Fyrrverandi framkvæmdarstjóri atvinnurekenda og velferðarráðherra, Þorsteinn Víglundsson, skrifar í Kjarnann 6.11. s.l. grein undir fyrirsögninni: „Látið lífeyrissjóðina okkar í friði”, sem virðist eiga að skýra viðhorf hans í því máli og stöðu atvinnurekenda, en þeir stjórna lífeyrissjóðunum með fulltrúum frá verkalýðsforystu landsins, sem hafa sagt að lífeyrissjóðsgreiðslur sé nokkurs konar skyldutryggingargjald!
Þorsteinn segir orðrétt í upphafi greinarinnar: „Gegnumstreymiskerfi, líkt og einkennir lífeyriskerfi flestra Evrópuríkja í dag, lendir óhjákvæmilega í vandræðum eftir því sem þjóðir eldast” Síðan segir hann orðrétt nokkrum línum aftar: „Í það minnsta þrír flokkar af þeim átta sem eiga fulltrúa á þingi í dag hafa það á stefnuskrá sinni að grípa inn í lífeyriskerfið með einum hætti eða öðrum og jafnvel snúa frá söfnunarkerfi yfir í gegnumstreymiskerfi að hluta, þvert á það sem flestar nágrannaþjóða okkar eru að gera.” Það er rétt, að okkar kerfi eigi sér ekki fyrirmynd meðal nágrannaþjóða.
Síðan kemur greinin með samfæringamætti talna, sem eiga að réttlæta að ríkissjóður hirði stóran hluta af lífeyrissparnaði sem launþegar landsins hafa verið skyldaðir með lögum að safna. Það er gert með því að greiðslur frá almannatryggingakerfinu eru skertar sem nemur því sem láglaunalaunþegi fær útgreitt úr sínum lífeyrissjóði . Þannig nýtur hann þess ekki að hafa á starfsævi sinni greitt í lífeyrissjóð, sem notast átti á efri árum.
Lokakafli greinarinnar ber millifyrirsögnina: „Misvitrir stjórnmálamenn eyðileggi ekki skynsamlegt og vel rekið lífeyriskerfi” og réttlætir Þorsteinn þar, að skatturinn sé geymdur hjá lífeyrissjóðunum þar til kemur að útgreiðslu, þ.e.a.s. að í öllum töpuðum fjárfestingum tapi ríkissjóður og sveitarfélög, og þegar einstaklingar deyja tapi þessir aðilar skattinum sínum en lífeyrissjóðirnir græði, því að ekki njóta erfingjar neins í þessu lögþvingaða skattkerfi, sem átti upphaflega að vera vernduð eign einstaklinga.
Einnig má spyrja um meðferðina á útlendingum: Hvernig er farið með útlendinga, sem hafa unnið hér mörg undanfarin ár? Hvað fá þeir greitt til baka af þessum lífeyrissjóðsgreiðslum og hvenær?
Og hvað um möguleika launafólks að leggja allt að 3,5% í tilgreindan séreignasparnað, sem lofað var, en miðstjórn ASÍ hefur nú samþykkt að fari inn í samtryggingarkerfi lífeyrissjóðanna, - í lífeyrissjóðinn þeirra!
Skýrslan um framtíðarsýn í lífeyrismálum
Ég vil biðja þá aðila, sem skilgreina sig sjálfir sem eigendur lífeyrissjóða, að lesa skýrslu vinnuhóps fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 2015 um framtíðarsýn í lífeyrismálum. Þar kemur fram að iðgjöld til sjóðanna árið 2013 voru 109,4 milljarðar, en útgreiðslur 59,5 milljarðar. Hjá 15 sjóðum námu greiðslur til lífeyrisþega að meðaltali minna en kr. 100 þús. á mánuði, hjá 7 sjóðum 100 til 200 þús kr og aðeins hjá 5 sjóðum nam greiðslan til lífeyrisþega að meðaltali meira en kr. 200 þús. á mánuði. Í skýrslunni er greint frá því að frá 1969 hafi iðgjald numið 12% af dagvinnulaunum, en frá árinu 1986 hafi iðgjaldið verið greitt af öllum launum. Frá 1. júlí á þessu ári hækkaði iðgjaldagreiðslan í 14%, og á næsta ári hækkar hún í 15,5% og verður að viðbættum 6% séreignarsparnaði samtals 21,5%, þar af greiða atvinnurekendur fyrir launþega á næsta ári 11,5% og 2% í séreignasparnað. Skv. gildandi lögum eru þessar inngreiðslur til lífeyrissjóðanna ekki skattlagðar fyrr en kemur að útgreiðslu úr lífeyrissjóðunum. Árið 2013 var skattur af inngreiðslu um 40 milljarðar, en sama ár voru skatttekjur af útgreiðslu um 23 milljarðar, samkvæmt upplýsingum í skýrslunni.
Á þessu ári má áætla að ríkisjóður og sveitarfélög afhendi lífeyrissjóðunum um 80 milljarða skattgreiðslu, en fái um 40 milljarða við útgreiðslu úr sjóðunum. Um 40 milljarðar væru því til nota fyrir samfélagið ef lífeyriskerfinu yrði breytt. Samhliða þessum breytingum mætti t.d. mynda einn sjóð með A-deild, sem allir greiddu í frá breytingu, og skattur af inngreiðslum færi þá til ríkis og sveitarfélaga. Með því gæfist nýr kostur, t.d. að helmingur inngreiðslna yrði séreign viðkomandi, sem hann gæti ráðstafað til varðveislu sjálfur og B- deild tæki við samtryggingu og ábyrgð þeirra sem hefðu greitt til sjóðanna með inneign ríkis og sveitarfélaga í þeirri deild a.m.k. 1200 milljörðum.
Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða, tap þeirra og ríkisjóðs og sveitarfélaga
Rekstrarkostnaður með fjárfestingakostnaði er varlega áætlaður, samkvæmt úttekt Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR á ársreikningum lífeyrissjóða ársins 2016, um 17 milljarðar. Þar af er um 940 milljónir í launakostnað æðstu stjórnenda 14 stærstu sjóðanna með 46 stjórnendur og 96 stjórnarmenn, og ekki skrýtið að þeir geti talað um lífeyrissjóðina sína.Í hruninu töpuðu lífeyrissjóðirnir fimm til sex hundruð milljörðum, þar af má áætla að ríkissjóður og sveitarfélög hafi tapað um tvö hundruð milljörðum af ógreiddum skatti. Ekki verður með réttu sagt að fjárfestingar sjóðanna á þessum tíma hafi verið skoðaðar af óháðri rannsóknarnefnd, ekki fremur en fjárfestingarnar síðan, sem sjóðirnir hafa tapað á. Afleiðingar þessa urðu þær, að flestir sjóðanna þurftu að skerða verulega réttindi sjóðfélaga sinna. Einn lífeyrissjóður var þó þar undanskilinn. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem er ríkistryggður. Ríkið skuldar honum um fimm hundruð og sjötíu milljarða króna, sem öll þjóðin þarf á endanum að greiða, líka þeir lífeyrisþegar sem urðu fyrir réttindaskerðingu vegna veru í öðrum lífeyrissjóðum.
Skerðingarnar
Eftir hrun voru sett lög um að greiðslur til einstaklinga úr almannatryggingakerfinu skyldu skerðast að fullu, krónu á móti krónu, að því marki, sem þeir fengju greitt úr lífeyrissjóði. Þetta olli því m.a., að þeir sem nutu lágra lífeyrissjóðsgreiðslna, t.d., allt láglaunafólk og öryrkjar, fengu í raun ekkert úr sínum lífeyrissjóðum miðað við lágmarksbætur frá almannatryggingakerfinu. Að auki var gefin heimild fyrir starfsmenn Tryggingastofnunar að fara í framtöl þeirra sem nutu bóta frá almannatryggingum, til þess að skoða allar aðrar greiðslur til einstaklings til skerðingar, sem væri þá hægt að bakfæra ári síðar á móti greiðslum.Þannig er þetta kerfi fárra atvinnurekenda og forystumanna verkalýðsfélaga sprungið. Það byggir á allt að 100 lagaheimildum Alþingis frá 1969, með eignaupptöku og skerðingum, ásamt ótrúlegum rekstrar- og fjárfestingakostnaði, sem kallar á áframhaldandi hækkun greiðslna inn í kerfið. Þetta verða nýkjörnir alþingismenn, sem ekki eru tengdir þessu spillingarkerfi, að skoða og rannsaka í þágu þeirra sem raunverulega eiga það og ættu því að stjórna því og gera tillögur um úrbætur. Það eru launþegar sem hafa lagt fjármuni sína í sjóðina með lögþvinguðum hætti. Sú lögþvingun orkar tvímælis og þyrfti að fá úr því skorið hvort það standist eignarréttarákvæði stjórnarskrár, eða þau ákvæði þar, að engan sé hægt að skylda til aðildar að félagi, sem lífeyrissjóðsaðild vissulega er.
Höfundur er stjórnarmaður í Flokki fólksins.