vegna hafa stjórnvöld ekki sett sér nein markmið fyrir framtíðina, og þá að sjálfsögðu með samtali við þjóðina. Hvers vegna felast aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst í því að bregðast við orðnum hlut?
Getur hugsast að hér séu að hluta til svipaðar aðstæður og í ofangreindum löndum? Rifjum upp nokkur mál sem benda til þess: Ógagnsætt fjármálavafstur Bjarna Benediktssonar og sein skýrsluskil; skipan vina og vandamanna í Landsdóm; svokölluð leiðrétting húsnæðislána til þeirra sem þurftu ekki á henni að halda; árangurslaus vinna sáttanefndar um sjávarútveg vegna þess að hagsmunaaðilar hafa ákveðin stjórnmálaöfl í vasanum, m.a. með veglegum styrkjum; tilburðir dómsmálaráðherra við að reyna að koma í veg fyrir að nokkrar ungar stúlkur gætu fengið að vita hverjir hefðu skrifað upp á að maðurinn sem misnotaði þær væri nú þegar öllu væri á botninn hvolft bara ágætis náungi. Með öðrum orðum: spilling, sérhagsmunagæsla og pólitísk inngrip.
Er ekki kominn tími á rauða spjaldið?
Höfundar skipa 1. og 9. sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi.