Í nýlegri grein á Kjarnanum notar Ólafur Margeirsson mig sem dæmi um hagfræðing sem skilji ekki hvað verðtrygging sé slæm. Ólafur telur sig líka vita ástæður misskilningsins sem sé að ég sé nýklassískur hagfræðingur og telji að „peningar (séu) hlutlaus hula í viðskiptum“. Póst-keynesistar eins og hann skoði hins vegar greiðsluflæði og skilji þess vegna hversu vond verðtryggingin er.
Ég varð svolítið hissa þegar ég las þetta. Ég fæ að vísu ekki séð að Ólafur skýri hvernig sú niðurstaða að peningar séu hlutlaus hula í viðskiptum leiði til tiltekinnar afstöðu til verðtryggingar. Það flækir málið enn fyrir mér að í greininni sem ég skrifaði og hann vitnar í máli sínu til stuðning, Verðtrygging og peningastefna (2009), fjalla ég ekkert um hlutleysi peninga en skoða greiðsluflæði verðtryggðra og óverðtryggðra lána.
Afstaða mín til verðtryggingar mótaðist ekki af hagfræðikenningum heldur af reynslu minni af íslenskum efnahagsmálum á 8. áratug síðustu aldar. Ég horfði upp á hvernig lánastofnanir hækkuðu vexti á eftir verðbólgunni sem varð tugir prósenta. Þótt vextirnir væru lægri en verðbólgan ollu þeir því að greiðslubyrði óverðtryggðra lána varð gífurlega þung í byrjun og ógnaði fjárhagsstöðu fjölda heimila og fyrirtækja. Óviðbúið bankakerfi reyndi að bregðast við þessum aðstæðum m.a. með því að framlengja lán og búa til fyrirbæri sem hét „verðbótaþáttur vaxta“, þ.e. sá hluti áfallinna vaxta sem skyldi leggjast við höfuðstól og greiðast síðar. Mér fannst verðtrygging alltaf augljós lausn á þeim vandamálum sem mikil verðbólga á 8. áratugnum leiddi af sér.
Ólafur telur verðtryggð lán „ýta undir áhættutöku á fasteignamarkaði“ og „ýta undir líkurnar á fjármálalegum óstöðugleika“ auk þess sem hann segir það rangt hjá mér að þegar verðbólga sé mjög óviss minnki framboð á óverðtryggðum langtímalánum. Ég skora á Ólaf að skoða þessar fullyrðingar í ljósi þróunarinnar á 8. áratugnum. Það er auðvelt að afla gagna um gífurlegan samdrátt í framboði á lánsfé á þessum tíma.
Hvað á að ráða fyrirkomulagi á fjármálamarkaði
Ólafur gerir mikið úr því að verðtrygging hamli virkni peningastefnunnar. Gott og vel, ég taldi mig í áðurnefndri grein útskýra af hverju það gæti verið rétt að einhverju leyti. Ég get samt ekki að því gert að mér finnst ekki sjálfgefið að þar með sé verðtryggingin af hinu illa. Ég held að jafnari greiðslubyrði (m.v. laun og tekjur) sé mikill kostur. Ég held líka, gagnstætt Ólafi, að verðtrygging leiði til minni áhættutöku á fasteignamarkaði vegna þess að fólk getur tekið hærri lán án þess að fara sér að voða fjárhagslega og að það leiði til minni hættu á fjármálalegum óstöðugleika. Þessir kostir verðtryggingar við aðstæður þar sem veruleg hætta er á mikilli verðbólgu, eins og var hér áður, hljóta að vega á móti ókostunum.
Eru verðtryggðir raunvextir lægri
Ólafur fullyrðir að verðtryggð lán „tryggja lántökum ekki lægri raunvexti m.v. óverðtryggð lán.“ Ég veit ekki um neinn sem fullyrðir að slík trygging sé til. Rannsóknir sýna hins vegar að þar sem vextir ákvarðast á markaði eru raunvextir á verðtryggðum lánum að jafnaði lægri. Skýringin á því liggur í að fólk forðast áhættu og vill fá greitt fyrir að taka á sig áhættu við að lána fé á óverðtryggðum kjörum. Bæði nýklassískir hagfræðingar og póst-keynesískir geta fallist á þessa röksemdafærslu fyrir því að raunvextir verðtryggðra lána séu að jafnaði lægri. Fyrir þá sem enn efast geta skoðað heimasíður íslenskra banka og borið saman raunvexti á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum en þar eru vextir af óverðtryggðum lánum reiknaðir með því að bæta áætlaðri verðbólgu við vexti af verðtryggðum lánum og svo smá viðbót til að mæta verðbólguáhættunni. Auðvitað getur svo farið að verðbólgan verði meiri en sem nemur áætlun bankans og raunvextir óverðtryggða lánsins verði lægri á einhverju tímabili. Reyndar er óhjákvæmilegt að svo verði einhver tímann! En að jafnaði ætti áhættuálagið að leiða til þess að raunvextir óverðtryggða lánsins verði hærri.
Það er rétt að nefna það að raunvextir á óverðtryggðum lánum bankanna voru mun lægri en verðbólgan á 8. áratugnum og mun lægri en raunvextir á verðtryggðum húsnæðislánum Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Skýringin á þessu er að allir vextir í bönkum landsins voru ákveðnir í Seðlabankanum á þessum tíma. Neikvæðu raunvextirnir fluttu til mikið fjármagn, t.d. frá lífeyrissjóðum.
Hlutleysi peninga
Það er algengt að hagfræðingar geri ráð fyrir að peningar séu hlutlausir til langs tíma, þ.e. að þeir hafi ekki áhrif á raunstærðir (hagvöxt, raunvexti o.fl.) til langs tíma. Nýklassíski hagfræðingurinn Keynes gerði ráð fyrir þessu en sagði líka að „þegar til langs tíma er litið þá erum við öll dauð“. Þessi forsenda hafði sem sagt lítið praktískt vægi að hans mati. Milton Friedman – sem örugglega taldi sig nýklassískan hagfræðing og taldi að peningar væru hlutlausir til langs tíma – skrifaði, ásamt Anna J. Schwartz, mikinn doðrant sem kom út árið 1963, Monetary history of the United States 1867-1960, þar sem kreppan mikla í Bandaríkjunum er skýrð með mistökum seðlabankans við stjórn peningaframboðs og truflunum á flæði peninga. Í þeirri bók eru peningar langt frá því að vera hlutlausir.
Það hafa vissulega verið til hagfræðistefnur sem telja að peningar séu ekki bara hlutlausir til langs tíma heldur einnig til skamms tíma og þar af leiðandi geti peningastefna hvorki haft áhrif á þróun hagkerfisins til skamms tíma eða langs tíma. Raunhagsveiflu-líkan (Real Buisness Cycle Model) Prescott og Kydland frá árinu 1982 er dæmi um slíkar kenningar. Í dag eru þessar kenningar á undanhaldi og þjóðhagslíkön almennt þannig úr garði gerð að peningar eru ekki hlutlausir yfir hagsveifluna og peningastefnan því virkt tæki til að hafa áhrif á hana. Í seðlabönkum í dag eru algeng líkön sem nefnd eru ný-keynesísk (new keynesian). Þessi líkön innihalda margt af því sem póst-keynesistar hafa lagt áherslu á, t.d. fákeppni, að peningaframboð sé innri stærð og að verð og laun séu tregbreytanleg. Af einhverjum ástæðum, sem ég átta mig ekki alveg á, er póst-keynesistum dagsins yfirleitt í nöp við þessar ný-keynesísku kenningar.
Meira um aðferðafræðina
Satt best að segja veit ég ekki hvort ég er nýklasssískurhagfræðingur. Á 8. áratugnum og fram á þann 9. taldi ég mig standa nálægt póst-keynesistum. Ekki man ég eftir því að afstaða mín til verðtryggingar hafi breyst á ferð minni í átt til nýklassískrar hagfræði. Ég leitast við að skilja og skýra þau fyrirbæri sem ég er að skoða út frá þeirri hagfræðiþekkingu sem ég hef aflað mér. Ég held að það nýtist mér að ég hef kynnt mér ólíkar stefnur innan hagfræðinnar, t.d. verk Kaldors, Kaleckis, Sraffa, Robinson, Pasinettis o.fl. hagfræðinga sem póst-keynesistar dagsins hafa í hávegum. Ég held að sem betur fer gildi það um flesta hagfræðinga að þeir skoða málin út frá efnisatriðum og lesa sér til í skrifum þeirra hagfræðinga sem hafa fjallað um málin af mestri skynsemi en ekki eftir því í hvaða flokki kenningarnar eigi heima. Í grein í Morgunblaðinu 14. október sl. byggir t.d. dr. Tryggvi Þór Herbertsson röksemdafærslu sína á alhæfingum um hlutfall launakostnaðar í landsframleiðslunni sem póst-keynesistinn Nicholas Kaldor setti fram fyrir margt löngu. Ég reikna með að ef Tryggvi yrði spurður mundi hann svara því til að hann væri nýklassískur hagfræðingur.