Nýlega fór Stanford háskóli í Bandaríkjunum að bjóða uppá viðskiptaáfanga þar sem lesefnið var bók sem fjallar um niðurstöður rannsókna á því hvernig hjónabönd virka. Aðaláherslan í þessum áfanga var á að nemendur lærðu góðar samskiptaleiðir til að láta fyrirtæki blómstra. Eðlilega má velta fyrir sér hvaða erindi bók um árangursrík hjónabönd eigi í viðskiptanámi? Svarið er að hjónabönd og gott samstarf þrífst á sömu samskiptareglunum. Prófessor við viðskiptadeild Harvard háskóla heldur því fram að 65% fyrirtækja fari í þrot vegna ágreinings eigendanna. Þörfin fyrir bætt samskipti á því jafnt við í vinnunni og heima.
Hvernig við stofnum til hjónabanda er oft keimlíkt því hvernig við stofnum fyrirtæki. Við hefjum samband eða samstarf með fólki sem við þekkjum lítið sem ekkert fyrir. Í upphafi erum við meðvituð um kosti þeirra sem við erum að byrja með og eigum það til að horfa framhjá göllunum. Það að við þekkjumst lítið í upphafi og erum óhóflega bjartsýn er þó sjaldnast valdur þess að sambönd eða fyrirtæki flosna upp. Vandinn er að það gleymist eða því er meðvitað sleppt að ræða hvernig skuli tekist á við ágreining. Fólki í viðskiptum líkt og ástarsamböndum skortir oft færni og þekkingu á árangursríkum leiðum til að leysa ágreining.
Hjónabönd eru flókin en samstarf er jafnvel enn flóknara. Ólíkt því sem gerist í hjónabandi þá þurfa samstarfsmenn að vinna saman til að heilla fjárfesta, halda utan um mannauðinn (sem er fullorðið fólk en ekki börn eigendanna), koma sér saman um markaðsmálin og ræða eða kynna sambandið opinberlega. Það skiptir öllu máli að samstarfið sé gott, því betra samstarf því meiri líkur á að fyrirtækið lifi af óhjákvæmilegar breytingar og erfiða tíma.
Það sem námskeið eða bækur um hvernig við látum hjónabönd ganga upp geta kennt okkur má því bersýnilega nota bæði heima og í vinnunni. Rannsóknir á hjónaböndum hafa kennt okkur að ákveðnar aðferðir virka vel til að láta hjónabönd dafna. Þessar aðferðir má líka nýta í viðskiptum.
Tölum um erfiðu málin
Líkt og nýir elskendur þá kýs samstarfsfólk í nýju fyrirtæki oftar en ekki að forðast óþægilegar samræður og koma sér undan ágreiningi. En vandinn er að erfið mál eiga það til að vaxa ef þau eru látin óáreitt. Það er því mikilvægt í upphafi að taka stöðuna reglulega á samstarfinu samhliða praktískum atriðum eins og rekstrinum. Forvarnir skila meiri árangri en að reyna laga eftir á.
Andstæður laða
Í flestum fyrirtækjum (líkt og í nánum samböndum) er einhver sem þrýstir á það að stækka og breyta á meðan hinir hallast að því að vera varkárari. Öll sambönd sem eru lifandi og skemmtileg þurfa þessar andstæður öryggis og breytinga. Sá sem vill fara hratt kemur hugmyndum sínum á framfæri í öryggi þess að sá varkári komi hugmyndunum niður á jörðina. Endalaus stöðugleiki er leiðinlegur en of miklar breytingar þreyta okkur.
Þegar samstarfsfólk hættir að sjá andstæðurnar sem kosti súrnar samstarfið. Undir álagi riðlast jafnvægið á milli stöðugleika og breytinga og úr verður rifrildi. Þegar samstarfsfólk hættir að sjá hvernig andstæðurnar hjálpa fyrirtækinu fer það að hnýta í hvort annað.
Leysið ágreining eins og fullorðið fólk
Það að vera ósammála öðrum er eðlilegt og ágreiningur er ekki alltaf vandamál. Það hvernig við tökum á ágreiningi getur hins vegar orðið að vandamáli. Ef við hunsum ágreiningsmál er næsta víst að þau verða að vandamáli, sem oft breytist í kala sem kemur út í ásökunum. Þá er hætta á að horft sé á samstarfið allt í gegnum neikvæð gleraugu. Fólk fer að gera ráð fyrir ásetningi og myndar orsakasamhengi þar sem það á ekki við. Neikvæðu gleraugun láta okkur sjá hlutina í skökku ljósi t.d. þegar vel gengur er það heppni, en þegar illa gengur er það vegna vanhæfni samstarfsmannanna.
Til þess að viðhalda góðu sambandi þurfum við að sýna virðingu, kunna að hlusta og að taka ábyrgð á því hvaða þátt við eigum í samstarfinu.
Góð sambönd, góðir samstarfsfélagar og góð viðskiptasambönd takast á við sömu hindranir og þau sambönd sem slitna eða jafnvel springa. Góðu samböndin snúast ekki um heppni eða rétta tímasetningu. Fólk sem er í farsælum samböndum, heima eða í vinnu, hefur lært og nýtir sér leiðir til að takast á við hindranir á annan hátt en fólk í samböndum sem enda í skilnaði eða eru leyst upp. Góð samskipti auka lífsgæði allra.
Áslaug Kristjánsdóttir er hjúkrunar- og kynfræðingur og starfar sem kynlífsráðgjafi á Domus Mentis geðheilsustöð. Sjá nánar á aslaugkristjans.is og dmg.is.