Innkoma alþjóðlegra fyrirtækja á borð við Costco og H&M hefur haft margvísleg áhrif á íslenskt samkeppnisumhverfi á árinu sem er að líða. Fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa brugðist við með því að loka verslunum, fækka fermetrum og með sameiningum. Samkeppnin hefur sett íslensk fyrirtæki í þá stöðu að þurfa hagræða verulega og þannig snúa vörn í sókn, neytendum til heilla. Flest þessi íslensku fyrirtæki virðast ætla að standa sókn erlendu risanna af sér, jafnvel þótt fjármögnun keppinautanna sé hjá erlendum bönkum, á erlendum kjörum og í erlendum gjaldeyri með tilheyrandi stöðugleika og hagræði samanborið við mörg íslensku fyrirtækin. Segja má að fyrirtækin hér á landi hafi mætt þessari auknu samkeppni með því að setja undir sig hausinn í stað þess að leita á náðir stjórnvalda í von um styrki og undanþágur vegna vondu útlendinganna.
Á tímum alþjóðavæðingar felast tækifæri í frjálsri alþjóðlegri samkeppni, einokun og einangrunarhyggja heyrir einfaldlega sögunni til í vestrænum velferðarsamfélögum sem vilja teljast þjóðir meðal þjóða. Þetta veit auðvitað íslenskur landbúnaður mætavel og fyrirtæki í eigu bænda. Enda eru þau réttilega stórhuga þegar það kemur að útflutningi á íslenskum landbúnaðarvörum, ekki síst til Evrópu fyrir tilstilli EES samningsins. Og hér innanlands höfum við ánægjuleg dæmi um vöruþróun og aukna fjölbreytni í innanlandframleiðslu eftir opnun á innflutningi á landbúnaðarvörum á borð við grænmeti.
Fyrrnefndur EES samningur er annars áhugavert dæmi um almennar leikreglur sem íslenskt stjórnvöld hafa ekki alltaf virt þegar kemur að innflutningi á ferskum matvælum. Þetta skýtur auðvitað skökku við því þessi sömu stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að verja verulegum upphæðum í niðurgreiðslu og markaðsstarf á t.d. útflutningi á lambakjöti svo ekki sé minnst á útflutningshagsmuni sjávarútvegsins sem hlaupa á hundruðum milljarða. Aðgangur okkar Íslendinga að mörkuðum erlendis með fersk og frosin matvæli er ein af grunnundirstöðum okkar örsmáa hagkerfis enda útflutningsþjóð öðru fremur. Aðgangurinn stendur hins vegar og fellur með samningum okkar og skuldbindingum á alþjóðavettvangi og því með miklum ólíkindum að þessum hagsmunum hafi verið stefnt í hættu líkt og raun ber vitni. Nýr dómur EFTA dómstólsins mun hafa þær afleiðingar að samkeppni á kjötmarkaði mun aukast, nema ætlunin sé að kollvarpa stefnu Íslands í utanríkismálum. Ég hef þá bjargföstu trú á að í EES samningum felist fleiri tækifæri en ógnir enda sýnir sagan okkur að frelsi er forsenda framfara.
Hér er auðvitað einnig um að ræða „þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar“ líkt og formaður Bændasamtaka Íslands komst á orðum í Bændablaðinu á dögunum en undirrituð hefur setið fjölmarga fundi með þeim ágætu samtökum síðastliðna mánuði þar sem meðal annars hefur verið rætt um tækifærin sem felast í útflutningi á fersku lambakjöti á erlenda markaði.
En þó er það þannig að í sömu andrá og fólk vill halda erlendum mörkuðum opnum fyrir íslenska framleiðslu á að halda innlendum mörkuðum lokuðum til að verja lýðheilsu landans. Undir þessi sjónarmið taka meðal annars eigendur MS sem er það fyrirtæki sem státar af þeim vafasama heiðri að vera einn stærsti innflytjandi sykurs á Íslandi en skemmst er frá því að segja að sykurneysla er talin ein helsta lýðheilsuógn mannkyns samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni WHO. Hugmyndafræði sem virðist byggjast á því að fá allt í skiptum fyrir ekkert verður að teljast séríslensk nálgun í alþjóðlegu samhengi en svona getur nú heimurinn verið skemmtilega öfugsnúinn þegar verndun sérhagsmuna er annars vegar.
Að öllu gamni slepptu er að sjálfsögðu full ástæða til að taka alvarlega mögulega áhættu af ýmsum óværum sem hingað geta borist með margvíslegum hætti. Það er enginn að tala um neitt annað. Þá gildir einu hvort að um er að ræða ferðamenn og farangur þeirra eða ferska kjötvöru frá öðrum löndum. Búfjárstofnar landsins eru tiltölulega hreinir og heilbrigðir og okkur ber skylda til að vernda þá með ráðum og dáðum. Það verður hins vegar ekki gert með því að einangra okkur frá alþjóðasamfélaginu eða stinga óheppilegum skýrslum ofan í skúffur ráðuneytanna. Alveg eins og með samkeppnina þá er sóknin besta vörnin og sóknarfærin felast í því að þjónusta og upplýsa kröfuharða neytendur um heilnæmi íslenskra matvæla og draga þannig úr eftirspurn eftir því sem óæskilegt er. Eflum eftirlit og upplýsingagjöf og þrýstum á innflytjendur að flytja inn vottaða og örugga vöru og merkja hana rétt. Alþjóðavæðingin hefur nefnilega einnig fært okkur upplýsingaöldina. Hana eigum við að nýta okkur í stað þessa að slást við strámenn.
Höfundur er fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.