Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur löngum verið vinsælt deiluefni og ekki síst þegar kosningar standa fyrir dyrum. Þannig lofuðu a.m.k. fjórir stjórnmálaflokkar í aðdraganda nýlegra kosninga að afnema verðtryggingu fortakslaust og að því er virtist án nokkurs tillits til víðtækra afleiðinga slíkrar aðgerðar á fjárhagslega afkoma stórs hluta kjósenda. Það er nefnilega athyglisvert að í allri þeirri miklu umræðu sem verið hefur undanfarin ár um verðtryggingu eru nær eingöngu skoðuð áhrif hennar á lán og lántakendur en fáum virðist hafa dottið í hug að skoða hina hlið málsins, hver eru áhrif hennar (og þá afnáms hennar) á eigendur sparifjársins, þá sem ekki hafa eytt öllu sínu aflafé heldur lagt til hliðar (oft með valdboði) hluta tekna sinna til elliáranna.
Árið 1998 tók Bjarni Bragi Jónsson, einn virtasti hagfræðingur landsins á síðustu öld og starfsmaður Seðlabanka Íslands um langt skeið, saman greinargerð um verðtryggingu lánsfjármagns og vaxtastefnu á Íslandi. Þar er gerð grein fyrir sögulegri þróun lánsfjármarkaðarins allt frá lokun síðari heimsstyrjaldar og áhrifum verðlagsþróunar á framboð lánsfjár. Þar segir Bjarni Bragi m.a:
„Þróunin í átt að almennri verðtryggingu var í stuttu máli vegna stórkostlegra og síendurtekinna verðbólguskota á Íslandi. Verðbólga áranna 1950‐1952 var að meðaltali 22,4% og milli áranna 1962‐1972 var meðaltalið 12%. Í framhaldi af því brustu allar stíflur og var meðalverðbólga 1973‐1983 46,5% ..... Þetta gerði það að verkum að sparifjárstofn þjóðarinnar, sem veitti aðeins óverðtryggða vexti, brann að stórum hluta upp. ...... Raunvextir lánakerfisins voru verulega neikvæðir, oft á bilinu 10‐20%. Samfelld rýrnun lánastofnsins árin 1972‐1983 nam á bilinu 4‐10% af landsframleiðslu eða sem samtals svarar henni hálfri........Þessi þróun leiddi til þess að staða innlána og seðla hrapaði úr 40% af landsframleiðslu ársins 1971 í rúm 20% 1980. Svipuð þróun var á öðrum kerfisbundnum sparnaði. Innlent lánsfjármagn í heild var 72% af vergri landsframleiðslu árið 1969 en var komið niður í 45% af landsframleiðslu árið 1979. Það var, með öðrum orðum, sífellt minni innlendur sparnaður fyrir hendi til útlána. Fjármagnsþörf var í vaxandi mæli mætt með erlendum lántökum og því erlendri skuldasöfnun.“
Í niðurstöðukafla greinargerðarinnar segir Bjarni Bragi m.a.: „...almenn rök stóðu til þess, að verðtrygging mundi varðveita fjárstofninn sjálfkrafa og raunávöxtun efla hann að auki með því að hvetja til nýs sparnaðar.....“
Höfuðmarkmið upptöku verðtryggingar var því að auka sparnað og um leið framboð lánsfjár í þjóðfélaginu – ekki til að gera ungu fólki erfiðara fyrir að kaupa sína fyrstu íbúð eins og oft má skilja á umræðunni í dag.
En hver yrðu áhrif afnáms verðtryggingar á kjör lífeyrisþega í almennu lífeyrissjóðunum, þ.e. annarra en sjóðfélaga í lífeyrissjóðum starfsmanna ríkisins? Tökum hér tilbúið dæmi af sjóðfélaga sem hóf töku lífeyris hjá einhverjum af almennu sjóðnum í janúar árið 2010 og lífeyrisgreiðslan þennan fyrsta mánuð nam 200.000 kr. Þá var vísitala til verðtryggingar 356.2 stig. Á næstu árum hækkaði lífeyrisgreiðslan skv. vísitölunni og í janúar 2017 var hún orðin 246.154 kr. en vísitalan var þá komin í 438.4 stig og hafði hækkað um 23.1 % frá janúar 2010.
Lífeyrisgreiðslan hækkaði sem sé um rúmlega 46 þús. kr., þökk sé verðtryggingunni eða í sama hlutfalli og almennt verðlag í landinu. Hins vegar fól þessi hækkun í sér enga aukningu kaupmáttar sem almennir launþegar nutu á tímabilinu. Án verðtryggingar hefði lífeyrisgreiðslan verið óbreytt, 200.000 kr. og fyrir þá upphæð hefði fengist um 19% minna vöru- og þjónustumagn en í jan. 2010, þ.e. kaupmátturinn hefði rýrnað um tæplega fimmtung. **) Á sama tíma hafði kaupmáttur almennra launþega hins vegar aukist um 31.9% ***) og lífeyrissjóðsfélaginn hefði því verið um 38% lakar settur hvað kaupmátt snerti en vinnandi félagi hans. Er þetta sú framtíð sem þeir verkalýðsleiðtogar sem hæst tala um afnám verðtryggingar vilja búa þeim félögum sínum sem eru komnir á lífeyrisaldur? Þökk sé verðtryggingunni er lífeyrisþeginn í þessu dæmi þó ekki nema 24% lakar settur en sá sem enn vinnur. Þessi munur á þó eftir að aukast eftir því sem tíminn líður, þar sem lífeyrisgreiðslan hækkar ekki eftir því sem kaupmætti launþega fleygir fram – enda óhægt að koma slíkri tryggingu við.
Verðtrygging fjárskuldbindinga var tekin upp þegar hvatinn til peningalegs sparnaðar í þjóðfélaginu var nánast algerlega horfinn vegna langvarandi verðbólgu og meðfylgjandi rýrnunar sparifjár. Þeir sem á annað borð voru aflögufærir reyndu að festa sparnað sinn í steinsteypu en framboð lánsfjár var mjög af skornum skammti. Megintilgangur verðtryggingarinnar var að tryggja framboð sparifjár, ekki að leggja drápsklyfjar á lántakendur. Sannleikurinn er sá, að þegar til lengdar lætur hefur kaupmáttur launa almennt hækkað, sem þýðir að launin hækka meira en almennt verðlag og greiðslubyrði verðtryggðu lánanna verður því léttbærari. Þessari staðreynd er lítt haldið á lofti af þeim sem mest gagnrýna verðtryggðu lánin enda hentar það ekki málflutningi þeirra. Verkalýðsleiðtogar mættu þó halda þessari staðreynd á lofti því hún sýnir að barátta þeirra fyrir bættum kjörum launþega er að bera ágætan árangur.
Niðurstaða þessarra hugleiðinga eru því sú, að afnám verðtryggingar mundi leiða til stórfelldrar skerðingar á lífskjörum lífeyrisþega almennu lífeyrissjóðanna sem er engan veginn ásættanleg.
___________________________________
*) Í grein þessari er eingöngu fjallað um kjör þeirra lífeyrisþega sem eiga aðild að almennu lífeyrissjóðunum.
**) Lækkun lífeyristekna sjóðfélagans um 46.154 kr. hefði leitt af sér hækkun ellilífeyris úr almanna-tryggingakerfinu um 20.769 kr. miðað við tilteknar forsendur.
***) Vístala kaupmáttar launa, sem Hagstofan reiknar út, var 105.5 stig í jan. 2010 en 139.2 stig í jan. 2017, þ.e. kaupmáttur launþega hafði almennt aukist um 31.9% á tímabilinu.
Ottó Schopka (f. 1941) er viðskiptafræðingur (H.Í. 1963) og starfaði árið 1964 í Seðlabankanum við undirbúning að útgáfu verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs. Hann hefur síðan komið víða við í atvinnulífinu sem stjórnandi, sjálfstæður atvinnurekandi og launþegi og er nú eftirlaunaþegi í Lífeyrissjóði verslunarmanna.