Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og einn öflugasti stjórnmálamaður landsins fyrr og síðar, sýnir þessa dagana fádæma kjark. Þrátt fyrir talsverðan mótbyr stendur hún full sjálfstrausts í stjórnarmyndunarviðræðum við tvær öflugar valdablokkir í íslensku samfélagi, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Katrín sýnir með einbeitni sinni og áræðni aðdáunarvert fordæmi í hörðum heimi karllægra stjórnmála.
Það er sannfæring okkar að Katrín muni sjá til þess að baráttumál og hugsjónir VG fái gott brautargengi. Hún hefur sýnt það þau 10 ár sem hún hefur starfað á Alþingi að hún er í stjórnmálum af heilindum og ástríðu.
Niðurstöður nýliðinna kosninga gáfu hvorki hreint stjórnarmyndunarumboð til vinstri né hægri. Yfirstandandi viðræður eru söguleg tilraun til að sætta sjónarmið í samfélaginu og við treystum Katrínu og öðrum úr forystu VG til að leiða þessar viðræður til farsælla lykta. Við treystum því að okkar fólk fari ekki af stað í samstarf við nokkurn flokk án þess að áherslur VG í velferðar-, jafnréttis- og umhverfismálum verði settar á oddinn. Ef vel gengur við samningaborðið þá treystum við þeim jafnframt til þess að vinna ötullega að framgangi þessara mála í stjórnarsamstarfi.
Það þarf grettistak í mörgum stórum málaflokkum og það er verkefni sem þolir enga bið. Meirihluti þjóðarinnar, óháð því hvar pólitískt hjarta slær, er einhuga um að gera þurfi átak í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarmálum og samgöngumálum. Okkur þætti það miður ef forysta VG reyndi ekki til hlítar að svara kalli kjósenda og taka sér stöðu sem lykilaðili í nýrri ríkisstjórn til að vinna að þessu stóra verkefni með hugsjónir félagshyggjunnar að leiðarljósi. Vinstri hreyfingin grænt framboð, með Katrínu Jakobsdóttur í fararbroddi, á fullt erindi í ríkisstjórn og á ekki að óttast samstarf við nokkurn flokk.
- Berglind Häsler, bóndi í Berufirði.
- Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, Reykjavík.
- Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, myndlistarmaður, Reykjavík.
- Guðný Hildur Magnúsdóttir, félagsmálastjóri í Bolungarvík og Súðavík.
- Gunnhildur Hauksdóttir, myndlistarmaður, Reykjavík.
- Halla Sigríður Steinólfsdóttir, lífrænn bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi í Dalabyggð
- Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari í Neskaupstað.
- Kristín Þóra Kjartansdóttir, framkvæmdarstjóri Flóru, Akureyri.
- Sif Jóhannesdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.
- Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði.
- Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri.
- Þórey Bjarnadóttir, bóndi, Kálfafelli, Upphúsum.
- Þórunn Hrund Óladóttir, kennari og bæjarfulltrúi á Seyðisfirði.