Heimsmarkmið Sameinuðuþjóðanna fyrir 2030 eru 17 og fyrir þau verður árangur þjóða mældur, ekki einungis á hagrænan máta, líkt og flestar ríkisstjórnir heimsins gera í dag með hagvexti. Einblíni á hagvöxt sem vísi fyrir framfarir og þróun hefur valdið eyðileggingu vistkerfa, auðlindaþverrun, loftslagsbreytingum, ójöfnuði og óréttlæti til að nefna nokkra þætti.
Með heimsmarkmiðunum er stutt að nýstárlegri nálgun fyrir framfarir og velsæld. Ban Ki-moon, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, tengdi saman þrjá stólpa sjálfbærrar þróunar í ræðu árið 2012 þar sem hann sagði: ,,Ekki er unnt að aðskilja félagslega-, efnahagslega- og umhverfis- vellíðan.'' Þetta mætti kalla heildræna nálgun fyrir framfarir og hagsæld.
Ísland samþykkti heimsmarkmiðin árið 2015 og skrifaði þáverandi forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, undir samninginn 2016. Þjóðir þurfa að skila reglulegum skýrslum til Sameinuðu þjóðanna um árangur í átt að heimsmarkmiðunum. Þrátt fyrir þetta er ekkert um hvernig Íslandi ætli sér að ná heimsmarkmiðunum í stjórnarsáttmála vinstri grænna, framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 2017. Hins vegar, þegar litið er yfir samninginn, þá nær hann yfir mörg þau atriði sem fjallað er um í heimsmarkmiðunum. Því legg ég til að ríkisstjórnin hugi að því sem fyrst að setja fram stefnu um hvernig hún ætlar að ná heimsmarkmiðunum.
Ein aðferð væri sú að gerast meðlimur í nýstofnuðum alþjóðlegum hópi sem kallar sig Bandalag sældarhagkerfa (Wellbeing Economy Alliance, eða WE-All). (Ég kalla hér með eftir betri þýðingu eða nýyrði fyrir „wellbeing economy"). Þessi hópur samanstendur sem komið er af Svíþjóð, Skotlandi, Slóveníu, Nýja Sjálandi og Kosta Ríka. Þjóðirnar fimm hittust í fyrsta skipti í Glasgow í október undir forystu Nicola Sturgeon, æðsta ráðherra Skotlands. Aðrar þjóðir eru að íhuga að vera með í bandalaginu og gæti Ísland verið ein þeirra þjóða. Markmið bandalagsins er að ná öllum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Bandalag sældarhagkerfa er stutt af alþjóðlegum hópi vísindamanna og félagasamtaka frá ýmsum löndum sem hafa verið að vinna saman síðan 2012 að því að leggja til nýja vísa til að sýna framfarir þjóða umfram hagvöxt. Síðan 2015 hefur hópurinn lagt fram samsettan vísi, vísitölu sjálfbærrar sælu (Sustainable Wellbeing Index) til að aðstoða þjóðir til að ná heimsmarkmiðunum. Ég hef tekið þátt í þessari vinnu í gegn um Bandalag sjálfbærni og velmegunar (Alliance for Sustainability and Prosperity) síðan 2013 og frá og með þessu ári sem undirbúningsaðili Bandalags sældarhagkerfa.
Hvað er sjálfbært sældarhagkerfi? Sældarhagkerfi hefur þau grundvallarmarkmiðið að ná sjálfbærri an með reisn og sanngirni fyrir borgara og náttúruna alla. Þetta er í áþreifanlegri mótsögn við núverandi hagkerfi sem eru bundin við mjög þröngt sjónarhorn af þróun, ótakmarkaðri aukningu á landsframleiðslu (eða stöðugum hagvexti).
Sældarhagkerfi viðurkennir að hagkerfið er samtvinnað samfélaginu og náttúrunni. Það verður að skilja og stjórna því sem samþættu kerfi sem er með gagnkvæm tengsl.
Sæld er niðurstaðan af samleitni þátta, þar með töldum góðri andlegri og líkamlegri heilsu borgara, sanngjarnri úthlutun auðs, góðum félagslegum tengslum og blómlegu náttúrulegu umhverfi. Aðeins heildræn nálgun á velmegun getur því náð og stuðlað að vellíðan.
Efnahagsstjórnun, sem miðar að því að stuðla að sælu eða vellíðan, verður því að taka tillit til allra áhrifa, bæði jákvæðum og neikvæðum, í efnahagslífinu. Þetta felur m.a. í sér að meta vörur og þjónustu sem hlýst af heilbrigðu samfélagi (félagslegur auður) og blómlegu lífríki (náttúruauður). Félagslegur- og náttúru- auður eru hluti af almenningi. Þau eru ekki og ætti ekki að vera í eigu neins, vegna þess að það er mikilvægt framlag til sjálfbærrar sælu.
Alvöru frelsi og velgengni veltur á heimi þar sem allir dafna og blómstra. Stofnanir þjóna mannkyninu best þegar þær stuðla að reisn allra og auka tengsl okkar á milli. Til að dafna, þurfa stofnanir (þ.m.t. fyrirtæki) og samfélagið allt að vinna að nýjum tilgangi: sameiginlegri sælu á heilbrigðri jörð.
Til að byggja upp sældarhagkerfi er mikilvægt að breyta heimssýn okkar, samfélagi og hagkerfi til að:
a. vera innan líffræðilegra marka jarðarinnar - með sjálfbæra stærð efnahagslífsins innan vistkerfa okkar.
b. mæta öllum grundvallarþörfum manna, þar á meðal matvælum, skjóli, reisn, virðingu, menntun, heilsu, öryggi, rödd og tilgangi, meðal annars.
c. skapa og viðhalda réttlátri dreifingu auðlinda, tekna og auðs - innan og milli þjóða, núverandi og komandi kynslóða manna og annarra tegunda.
d. byggja upp skilvirka notkun og réttláta úthlutun auðlinda, þ.m.t. sameiginlegan náttúrulegan- og félagslegan auð, til að samtvinna velmegun, og mannlegan þroska. Sældarhagkerfi samþykkir að mannleg hamingja, tilgangur og ánægja eru byggð á miklu meiru en neyslu.
e. skapa stjórnsýslukerfi sem eru sanngjörn, móttækileg, réttlát, gagnsæ og ábyrg.
Til þess að umbreyta efnahagslífinu og samfélaginu, þurfum við að vinna saman og spila eftir sömu nótunum. Nútíma stofnanir eru byggðar upp á gamaldags og óviðeigandi hugmyndafræði hagvaxtar, sama hvað hann kostar. Ég kalla því á fræðimenn og ráðamenn á Íslandi til að taka þátt í umbreytingu sem snýr rannsóknum og vinnulagi í átt að sameiginlegu markmiði nýs og réttlátara hagkerfis, sældarhagkerfisins. Þannig gæti Ísland orðið fremst meðal þjóða heims.
Höfundur er prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.