Um það leyti sem ég hafði nýlega hafið nám í Bandaríkjunum, skall efnahagskreppan á sem hér á landi er oft kennd við “guð blessi ísland”. Í fyrsta skipti upplifði ég ótta og óöryggi sem ég mun aldrei gleyma. Þegar hugsað er til baka muna eflaust margir eftir þeirri ótrúlegu stöðu sem blasti við námsmönnum erlendis á þeim tíma. Ég var þó heppnari en flestir þar sem ég hafði gott bakland á staðnum og stóð því alls ekki einn að vígi. Okkur hjónum tókst að klára námið þrátt fyrir fjárhagserfiðleika og héldum heim tæplega 7 árum seinna. Margt áhugavert átti sér stað í Bandaríkjunum á námsárunum, en eflaust var fátt markverðara en kjör Barack Obama sem forseta landsins haustið 2008. Ég var í þeirri stöðu að fylgjast með íslenskum stjórnmálum úr fjarlægð en jafnframt þeim bandarísku sem eru fyrir margra hluta sakir ólík þeim íslensku, með rótgróið tveggja flokka kerfi, Demókrata á miðju til vinstri og Repúblikana frá miðju til hægri, ef svo má að orði komast. Ekki ætla ég að fjalla um mismunandi efnahagslegar nálganir við að kveða niður kreppudrauginn, en vil frekar minnast á þann mun sem ég fann fyrir í viðhorfi leiðtoga og forystumanna heimalandsins og gestgjafa minna við upphaf kreppu og hvernig orðræðan í Bandaríkjunum breyttist með tímanum.
Upphrópunarpólitíkin mætt til að vera
Bandaríkjamenn vildu aldrei kalla kreppuna annað en stóru niðursveifluna (the great recession). Hér heima spóluðum við strax í krepputalið þó svo að margir þættir hafi raunar verið mun hagstæðari hér en í mörgum öðrum löndum sem við hana glímdu. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum náði tveggja stafa tölu 2009 og ríkið brást við með fáheyrðum aðgerðum til þess að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Strax frá byrjun talaði Obama um bjartari tíma ef allir legðust á eitt og lagði áherslu á það að hann væri forseti allrar þjóðarinnar, ekki bara þeirra sem hann kusu. Sjaldan heyrði maður forsætisráðherra sem hér sátu tala í þá átt. Hér heima fannst mér hatrið allsráðandi og átakapólitíkin í tísku. Hatrið var á þeim sem flotið höfðu sofandi að feigðarósi fyrir hrun, og seinna snerist það gegn vinstristjórninni sem var þjóðinni dýrari, að sögn þáverandi formanns Framsóknarflokksins, en hrunið sjálft. Hópum var att saman, með eða á móti ESB, með eða á móti Icesave, með eða á móti veiðigjöldum og svo má lengi telja. En það var ekki stöðutaka með eða á móti málefnum sem vakti furðu mína, heldur hversu galin og oft á tíðum ábyrgðarlaus umræðan var, samanber yfirlýsing Framsóknarformannsins sem nefnd er hér að ofan. Heima var upphrópunarpólitíkin nefnilega hafin strax í byrjun kreppunnar.
Röklausar alhæfingar virkuðu best
Eftir að vinstristjórnin hlaut afhroð í kosningum og við tók stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hélt dæmið áfram, nema nú voru það svekktir vinstrimenn sem fóru mikinn. Allir Sjálfstæðismenn voru glæpamenn, á hin bóginn voru þeir sem vildu inn í ESB, landráðamenn og þeir sem vildu styðja við íslenskan landbúnað forheimskir einangrunarsinnar. Það sameiningatal sem eflaust gerði mikið til þess að efla og endurreisa bandarískt samfélag var hvergi að finna. Sjaldan reyndu formenn stjórnarflokka að eiga uppbyggilegt samtal við minnihlutann, allir voru sekir um það háttarlag, hvar í fylkingu sem þeir stóðu. Eftir að seinna kjörtímabil Barack Obama hófst fór að bera á svipuðu háttalagi á bandaríska þinginu og máttur svokallaðrar teboðshreyfingar óx ásmegin þar sem alið var á óþoli gagnvart forseta sem tilheyrði minnihlutahópi. Þeirra boðskapur var skýr. Þeir vildu engar málamiðlanir um eitt né neitt. Þeir fóru fram með hatri og gífuryrðum sem sjaldan höfðu sést eftir tíma aðskilnaðar hvítra og svartra. Fyrir þann tíma sátu þingmenn beggja flokka saman í mörgum nefndum, unnu saman að löggjöf og stóðu saman gagnvart sameiginlegum gildum bandarísks samfélags.
Uppgangur Trumps
Óveðursský fóru svo að færast yfir bandarískt samfélag, þingmenn töpuðu hverju sætinu á fætur öðru til fólks sem sagðist segja hlutina tæpitungulaust, en í grunninn hrópuðu frasakenndar setningar án rökstuðnings. Frasarnir náðu verulegum hljómgrunni þeirra sem hræddir voru um að lífsviðurværi þeirra yrði brátt tekið yfir af öðrum hópum í samfélaginu, s.s. bótaþegum, blökkumönnum, spænskumælandi fólki, innflytjendum eða sósíalistum. Sú gamla hefð sem var fyrir virðingu þvert á flokka fór dvínandi og teboðshreyfingin valtaði yfir miðjusinnaða Repúblikana sem vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Á meðan sváfu Demókratar á verðinum. Á kosningafundum varð þáverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, Mitt Romney, ítrekað að verja andstæðing sinn fyrir andstyggilegum framíköllum, en fjórum árum áður heyrði þess háttar uppákoma til undantekninga. Flokksmenn Repúblikana hættu smám saman að kveða niður hatur í eigin flokki og misstu boltann svo langt til hægri að ekkert gat stöðvað uppgang Donalds Trump, sem um það leyti hóf fáránlegar árásir á forsetann, sagði hann ekki Bandaríkjamann og gekk svo hart fram að furðu sætti um heim allan. Á þeim tíma hefði þó engum getað órað fyrir því að Trump tæki við sem forseti, aðeins fjórum árum seinna.
Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur
Heima náðu stjórnmálin nýjum lægðum þegar formaður Framsóknarflokksins, þáverandi, var narraður í viðtal og hann stamaði upp úr sér hálfum sannleikanum um fyrirtækið Wintris. Framhaldið þekkja flestir. Yfir þessum óförum glöddust margir andstæðingar formannsins sem áður höfðu setið undir ræðum hans um glötuð tækifæri og upphrópanir af ýmsum toga. Við tóku kosningar þar sem stuðningsmenn styrkjakerfis í landbúnaði voru sagðir óvinir neytenda, enn var talað um ESB landráðamenn og ekki skal gleyma íhaldinu sem nú var verra en nokkru sinni fyrr, ótækt í stjórn og samansafn glæpamanna sem fyrr. Þó studdi stærstur hluti kjósenda flokkinn, enda leitaði jú klárinn þangað sem hann var kvaldastur. Ekki leið á löngu þar til Trump var kosinn forseti og heimsveldið fór sömu leið og eyjan í norðri, umræðum með rökum og ábyrgð var skipt út fyrir upphrópanir af íslenskri fyrirmynd. Tryggja skildi völdin með því að egna saman hópum, semja hvorki við andstæðinga, né mæta þeim á miðri leið. Aðeins eitt var í boði og það voru skilyrðislaus völd meirihlutans.
Eitthvað varð að breytast
Tæpur meirihluti þeirrar ríkisstjórnar sem tók við eftir fall ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs sprakk vegna skorts á trausti, en svo tæp var stjórnin málefnalega að ekki þótti vert að hefja lífgunartilraunir. Svo enn var kosið. Nú hafði þó runnið töluvert vatn til sjávar. Í takt við kosningar Trumps fylgdu mykjudreifandi lygaauglýsingar veraldarvefsins og þá stóð fátt sem aðskildi örríkið og risaveldið. Eftir kosningar á Íslandi hvað þó óvænt við nýjan tón. Nú var ljóst að menn urðu að vinna saman ef starfhæf ríkisstjórn ætti að nást. Ákall eftir meiri samvinnu var skýr og almenningur vaknaður til lífsins. Eitthvað varð að breytast. Þvert á spár margra hófust samningaviðræður þriggja flokka sem spanna allar þrjár meginstefnur íslenskra stjórnmála eftir að slitnaði upp úr tilraun stjórnarandstöðu til stjórnarmyndunar. Það var þá kannski einhver von eftir allt saman. Von um það að fólk gæti litið upp úr sandkassanum. Von um að kjósendur sæju fyrir þá hnignun sem samfélög standa frammi fyrir nái sátt og samvinna ekki fram að ganga. Von um það að hæfni, samtal og traust leggi grunninn að sameiginlegri framtíðarsýn velferðar fyrir komandi kynslóðir. Von um að við getum þetta saman. Svo vitnað sé í fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, „Yes we can”.