Stundum kemur fram á sjónarsviðið manneskja, manneskja sem markar spor. Hún er áberandi í umræðunni. Eftir því sem þú kynnir þér betur fyrir hvað hún stendur og hvað hún hefur að segja, þá heillar hún þig meira og meira. Vegna vitsmuna sinna. Í þér vaknar baráttuandi og eldmóður gerir vart við sig. Vegna þess að innihald þess sem hún hefur að segja hefur gríðarlega sterk og mikilvæg skilaboð. Til mín. Til þín. Til okkar allra.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur átt stóran og mikilvægan þátt, lengi vel, í umræðunni um ofbeldi - kynferðisofbeldi. Nú á dögunum samdi hún ljóðið Fjallkonan 2017. Að lesa ljóðið gaf mér gæsahúð, margsinnis. Að horfa á hana flytja það á myndbandi, þar sem leikræn tjáning og tilfinningar fóru í að segja orðin – VÁ! Mér fannst hún tala til mín. Ég hef horft á myndbandið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Og ég veit að ég mun horfa aftur. Ég vona að þú, sem lest þessa grein, horfir á myndbandið líka og heyrir, þá meina ég VIRKILEGA heyrir skilaboðin sem þau hafa að geyma.
Við, sem samfélag, virðumst orðin samdauna svo ósköp mörgum, skringilegum hlutum, þegar kemur að samskiptum kynjanna. Hegðun sem flestir virðast hættir að kippa sér upp við. Súru og óþolandi atferli sem er svo algjörlega fráleitt að við sættum okkur við að teljist á pari við eitthvað eðlilegt. Svo ég vitni í orð Þórdísar Elvu og bæti um leið við: Höfum hátt og rjúfum þessa fáránlegu samfélagssátt um að þessir hlutir séu í lagi. Þeir eru nefnilega ekki í lagi.
Ég vil tileinka Þórdísi Elvu ljóðið sem ég samdi, stútfull innblásturs vegna hennar áhrifa. Einnig vil ég tileinka það öllum þeim konum sem hafa einhvern tímann orðið fyrir kynferðislegri áreitni, hversu stórri eða smárri sem hún kann að hafa verið. Um leið vona ég að fleiri ákveði að taka þátt og vera með í að standa upp fyrir jafnrétti. Við búum yfir afli - við eigum röddina okkar. Höfum þor! Höfum hátt og höfum svo aðeins hærra. Í sameiningu. Látum raddir okkar heyrast!!!
Til þín sem gerir lítið úr konum
Meiri skilning, meiri kærleik Hvar er umhyggjan fyrir náunga þínum? Týnd í þínum eigin hrokalínum?
Hvernig getur karlmaður tjáð sig um reynsluheim hins kynsins? Hefur hann upplifað tímana tvenna? Þetta er enn í gangi, þegar og þá, með og án vínsins, þetta sérkennilega norm að tala niður til kvenna.
Minna af hrútskýringum um það sem þér fannst hann segja Eigum við hin hvað, bara að þegja? Ef upplifun okkar og meiningin þín er ekki sú sama af orðunum sem þú segir, þá er réttlætingin þín hver? „Hún er samþykk á meðan hún þegir“? Er þá í lagi að hver og einn hegði sér eins og hann vill? Skítsama um tilfinningar og mörk? Nei veistu, ég verð af þessu fokill! Þetta eru nefnilega ekkert annað en SPÖRK! Spörk í tilfinningar og mörk.
Þú segir að meiningin að baki sé góð og við erum vön að taka það gott og gilt, við, sem þjóð. En veistu! Þú virðir ekki konur og það er löngu orðið ljóst. Þér finnst þær krúttlegar og sætar, og hey – fíla ekki allir brjóst? En vitsmunalega fá þær ekki þína virðingu. Því fyrir þér eru þær fyrir neðan þína virðingu.
Fer ég með rangt mál? Æj, úpps, er ég að særa þína sál? Getur þú sannfært mig um að ég sé með vitleysu að fara? Þett‘er allt í góðu, ég mana þig, gerðu það bara. Hrútskýrðu fyrir mér enn einu sinni hvað ég á ekki rétt á tilfinningunum sem búa innan í sálu minni. Reyndu það bara og fús mun ég fara. Hætta að vera óþægileg, því það er svo fjandi illa séð. Hætta að standa með mér og standa á mínu Þér finnst það þægilegra er það ekki, ef ég þegi bara pínu?
En ég ætla ekki að þegja. Ég hef fullt af skoðunum. Veistu hvað – ég er ákveðin líka! Æj alveg rétt, það er ekki til neitt sem heitir ‘ákveðin kona‘. „Hún hlýtur að vera einhver andskotans píka“. „Alltaf í þessari einhver helvítis læti, ..mætti halda að kjéllan væri með einhvers konar blæti!“ Hún er auðvitað ‘frekja‘ er það ekki, - eins og það yfirfærist á okkar ylhýra mál. Þú þykist svo mikið vita hvað á sér stað í minni sál. Þú ákveður hvernig mér beri að líða. En hinkraðu augnablik, er sjéns fyrir þig aðeins að bíða? Prófa þú kannski að líta í sálu þína áður en þú gefur þér bessaleyfi til þess að ritskoða mína!
Komdu með hrútskýringu aðra en að þetta hafi bara verið grín. Og ekki túlka orð mín sem einhverja ‘nýfundna‘ sýn. Þú hélst einfaldlega að þú værir stikkfrí og kvartar nú undan því. En samstaðan er skýr. Í burtu með þessi úreltu viðhorf. EINN TVEIR OG ÞRÍR!!!
#einntveirogþrír #höfumhátt #höfumhærra #égergosið