Hvað einkennir þá sem aðrir vilja fylgja? Er það brennandi hugsjón eða eldmóður gagnvart ákveðnum málefnum? Árangur sem aðrir vilja eignast hlutdeild í? Yfirburðir á einhverjum sviðum? Bruna Martinuzzi, ráðgjafi og stjórnendaþjálfari og jafnframt höfundur bókarinnar The Leader as a Mensch: How to Become the Kind of Person Others Want to Follow (2009), segir að það sé ekkert af ofangreindu. Hún vill meina að við fylgjum fólki sem við treystum og kemur fram við okkur af virðingu. Besta leiðin til að öðlast traust annarra sé að haga okkur eins og „Mensch“. Orðið hefur djúpa merkingu í jiddísku og lýsir manneskju sem er heiðvirð og göfug í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Í návist hennar finnum við til öryggis, okkur líður vel með okkur sjálf, og þetta er manneskja sem við viljum fylgja og hafa nálægt okkur. „Mensch“ er leiðtogi sem kveikir með okkur hollustu og laðar fram það besta hjá okkur.
Samkvæmt Martinuzzi rækta manneskjulegir leiðtogar með sér ákveðna eiginleika, sem hún líkir við tré: Hluti þeirra mynda ræturnar, sumir stofninn og aðrir greinar trésins.
1. Ræturnar
Ræturnar mynda grunninn og samanstanda af auðmýkt, að vera sannur sjálfum sér og samhygð:
Auðmýkt felur í sér að hlusta, leyfa öðrum að eiga heiðurinn og reyna ekki að sannfæra fólk en leyfa því að eiga sína sannfæringu. Auðmýkt er að gefa af sér til samfélagsins, grípa ekki fram í fyrir hendur á fólki né veita því ráð sem það biður ekki um. Hún snýst um að vera forvitinn um aðra, skoðanir þeirra og langanir, að hafa kjark til að ráða fólk sem er klárara en maður sjálfur og leita ekki sökudólga þó illa fari heldur draga frekar lærdóm af því sem aflaga fór.
Að vera sannur sjálfum sér vísar í það að vera maður sjálfur án allra blekkingarleikja eða fals. Að leiðtoginn sé heill í framgöngu er varðar sýn vinnustaðarins, haldi heilindi sinnar starfstéttar og hugi einlæglega að velferð starfsmanna. Leiðtogi sem er heill og sannur lifir gildi sín. Hann stendur við gefin loforð og fer varlega með þau. Heill og sannur leiðtogi forðast það að ganga í augun á fólki með sýndarmennsku. Hann talar hreint út á skiljanlegu, einföldu máli og sýnir öllum virðingu en ekki bara sumum. Hann er fyrirmynd í því hvernig hann tekur á málum.
2. Stofninn
Stofninn er sýnilegi hluti trésins og samanstendur af ábyrgð, bjartsýni og leikni:
Ábyrgð hefst og endar hjá leiðtoganum. Martinuzzi vísar til læknaeiðsins sem felur í sér loforð um að gera ekki öðrum mein. Að mati hans ættu allir sem fara fyrir fólki að sverja slíkan eið. Það er hlutverk leiðtoga að sjá til þess að fólk standi undir ábyrgð. Í hlutverki hans felst að setja skýr markmið og koma þeim á framfæri, fylgja málum eftir og veita endurgjöf. Mikilvægt er að hann standi sjálfur undir ábyrgð og sé áreiðanlegur. Fólk dæmir hann eftir verkum hans frekar en orðum.
Bjartsýni er hverjum leiðtoga jafn mikilvæg og að geta reiknað út flóknar formúlur og skipulagt ferla. Hún tengist því að vita hvað kveikir í fólki og hvetja það til að gera sitt allra besta. Bjartsýni getur hjálpað til við að auka framleiðni, bæta móralinn, leysa ágreiningsmál o.fl. Manneskjulegur leiðtogi er bjartsýnn og veitir öðrum von. Hann lýsir þannig leiðina að betri frammistöðu. Fjöldi rannsókna hefur verið birtur um jákvæð áhrif bjartsýni á lausnamiðaða hugsun, langlífi og heilsuhreysti, samskiptafærni o.fl.
Leikni er að mati höfundar ekki gjörð heldur vani. Færni snýst um það að leita árangurs á tveimur sviðum, annars vegar að leita stöðugt leiða til að bæta sig sem manneskju og hins vegar að bæta samskipti sín við annað fólk. Manneskjulegir leiðtogar eru opnir fyrir og leita eftir endurgjöf á sína frammistöðu. Þeir eru hreinskilnir og skýrir í samskiptum og taka á erfiðum samskiptamálum af festu og yfirvegun.
3. Greinarnar
Greinarnar standa fyrir það hvernig okkur tekst að veita öðrum innblástur. Þær samanstanda af jákvætt viðhorf, örlæti og viðurkenning.
Jákvætt viðhorf leiðtogans hefur afgerandi áhrif á árangur starfsfólks. Í leiðtogahlutverki er ekki í boði að vera í vondu skapi, hvað þá að taka skap sitt út á starfsfólkinu. Gott skap eina stundina og vont aðra leiðir til óöryggis og dregur úr trausti. Viðhorfið þarf að vera í samræmi við það sem er að gerast á vinnustaðnum. Ef allt er að fara í hund og kött meikar sem dæmi ekki sens að vera í ljómandi góðu skapi. Það sem manneskjulegi leiðtoginn gerir á slíkum stundum er að veita von með bjartsýni að vopni.
Örlæti hjá leiðtoga snýst um það að gefa fólki tækifæri, láta það njóta vafans og gefa því ástæðu til að vilja vinna hjá honum. Örlæti þýðir að veita fólki frelsi og leyfi til að gera mistök ásamt því að tryggja að það hafi nauðsynlegar upplýsingar til að geta unnið sitt starf vel. Hluti af örlæti er að veita fólki umboð til athafna og meta það að verðleikum. Fólk vill hafa tilgang með því sem það er að gera og finna að það sem það gerir skiptir máli. Manneskjulegir leiðtogar tryggja að fólk upplifi að það sem mikilvægur hlekkur í gangverki vinnustaðarins.
Viðurkenning snýst um að hafa gott auga fyrir því og virða það sem er dýrmætt og jákvætt í fari fólks. Manneskjulegur leiðtogi lítur á fólk sem endalausa uppsprettu hæfileika, færni og hugmynda sem þarf að hlúa að og þróa áfram. Hann veitir öðrum innblástur og stuðlar að jákvæðum breytingum til að skapa betri framtíð. Hann veitir viðurkenningu fyrir góða frammistöðu og nær með því að laða fram það besta hjá öðrum. Hann sýnir fólki einlægan áhuga og lætur það fá þá tilfinningu að framlag þess skiptir máli. Hann sýnir þakklæti fyrir vel unnin störf. Með þessari framkomu sinni skapar hann traust.
„Mensch“ er leiðtogi sem allir vilja fylgja. Ætli Katrín Jakobsdóttir sé manneskjulegi leiðtoginn sem við höfum mörg beðið eftir?
Greinarhöfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar.