Í hápunkti hagsveiflu eru gjarnan slegin ýmis neyslumet. Í ár erum við t.d. að slá 10 ára gamalt met í sölu nýrra bíla og leiða má líkur á því að um áramót hitni undir meti ársins 2007 í kampavínssölu. Þegar slík met eru slegin er hins vegar orðið tímabært að búa í haginn fyrir erfiðari tíma. Reynsla fyrri hagvaxtarskeiða hefur kennt okkur að stíga varlega til jarðar við þessar kringumstæður, enda er margt sem bendir til að tekið sé að kólna nokkuð í hagkerfinu, þó svo staða þess sé sterk.
Ný ríkisstjórn hefur hins vegar ákveðið að horfa fram hjá þessum veruleika og ákveðið að bjóða þjóðinni í góða veislu. Í stjórnarsáttmála hennar er þannig gripið heldur glæfralegrar aðferðar (svo ekki sé fastar að orði kveðið) til að miðla málum í ólíkri nálgun flokkanna á ríkisfjármálin. Skoðanaágreiningur flokkanna er klassískur ágreiningur flokka yst til hægri og vinstri, þ.e. hvort auka eigi umfang í opinberum rekstri, með tilheyrandi skattahækkunum, eða hvort áhersla skuli lögð á skattalækkanir og þá um leið lægri ríkisútgjöld. Niðurstaða stjórnarsáttmálans er að gera hvoru tveggja í senn, lækka skatta og auka útgjöld verulega. Samtök atvinnulífsins hafa til að mynda áætlað að útgjaldaloforð stjórnarsáttmálans feli í sér allt að 90 milljarða króna útgjaldaaukningu á sama tíma og skattalækkanir eru metnar á 15 milljarða króna.
Skuldunum skellt á framtíðina
Við höfum reynt þessa uppskrift áður. Á árunum fyrir hrun jukust ríkisútgjöld verulega samhliða því sem skattar voru lækkaðir. Aðvaranir voru að engu að hafðar. Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar náðust sögulegar sættir um stóraukin ríkisútgjöld. Réttindi lífeyrisþega voru meðal annars aukin verulega en síðan skert aftur eftir að ný ríkisstjórn var tekin við, enda engin leið að fjármagna loforðin.
Ekkert er minnst á niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs við þessar kringumstæður, þó svo vaxtakostnaður ríkissjóðs sé með því hæsta sem þekkist innan OECD. Skuldir ríkissjóðs nema nú liðlega 900 milljörðum króna og er þá ótalin rúmlega 600 milljarða króna lífeyrisskuldbinding. Vaxtagjöld ríkissjóðs eru samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi áætluð rúmir 70 milljarðar á næsta ári. Það samsvarar heildarkostnaði við byggingu nýs Landsspítala eða árlegum útgjöldum ríkissjóðs til ellilífeyris, svo dæmi sé tekið.
Útgjöld fjármögnuð með eignasölu
Til að fjármagna útgjaldaveisluna hyggst ríkisstjórnin ganga á eignir ríkissjóðs, m.a. í fjármálakerfinu. Veislan er með öðrum orðum ósjálfbær en þeim vanda er velt yfir á framtíðina. Fyrirhyggjuleysi þessarar stefnu er algert. Það gefur auga leið að þessi stefna gengur ekki upp til lengdar en væntanlega mun það koma í hlut næstu ríkisstjórnar að hreinsa upp eftir þá sem nú er að hefja störf, annað hvort með verulegum niðurskurði ríkisútgjalda eða stórfelldum skattahækkunum. Þá má heldur ekki gleyma því að í kólnandi hagkerfi hafa tekjur ríkissjóðs tilhneigingu til að dragast saman um leið og útgjöld vegna atvinnuleysis aukast.
Ríkisstjórnin kynnir síðan til leiks áform um sérstakan þjóðarsjóð. Hugmyndin er fjarri því ný af nálinni en það er hins vegar áhugavert að sjá að hugmyndir um möguleg ríkisútgjöld sem fjármagna megi með sjóðnum eru meira áberandi en hvernig byggja skuli sjóðinn upp til að byrja með. Það er líka talsvert sjónarspil að tala um að byggja upp sparnað hjá ríkissjóði á sama tíma og eignir eru nýttar til að fjármagna útgjaldaveisluna. Væri þá ekki skynsamlegra að byrja á því að greiða niður skuldir fyrst?
Það er ljóst að ný ríkisstjórn hefur engan lærdóm dregið af vanda ríkissjóðs á árunum 2008-2013. Í kjölfar þeirrar reynslu var ráðist í uppstokkun á lögum um opinber fjármál til að tryggja að hugsað væri til lengri tíma og ráðdeildar gætt. Í stað varfærni einkennist fjármálastefna ríkisstjórnarinnar í besta falli af óskhyggju. Líklegar má þó telja að formenn stjórnarflokkanna, sem eru hoknir af reynslu, geri sér fyllilega grein fyrir ábyrgðarleysinu sem í stefnunni felst. En eins og í veislu sem er vel veitt í þá er gaman á meðan á því stendur og gestgjafarnir sérstaklega vinsælir. Framundan er því ein óábyrgasta ríkisfjármálastefna um áratuga skeið. Framtíðarsýn og fyrirhyggja fyrirfinnst ekki þessum stjórnarsáttmála. Efnt skal til veislu og engu til sparað. Allt fyrir alla er viðkvæðið.
Það er kannski við hæfi að slíkum stjórnarsáttmála sé fagnað með því að skjóta tappa úr kampavínsflösku eða tveim. En gleymum ekki að daginn eftir koma timburmenn og það er þjóðin sem mun sitja uppi með þá.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.