Það er sérstök tegund af oflátungshætti sem birtist í skrifum Þorsteins Víglundssonar, starfandi velferðarráðherra, í Fréttablaðinu í gærmorgun. Þar veltir hann því upp hvort framtíðinni verði slegið á frest, verði ríkisstjórn sú sem nú er rætt um að veruleika. Og til að fullkomna merkimiðapólitík sína skellir hann stimplum um þjóðernisíhald á flokkana þrjá sem nú eru í viðræðum.
Oflætið birtist í því að telja sjálfan sig, og sinn flokk, hina einu sönnu framtíð. Að flokkar með aðra stefnu en Þorsteinn stendur fyrir, muni slá framtíðinni á frest. Þorsteinn sjálfur og Viðreisn virðast hins vegar vera fulltrúar hinnar einu réttu framtíðar.
Almennt séð er það stórhættulegt þegar stjórnmálamenn, og -flokkar, fara að líta á sig sem eina svarið við framtíðinni. En látum það vera, skoðum frekar þá framtíð sem Þorsteinn sjálfur boðar. Og boðar ekki aðeins, heldur hefur unnið að, barist fyrir og samþykkt á Alþingi.
Framtíð Þorsteins og Viðreisnar birtist okkur nefnilega ágætlega í nýsamþykktri fjármálastefnu 2018-2022. Fjármálaráðherra Viðreisnar er höfundur þeirrar stefnu og Þorsteinn og aðrir flokksfélagar töluðu mjög fyrir henni. Svo mjög, í tilfelli Þorsteins, að fyrir kom að hann skriplaði á skötu þegar kom að því að fara með tölur; t.d. hvað varðar stöðu öryrkja eða framlög til Landspítalans.
Framtíð Þorsteins Víglundssonar er samdráttur samneyslunnar, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hún snýst um að fara ekki í þá nauðsynlegu uppbyggingu innviða landsins sem allir flokkar töluðu um fyrir kosningarnar 2016 og aftur 2017. Hún snýst um að halda í horfinu og fela metnaðarleysið í því að tala um fjölda króna til málaflokka til að sýna fram á hækkun, en ekki hlutfall. Hún snýst um að ná markmiðum OECD um aukið hlutfall á hvern nemenda í háskólum landsins, ekki með því að auka fjárframlögin til muna, heldur að fækka nemendum. Hún snýst um að hækka frítekjumark aldraðra á nokkrum árum, en lofa reyndar meiru þegar kosningar eru að bresta á. Hún snýst um að standa ekki við samþykktir Alþingis þegar kemur að samgöngum. Hún snýst um stórfelldar skattahækkanir á eina atvinnugrein án nokkurs samráðs og með litlum fyrirvara. Hún snýst um smánarlega lága hækkun til reksturs í heilbrigðiskerfinu, en að fela það í stærri framlögum til framkvæmda.
Sjálfur nenni ég ekki að taka þátt í merkimiðaleik Þorsteins. Látum heldur málefnin og verkin tala sínu máli.
Nýr formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur boðað að flokkurinn muni stunda nýja tegund stjórnarandstöðu, nú muni málefnin og sanngirnin ráða för. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það fer, endi flokkurinn þá í stjórnarandstöðu. Í það minnsta hefur Þorsteinn ekki fallið frá sinni frasapólitík.
Vinstri græn eru nú í viðræðum við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk um mögulega myndun ríkisstjórnar. Við gengum til þeirra viðræðna með þá von í brjósti að ná fram sem mestu af okkar málefnum og til að ná fram breytingum á stefnunni sem Viðreisn vann hvað mest að og birtist í fjármálastefnu 2018-2022 og fjárlögum ársins 2018. Vonandi tekst að sannfæra Sjálfstæðisflokkinn um nauðsyn stefnubreytingarinnar.
Ég vona innilega að Þorsteinn reynist sannspár og þeirri framtíð sem Viðreisn barðist fyrir og fékk samþykkta á þingi verði slegið á frest. Raunar vona ég að hún verði aldrei að veruleika, heldur aðeins heimild fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar um framtíð sem hefði getað orðið en tókst sem betur fer að koma í veg fyrir.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.