Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að síðustu misseri hefur verið tíðrætt um rakaskemmdir og myglu í húsum og þá sérstaklega á vinnustöðum. Ástandið getur verið alvarlegt þar sem fyrirtæki þurfa að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til þess að bæta ástandið og í mörgum tilfellum missir af góðu starfsfólki í veikindaleyfi eða til annarra vinnuveitenda.
Hvaða aðgerða er þörf er flókið ferli. Fyrst og fremst þarf að greina vandamálin, stöðva orsök raka, fjarlægja rakaskemmd byggingarefni og síðan að tryggja regluleg og góð loftskipti. Einnig er mikilvægt að takmarka notkun ertandi efna í vinnuumhverfi við endurbætur og þrif almennt.
Húsnæði lokað eða ráðist í endurbætur
En hvað vitum við um þessi veikindi sem verða þess valdandi að fyrirtæki grípa til þeirra örþrifaráða að loka húsnæði eða ráðast í miklar endurbætur? Hvað liggur að baki ?
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) tiltekur sérstaklega að rakaskemmdir og mygla í húsum séu í tengslum við ýmsa heilsubresti, versnun á astma, erting frá efri- og neðri loftvegum, efri loftvegasýkingar. Sumir fá flensulík einkenni og slappleika.
Í mörgum tilvikum þar sem að starfsfólk tengir einhverja kvilla við viðveru í vinnunni hefur það jafnan tekið til þess ráðs að starfa að heiman eða flutt sig á aðrar starfsstöðvar og með því náð að bæta heilsu og lífsgæði.
Það sem við vitum og þekkjum ekki nógu vel er orsakaþátturinn í rakaskemmdu húsnæði, jú það eru meiri líkur á margs konar kvillum í rakaskemmdu húsnæði og rannsóknir sýna sterk tengsl þar á milli en aftur á móti þekkjum við ekki hvaða þáttur það er í rakaskemmdum sem raunverulega veldur – og kannski er það samspil myglu, baktería, smádýra, afleiðuefna, útgufunar og þar með ónægrar loftræsingar.
Þar sem afleiðingar eru klárlega ljósar en hafa ekki læknisfræðilegar upplýsingar um orsakaþátt er mikil áskorun í ráðgjöf. Í því tilfelli verðum við að taka tillit til heilsu og fylgja leiðarvísi WHO þar sem þeir gefa út að stöðva þurfi leka, fjarlægja rakaskemmd efni og hreinsa á eftir. Skammtíma lausnir og úðun efna er ekki vænleg til árangurs.
Í mörgum tilfellum er hægt að ná miklum árangri með líðan og framlegð starfsmanna eftir einfaldar aðgerðir. Fyrirtæki og stofnanir hafa náð góðum árangri vegna rakaskemmda með aðgerðum sem tengjast þá helst bættu viðhaldi og verklagi þar sem ráðgjöf tekur tillit til notkunar húsnæðis. Þau tilfelli rata ekki í fjölmiðla.
Aðilar innan byggingargeirans hafa sýnt þessum málum athygli og áhuga til þess að gera betur og bæta húsin okkar. Jafnframt er í umræðunni að auka fræðslu til allra fagstétta og almennings varðandi viðhald og umhirðu húsnæðis.
Einhverra hluta vegna virðist vera sem margir aðilar í heilbrigðisgeiranum séu aðeins lengur að ranka við sér. Ef til vill vegna þess að meðferðarúrræði eru fá og takmörkuð. Mögulega höfum við einstakt tækifæri hérlendis til þess að rannsaka orsakaþátt og taka þátt í rannsóknum varðandi erfðir, umhverfi og mögulegar meðferðir.
Hvaða viðmið höfum við?
Í dag er staðan sú að húsnæði má laga með því að fylgja leiðarvísum annarra þjóða og WHO. Hversu langt á að ganga í viðgerðum er þó ávallt vandasamt og helstu viðmið hljóta því að vera að heilsufarsáhætta verði takmörkuð og vellíðan aukist í húsnæði. Önnur aðgerðarviðmið liggja ekki fyrir. Okkur skortir einnig úrræði þegar kemur að heilsu fólks. Í einstaka tilfellum nær fólk ekki fullum bata við það eitt að húsnæði sé lagað, stundum getur það ekki snúið aftur á vinnustað þrátt fyrir viðgerðir og meðferðir vegna einkenna eru takmarkaðar. Einkenni verða þrálát og lífsgæði fólks skerðast.
Við þurfum að fá innlenda leiðarvísa varðandi lagfæringar á húsnæði sem byggja á vísindum og reynslu. Við þurfum að samræma rannsóknir og aðferðir við greiningar sem fylgja nýjustu þekkingu hverju sinni. Þeir sem finna til einkenna þurfa að komast í ferli innan heilbrigðiskerfisins og þeim mætt skilningi án fordóma.
Hvað vitum við?
Við vitum að hluti fólks finnur fyrir einkennum og veikist oftar í rakaskemmdu húsnæði. Líkur á ýmsum kvillum eru yfirgnæfandi meiri. Við vitum að fólk bætir heilsu með því að dvelja ekki í rakaskemmdu húsnæði. Við vitum að einhverjir eru lengur að ná heilsu en aðrir og einkenni verða jafnvel þrálát. Við vitum að loftgæði skipta okkur verulegu máli m.t.t. vellíðunar og lífsgæða. Við vitum að byggingar skemmast vegna raka. Við vitum að einhver hluti fólks nær ekki fyrri heilsu að fullu.
Hvað vitum við ekki?
Við vitum ekki hver orsakaþátturinn er. Hvað er það í rakaskemmdu húsnæði sem veldur einkennum; gró, bakteríur, svepphlutar, efnamengun, eiturefni eða útgufun frá efnum ? Við vitum ekki af hverju flestir ná fyrri styrk á meðan að aðrir gera það ekki eftir viðgerðir eða flutning. Við vitum ekki hvort og þá hversu stór hluti fólks fær einkenni. Við vitum ekki hvaða meðferð ber árangur.
Áskorun
Ég vil skora á heilbrigðisstarfsfólk að taka höndum saman og taka á þessum heilsufarsvanda, finna úrræði, veita stuðning, fræðslu og nýta sérstöðu okkar til rannsókna.
Einnig vil ég hvetja til þess að rannsóknaraðferðir í byggingum verði að einhverju leyti samræmdar á vísindalegum grunni, þar sem vellíðan þeirra sem dvelja í byggingum sé í forgangi.
Við getum komið í veg fyrir stóran hluta af þeim rakavandamálum sem eru þekkt í dag í hönnun, við framkvæmd og notkun húsnæðis.
Hversu marga erum við að missa af vinnumarkaði í dag? Hversu marga þurfum við að missa af vinnumarkaði í viðbót? Hversu margir þurfa að standa uppi eigna- og / eða heilsulausir?
Þessi heilsufarsvandi hverfur ekki þó við reynum að afneita honum.
Höfundur fagstjóri Húss og heilsu EFLU verkfræðistofu.
------
Heimildir:
Mark J.Mendell o.fl., 2011
Respiratory and Allergic Health Effects of Dampness, Mold, and Dampness-Related Agents: A Review of the Epidemiologic Evidence
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3114807/
Umhverfisstofnun, 2015
Inniloft, raki og mygla í híbýlum; Leiðbeiningar fyrir almenning
World Health Organization, 2009.
WHO guidelines for indoor air quality: dampness and mould.
http://www.euro.Alþjóðaheilbrigðisstofnunin.int/document/E92645.pdf