Það hefur verið ríkjandi viðhorf í áratugi að frjáls verslun, m.a. með fríverslunarsamningum milli þjóða, leiði sjálfkrafa til jafnra tækifæra fyrir alla. Smám saman hafa menn hins vegar áttað sig á því að sú staðreynd að konur eru um 70% þeirra jarðarbúa sem búa við mikla fátækt, kalli á hressilega viðhorfsbyltingu. Öðruvísi breytist hlutirnir ekki.
Á fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA ríkjanna á Svalbarða í júní síðastliðnum beindi ég því til ráðherranna fjögurra; Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein, að skoða að fella jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í fríverslunarsamninga EFTA rétt eins og þar er kveðið á um mannréttindi, vinnuvernd og sjálfbæra þróun, a.m.k. í nýlegri samningum. Ég benti m.a. á nýlega fyrirmynd í fríverslunarsamningi Kanada og Chile þar sem sérstaklega er fjallað um jafnréttismál. Kanadamenn hafa lýst því yfir að stefna þeirra sé að hafa slíka jafnréttiskafla í öllum sínum fríverslunarsamningum hér eftir og þeir vinna nú að því að sannfæra kollega sína frá Bandaríkjunum og Mexíkó um að festa þessa nálgun í fríverslunarsamninga Norður-Ameríkuríkjanna þriggja (NAFTA). Það verður áhugavert að fylgjast með málum þar.
Á Svalbarðafundinum tóku utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein vel í tillögu mína og var ákveðið að taka hana til frekari skoðunar. Utanríkisráðherra Sviss tjáði sig ekki um málið á fundinum. Utanríkisráðherra Liechtenstein lýsti því yfir að málið yrði sett í forgang í formennskutíð hennar, en Liechtenstein tók við formennsku í ráðherraráði EFTA um mitt þetta ár.
Þátttaka kvenna forsenda efnahagsbata
Jafnréttissjónarmið í fríverslunarsamningum EFTA voru aftur til umfjöllunar á fundi þingmannanefndar og ráðherraráðs EFTA í Genf á dögunum. Þar var ég framsögumaður skýrslu sem tekin hafði verið saman um málið í kjölfar tillögu minnar frá Svalbarða. Í skýrslunni er bent á að frá árinu 2010 hefði EFTA tekið sérstaka kafla um sjálfbæra þróun og vinnuvernd upp í fríverslunarsamninga og jafnframt að í formálsorðum samninga væri vísun í lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Tími væri kominn til að taka upp ákvæði um kynjajafnrétti í takt við alþjóðlega þróun í þá átt.
Mikil samstaða er á alþjóðlegum vettvangi um að efnahagslegur ávinningur milliríkjaviðskipta eigi að gagnast sem best, annars vegar með að tryggja að heildarávinningurinn verði sem mestur og hins vegar með því að tryggja að allir njóti góðs af. Með auknum skilningi á því að slík markmið nást ekki án þátttöku kvenna í atvinnulífinu hefur aukin umræða átt sér stað um nauðsyn kynjajafnréttis í viðskiptum á vettvangi Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna, OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Framkvæmdastjóri ESB á sviði viðskiptamála, Cecilia Malmström, hefur t.d. lýst því yfir að til skoðunar sé að bæta ákvæðum um kynjajafnrétti inn í fríverslunarsamninga sambandsins.
Arancha González, forstjóri Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (e. International Trade Center), var gestur á fundi þingmannanefndarinnar í Genf þar sem hún fór yfir horfur í alþjóðaviðskiptum. González, sem er einmitt meðal þátttakenda á WLP hér í Reykjavík, greindi m.a. frá vinnu við drög að ályktun um kynjajafnrétti og fríverslun sem hópur ríkja, þar á meðal Ísland, hafa unnið að. González var ómyrk í máli þegar kom að stöðu kvenna og ávinningi af fríverslun og taldi bætta stöðu þar eina helstu forsendu efnahagsbata hjá þeim ríkjum sem standa höllum fæti.
Fríverslunarsamningar EFTA eru nú 27 talsins við 38 ríki og ná yfir 14,3% af vöruskiptum EFTA-ríkjanna. EFTA á í virkum viðræðum við Indónesíu, Malasíu, Víetnam, Indland og Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ. Þá á EFTA í viðræðum um uppfærslu samninga við Tyrkland frá árinu 1992 og Mexíkó frá árinu 2000 en slíkar uppfærslur snúa einkum að því að samningar sem áður tóku einungis til vöruviðskipta taki einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda. Þessar viðræður og samningar sem þær munu vonandi leiða af sér, bjóða EFTA upp á kjörið tækifæri til að vera leiðandi í þeirri byltingu sem er að hefjast varðandi fríverslun í heiminum. Málið snýst ekki eingöngu um að jafna kjör kvenna (og þar með barna eins og dæmin sýna) þó að það sé eitt og sér eðlilegt forgangsmarkmið stjórnvalda hvar sem er í heiminum. Markmiðið er að stækka kökuna, auka hagvöxt og bæta lífskjör. Og já, fyrir alla.
Óþarfi eða óþægilegt vesen?
Þeir fyrirfinnast enn sem telja óþarfi að fella jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í fríverslunarsamninga. Fríverslun gagnist öllum, punktur. Þegar það hefur verið hrakið með tölulegum gögnum taka næstu mótmæli við. Það sé ekki gott að hafa of mikið af skilyrðum inn í svona samningum, það hægi á ferlinu og leiði til þess að færri samningar séu gerðir. Og það sé mjög slæmt fyrir konur. Þegar spurt er af hverju sömu rök eigi ekki við um t.a.m. umhverfis- og mannréttindasjónarmiðin í fríverslunarsamningunum verður fátt um svör.
Ég er sannfærð um að innan ekki svo margra ára verði sérstakar jafnréttisáherslur í fríverslunarsamningum jafn sjálfsagðar og áhersla á umhverfis- og mannréttindamál eru nú. Auðvitað eiga EFTA ríkin fjögur að vera í fararbroddi í þessari byltingu en ekki sporgöngumenn.
Á fundi þingmannanefndarinnar í Genf lagði ég fram drög að ályktun um málið, en það er skemmst frá því að segja að um hana voru skiptar skoðanir. Auk íslensku þingmannanefndarinnar, var þverpólitísk samstaða í norsku þingmannanefndinni um að styðja tillöguna. Þingmenn Sviss og Liechtenstein voru á móti. Það var því ákveðið að fresta afgreiðslu ályktunarinnar og nota tímann fram að næsta fundi til að reyna að vinna málið áfram. Ég hvet þá ríkisstjórn sem nú er að taka við völdum á Íslandi til að halda þessu máli til haga og vinna því forgang.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar og fráfarandi formaður þingmannanefndar Íslandsdeildar EFTA.