Í gegnum tíðina hafa ein helstu rökin fyrir einkaeignarrétti verið þau að hann tryggi að vel sé farið með eignir og hluti og þeir meðhöndlaðir á ábyrgan hátt. „Fé án hirðis“ er hugtak sem Pétri Blöndal heitnum var hugleikið og hann notaði gjarnan, t.d. í umræðu um ríkiseign á bönkum eða óljóst eignarhald á sparisjóðum. Slíkt fé yrði auðveldlega úlfum að bráð í einum skilningi orðsins og því yrði illa varið í öðrum skilningi þess. Þótt saga einkavæðingar og eignarhalds í bönkum á síðasta áratug á Íslandi sé ekki beinlínis lofgjörð um yfirburði einkaeignar, þá sýnir saga ríkisrekstrar, hér sem og erlendis, að það er sannleikskorn í þessu. Talsmenn einkaeignarréttar á kvóta hafa haldið svipuðu fram, en brottkast á íslenskum fiskiskipum er staðfesting á hinu gagnstæða.
Samkvæmt lögum um fiskveiðar á þjóðin fiskinn, en að öðru leyti er fyrirkomulagið með þeim hætti að það er eins og um einkaeignarrétt sé að ræða – fyrirtækin geta selt kvóta, leigt eða veðsett hann. Niðurstaða hæstaréttar í Vatnseyrarmálinu svokallað var hins vegar afdráttarlaus:
„Til þess verður og að líta að samkvæmt 3. málslið 1. gr. laganna myndar úthlutun veiðiheimilda ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra manna yfir þeim, eins og áður segir. Aflaheimildirnar eru þannig aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.“
Málsvarar kvótaeigenda hafa brugðið á það ráð að vísa til atvinnuréttinda, en þau falla undir einkaeignarrétt, þau má ekki skerða bótalaust. Hins vegar eru það undarleg rök í máli sem snýst um hvert auðlindarentan eigi að renna. Í núverandi kerfi rennur hún að mjög litlu leyti í vasa sjómanna eða útgerðarmanna í sjávarþorpunum, hverra atvinnuréttar þarf að gæta. Hún rennur að stærstum hluta í vasa hluthafa stórfyrirtækja.
Úthlutun á kvóta er ekki úthlutun á fiski heldur úthlutun á réttinum til að veiða tiltekið magn af fiski. Brottkast er staðfesting á því að í augum ýmissa í útgerð er kvótinn ekki veiddur fiskur, heldur sá fiskur sem skipin koma með í land. Hvatinn sem fylgir þeim „eignarrétti“ er ekki að fara vel með fiskinn, heldur að landa sem verðmætustum afla. Kosturinn við einkaeignarrétt hefur líka verið talinn sá að fela í sér ákveðna valddreifingu – fólk hefur vald yfir eignum sínum og það þarf ekki að stýra eða hafa eftirlit með því að fólk hugsi vel um fasteignir sínar eða bíla, fólk hefur sjálft hag af því. „Eignarréttur“ á kvóta þýðir hið gagnstæða, hvað varðar veiddan fisk, hann felur beinlínis í sér hvatningu til brottkasts, þar sem undirmál, með-afli, sem ekki er kvóti fyrir, og óhentugar stærðir rýra beinlínis verðmæti kvótahafans. Og það er ekki bara útgerðarmaðurinn sem hagnast af brottkastinu, laun áhafnarinnar eru í hlutfalli við verðmæti aflans, hún hefur líka hag af því. Með þessu er ekki verið að segja að meginþorri íslenskra sjómanna sé í miklum mæli þátttakendur í þeim ljóta leik sem brottkastið er, aðeins það að hvatinn er til staðar og er innbyggður í kerfið.
„Til þess eru hagsmunirnir einfaldlega of miklir í grein sem hefur tekist, með ítökum sínum í pólitík og fjölmiðlum, að koma í veg fyrir jafn sjálfsagða kröfu og að þurfa að borga markaðsverð fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind. Það verður fyrst þegar ríkið er búið að leysa til sín kvótann sem slík umræðu getur átt sér stað á óhlutdrægan hátt.“
Og hvaða valkostir eru í stöðunni? Það er hægt að auka eftirlit, setja upp myndavélar á stærri skip, en reynslan af eftirliti á hinum ýmsu sviðum íslenskrar stjórnsýslu gefur ekki ástæðu til að ætla að slíkt eftirlit yrði mjög skilvirkt. Önnur leið væri að bylta kerfinu og taka upp sóknarmark, þar sem sóknin, í stað aflans, yrði takmörkuð. Þar með væri búið að taka í burtu bæði hvatann til brottkasts og þess vigtunarsvindls sem hefur viðgengist af sömu ástæðum, og fjallað var um í þættinum Kveikjan á dögunum. Önnur rök með sóknarmarki eru þau að mælingar á hrygningarstofni, mæling á fisknum í sjónum, geta aldrei orðið nákvæm vísindi, en hrygningarstofn er sú viðmiðun sem Hafró notar í tillögum sínum um veiðar hvers árs (veiða má 20% af hrygningarstofni þorsks). Ef ég skil útreikningsaðferðir þeirra rétt eru skekkjumörkin sem Hafró gefur sér um 15%, sem er gríðarmikil skekkja. Fimmtán prósent af 250.000 tonnum er 37.500 tonn (Til viðmiðunar er strandveiðikvótinn um 9.000 tonn).
Helsta gagnrýnin á sóknarmark er að það leiði til offjárfestingar í greininni, það yrði slæm nýting á skipum og bátum sem yrðu bundnir við bryggju stóran hluta árs. Það er þó bara útfærsluatriði – hægt væri að bjóða út sóknardaga fyrir hinar ýmsu gerðir báta og skipa, þannig að fyrirtæki gætu keypt heppilegan fjölda daga fyrir skip sín, sem tryggði hámarksnýtingu á fjárfestingunni. Það er þó varla raunsætt að ræða sóknarmark af einhverri alvöru sem valkost í dag. Til þess eru hagsmunirnir einfaldlega of miklir í grein sem hefur tekist, með ítökum sínum í pólitík og fjölmiðlum, að koma í veg fyrir jafn sjálfsagða kröfu og að þurfa að borga markaðsverð fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind. Það verður fyrst þegar ríkið er búið að leysa til sín kvótann sem slík umræðu getur átt sér stað á óhlutdrægan hátt. Þangað til er hætt við að við munum við fá reglulegar fréttir af brottkasti og vigtarsvindli í greininni.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti íslensku, pírati og stundar meistaranám í heimspeki.