Ég er partur af aðgerðahóp um geðheilbrigðismál og við höfum verið að funda um hvað betur má fara í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Heilbrigðismál eru alltaf ofarlega á lista fólks þegar það er spurt um helstu málaflokka fyrir hverjar kosningar. Ein ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er sú að ég sat fyrirlestur hjá Vöndu Sigurgeirsdóttur þar sem hún birti sænska rannsókn um kostnað sænska hagkerfisins vegna eineltis. En það er þekkt að einelti getur auðveldlega leitt af sér geðsjúkdóma og eru gerendur í eineltismálum í sérstökum áhættuhópi. Samkvæmt rannsókn, sem hinn sænski sálfræðingur Dan Olweus prófessor við Bergen háskólann gerði, eru gerendur í eineltismálum fjórum sinnum líklegri til þess að komast í kast við lögin og lenda í fangelsi fyrir 24 ára aldur.
Sænsku hagsmunasamtökin Friends eru samtök um velferð barna í Svíþjóð er varðar jöfnuð og öryggi. Samtökin gerðu rannsókn undir handleiðslu hagfræðingsins Ingvars Nilson. Þessi rannsókn snérist um þann samfélagslega kostnað sem verður vegna eineltis í sænskum skólum. Í ljós kom að sá samfélagslegi kostnaður er alveg gríðarlegur. Helstu niðurstöður voru þær að einelti í sænskum skólum kostar samfélagið um 219 milljarða íslenskra króna næstu 30 árin. Sem dæmi þá er kostnaður við 1000 manna skóla um 175 milljónir á ári næstu 30 árin. Hægt er að nálgast þessa rannsókn á netinu hér. Þar er einnig reiknivél sem reiknar út kostnað miðað við mismunandi fjölda í skólum.
Kostnaðurinn lendir helst á eftirfarandi stofnunum:
- Fangelsismálastofnun.
- Félagsmálayfirvöldum.
- Heilbrigðiskerfinu.
- Vinnumálastofnun.
- Sveitarfélögum.
- Og að auki hefur þetta hagfræðilegar afleiðingar fyrir samfélagið í heild.
Bæði gerendur og þolendur í einelti eru líklegri til þess að verða óvirkari í samfélaginu síðar meir. Geðsjúkdómar og þunglyndi verða til þess fólk á erfitt með að takast á við daglegt líf. Undanfarið hafa verið fréttir um ófremdarástand á geðheilbrigðissviðinu. Fólk sem er í hættu á að taka eigið líf lendir ekki í þeim hugsunum einungis á milli 8 og 17 á daginn. Fyrir einhverjum árum var farið í það að greina hvað hvert bílslys kostar samfélagið og hvað hvert dauðsfall kostar. Fólk sem tekur eigið líf kostar samfélagið sömu upphæð og fólk sem lætur lífið í bílslysi. Að ala upp einstakling í samfélagi er dýrt fyrstu árin þegar hann fer í gegnum skólagöngu. Samfélagið væntir þess að fá þennan kostnað til baka með skatttekjum síðar á lífsleiðinni með því vinnuframlagi sem þessi sami einstaklingur skilar inn í hagkerfið. Það eru allt of margir sem taka eigið líf þegar þeir ættu að vera í blóma lífsins. Þessum einstaklingum á að hjálpa og því fyrr sem gripið er inn í málin því betra.
Ég hef lengi verið að velta því fyrir mér hvort það hafi verið gerð kostnaðar –og ábatagreining þegar kemur að heilbrigðismálum. Eins og kemur fram hér að ofan í sænsku rannsókninni er gífurlegur kostnaður sem hlýst af eineltismálum. Ég hef einnig velt því fyrir mér hver kostnaðurinn er af geðheilbrigðismálum sem virðist vera einn angi af eineltismálum. Af hverju er ekki meira fjármagn sett í þennan málaflokk? Getur ekki verið að þær krónur sem eru settar í geðheilbrigðismál skili sér margfalt til baka? Ef við hugsum aðeins út í það þá hlýtur það að vera hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og fyrirtækin að einstaklingunum líði vel í vinnu og námi. Starfsfólki sem líður vel í vinnunni hlýtur að skila meiri afköstum/framleiðni. Fyrir þjóðfélagið þá eykur það framleiðslugetu hagkefisins og því er þetta hreinn ábati fyrir okkur öll. En fyrst og fremst á þetta að snúast um vellíðan samfélagsins. Það er óbærilegt að vita af einstaklingum sem sjá engan tilgang í lífinu. Einstaklingar sem hafa jafnvel komið sér upp fjölskyldum. Þunglyndi og geðsjúkdómar sjást nefnilega ekki utan á fólki.
Erum við ekki í raun að spara aurinn fyrir krónuna þegar kemur að þessum málum? Það getur verið erfitt að mæla vellíðan í krónum talið en það er hægt að mæla hvort aukið fjármagn í þennan málaflokk muni skila sér í færri veikindadögum þeirra sem þjást af geðsjúkdómum og eins aðstandenda. Það fer nefnilega ekki mikið fyrir þeirri umræðu hve þungt þessi málaflokkur leggst á aðstandendur þeirra sem þjást af geðsjúkdómum. Áhyggjur vegna vanlíðan ástvina er líklegt að draga úr þrótti fólks og þar af leiðandi líður þeim ekki vel í sinni vinnu. Þetta er nefnilega ekki bara vandamál þeirra sem þjást af geðsjúkdómum heldur líka þeirra sem standa þeim nærri. Stjórnmálamenn eiga það til að horfa einungis til skamms tíma þar sem kjörtímabilið er einungis fjögur ár. Árangur af átaki gegn einelti og í geðheilbrigðismálum mun ekki koma í ljós fyrr en löngu seinna og þess vegna er þessi málaflokkur kannski ekki efst á baugi hjá stjórnmálamönnum. En ég hvet þá til þess að sýna kjark og taka á þessum málum því það er sannarlega mikið undir.
Höfundur er fjármálahagfræðingur.