Það er ævintýri að ala upp barn segir í góðri bók og þar segir ennfremur að bernskan sé dýrmæt en á sama tíma viðkvæm. Börnin okkar þurfa góð ráð og leiðbeiningar til þess að geta tekið gifturíkar ákvarðanir og metið aðstæður rétt. Ráðgjafar barnsins eru foreldrar fyrst en líka vinir og vandamenn og annað samferðarfólk. Stjórnvöld verða að tryggja að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn séu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst eins og Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna kveður svo skýrt á um.
Sofni fylgdarfólk barnsins á verðinum er voðinn vís og það getur reynst óþroskuðum huga þess um megn að meta og taka réttar ákvarðanir, að velja og hafna því sem það stendur frammi fyrir eða heyrir. Þótt það séu að sjálfsögðu foreldrar barna sem bera þar mesta ábyrgð eru skólarnir lykilstofnanir í því að koma börnum til manns og gera þau hæf til þess að lifa og starfa í mannlegu samfélagi sjálfum sér og öðrum til hagsbóta. Sem menntaður og starfandi samfélagsfræðikennari hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að verulega þurfi að efla þurfi lífsleikni og samfélagsfræðikennslu í skólum.
Umræðan síðustu daga um kynferðislega áreitni og misnotkun gagnvart konum í íslensku samfélagi og það samfélagsmein sem þar hefur komið í ljós hefur styrkt þessa skoðun mína. Ég tel að ef menntamálayfirvöld og skólastjórnendur leggðu höfuðáherslu á markmiðsgreinar leik-, grunn- og framhaldskólalaganna væri staðan miklu betri hvað varðar þessi mál. Í öllum þessum markmiðs- og hlutverkagreinum skólalaganna er lögð áhersla á að starfshættir þeirra skuli mótast af og umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi og síðast en ekki síst að efla siðferðisvitund nemenda.
Gamalt orðatilæki segir: „Hvað ungur nemur, gamall temur”. Og þannig er það. Ósiðir og skökk gildi sem við komum okkur upp eldast illa af okkur. Það er á ábyrgð okkar allra að börnin okkar stór og smá læri og skilji að virðing felst í því að hafa jafnmikinn áhuga á velferð annarra og sinni eigin. Að þau læri að setja sig í spor annarra, geti fundið samhljóminn á milli ólíkra einstaklinga, njóti þess að gleðjast með öðrum og kunni að syrgja með öðrum og finni hjá sér einlægan vilja til þess að gefa af sér. Samlíðun er ræktuð með börnum. Hún er öflug og getur komið í veg fyrir einelti og óæskilega hegðun eins og kynferðislega áreitni og óvirðingu gangvart náunganum. Ég er þess fullviss að ef gert verði átak í að efla þessa mikilvægu þætti í skólastarfinu munum við stuðla að hugarfarsbreytingu og útrýmum þessum landlæga karlrembu-kúltur og valdníðslu sem honum fylgir og ríkt hefur í íslensku samfélagi.