Þegar ég eignast börn einn daginn ætla ég að taka upp eftirfarandi kerfi til að kenna þeim hvernig peningar virka og hver munurinn er milli aðilans sem gefur út peninga og aðilans sem notar peninga.
Segjum að ég eignist tvö börn, Jón og Gunnu. Ég segi við þau einn daginn að ef þau vilji borða matinn sem ég elda og njóta góðs af húsaskjólinu sem ég hef útvegað þeim verði þau að borga mér skatt, svokallaðan pabbaskatt.
Pabbaskatturinn er 100 Ólakrónur (ókr.) á mánuði. Ég mun eingöngu samþykkja Ólakrónur sem fullnaðargreiðslu á pabbaskattinum, ég tek aðra gjaldmiðla ekki gilda. Jón og Gunna líta í kringum sig og segjast ekki geta borgað mér skattinn, það séu engar ókr. til á heimilinu. Það er hárrétt hjá þeim, enginn hefur búið til ókr.. Ég svara þeim „ég bý þær til“ og skrifa á nokkra miða „þessi snepill er 10 ókr. virði og handhafi hans getur borgað andvirði 10 ókr. í pabbaskatt.“
Ég lita þennan snepil rauðan. Ég skrifa svo „1ókr.“ á annan snepil sem ég lita bláan. Ég kvitta svo undir sneplana með minni undirskrift á alla sneplana - og vei þeim sem vogar sér að svo mikið sem reyna að falsa undirskriftina mína!
Jón og Gunna biðja mig þá um að fá miðana í hendurnar svo þau geti þá borgað pabbaskattinn. En ég segi þá við þau að þau verði að vinna sér þá inn. Þau fá t.d. 10 ókr. fyrir að taka til í herberginu hjá sér, 5 ókr. fyrir að fara tímanlega í skólann og 3 ókr. fyrir að fara að sofa fyrir klukkan 9 á kvöldin.
Nú líður mánuðurinn og í ljós kemur að Jón fór snemma að sofa á hverjum einasta degi í mánuðinum (30*3 = 90 ókr), hann tók 4 sinnum til í herberginu sínu (40kr.) og mætti 20 sinnum tímanlega í skólann (100kr.). Hann hefur því unnið sér inn 230ókr. frá hinu opinbera... afsakið, frá mér.
Gunna var hins vegar óttalegur slóði, fór seint að sofa og vaknaði seint. Hún tók þó til í herberginu sínu samtals 5 sinnum og fær 50kr. fyrir það.
Gunna veit að ef hún finnur sér ekki a.m.k. 50kr. í tekjur í viðbót getur hún ekki borgað pabbaskattinn. Og þá verður pabbi reiður og setur hana í skammarkrókinn. Hún gerir því samning við bróður sinn: hún samþykkir að fara út að labba með Sám, hundinn hans Jóns, og fær borgað 100 ókr. á mánuði frá Jóni fyrir þá þjónustu.
Nú koma mánaðamót. Útgjöld ríkisins... eh, afsakið, útgjöld mín... voru samtals 230 ókr til Jóns og 50kr. til Gunnu, þ.e. 280kr. Ég ríf því blað niður í 28 snepla samtals, hver og einn 10ókr. virði, og borga Jóni og Gunnu 280 ókr. samtals.
Því næst rukka ég Jón og Gunnu 200ókr. samtals í pabbaskattinn.
Athugið nú eftirfarandi:
1) Ég varð að búa til ókr. áður en Jón og Gunna borguðu mér skattinn: ég gaf út Ólakrónurnar sem þau svo notuðu til að borga hvoru öðru fyrir selda þjónustu (hundalabbitúra) og mér pabbaskattinn. Ég rukkaði vitanlega ekki ókr. fyrst inn, því þær voru bókstaflega ekki til, áður en ég borgaði þeim laun í ókr. fyrir að haga sér vel.
2) Þar sem ég gef út ókr. eins og ég þarf get ég bókstaflega ekki orðið gjaldþrota séu mínar skuldbindingar í ókr. En Jón og Gunna, sem nota ókr., geta klikkað á því að borga sínar skuldbindingar í ókr. ef þau eiga ekki ókr. á þeim tíma sem þeim er gert að standa við þær.
3) Hallinn á rekstri ríkissjóðs... afsakið, mínum rekstri... var samtals 80 ókr. Athugið að hallinn hjá mér var sparnaður Jóns og Gunnu samtals: Jón sparaði 30 ókr (230 ókr í tekjur frá mér, 100 ókr í skatta, 100 fyrir keypta þjónustu) en Gunna 50 ókr (50 ókr. tekjur frá mér, 100 ókr. í skatta, 100 fyrir selda þjónustu), samtals 80ókr.
4) Ég get ákveðið mín útgjöld og skatta í ókr. nákvæmlega eins og ég vil án þess að óttast gjaldþrot í ókr: hví í ósköpunum ætti ég að klikka á því að borga skuldbindingu sem er í gjaldmiðli sem ég gef út?
Hins vegar get ég búið til verðbólgu í hagkerfinu ef ég kaupi vörur og þjónustu sem ekki er hægt að framleiða meira af á þeim tíma: ef ég borgaði t.d. Gunnu 101kr. á mánuði fyrir að vaska upp myndi ég e.t.v. hækka verðið á hundalabbsþjónustu í hagkerfinu, og búa til verðbólgu, því Jón þyrfti þá að borga Gunnu 102ókr. fyrir að labba með Sám. En sú verðbólga er ekki háð hallanum á mínum rekstri heldur vegna þess að ég tók framleiðslugetu í hagkerfinu og beindi henni annað (í uppvask) en einkageirinn hafði ákveðið að væri best (í hundalabb).
Ef Jón hefði hins vegar frá upphafi ekki viljað borgað Gunnu fyrir að fara út að labba með Sám hefði Gunna verið atvinnulaus og þess vegna hefði ég getað borgað henni fyrir uppvaskið án þess að eiga mikla hættu á að verðbólga ykist í hagkerfinu í kjölfarið. Magn framleiddrar þjónustu hefði einfaldlega aukist samhliða mínum hallarekstri við það að ég réði Gunnu til að vaska upp úr því Jón vildi ekki ráða hana til að fara út að labba með Sám.
Ég hefði því auðveldlega getað borgað Gunnu laun í ókr. fyrir uppvask og komið meiru í verk á heimilinu með því að virkja alla mögulega framleiðsluþætti (vinnuafl) innan þess. En geta mín til að borga með ókr. fyrir það sem ég vil að sé framkvæmt á heimilinu án þess að hækka verðlag í ókr. fer ekki eftir því hvort ég eigi ókr. eða hvort það sé halli á mínum ókr. rekstri í hverjum mánuði heldur hvort að einhver sé laus og reiðubúin til að framkvæma það sem ég vil að sé framkvæmt. Með öðrum orðum: eru til aðföng?
5) Ég get líka búið til verðhjöðnun í hagkerfinu með því að fjárfesta svo að framleiðslugeta þess aukist til langs tíma. Segjum t.d. að ég borgaði Gunnu, sem er þúsundþjalasmiður þrátt fyrir að vera stundum löt á morgnana, 150ókr. fyrir að þróa og búa til róbot sem tekur til í herbergjunum. Hún gerir það og ég skrifa niður á 15 snepla að þeir séu 10ókr. virði og afhendi henni sem fullnaðargreiðslu.
Ég rukkaði ekkert í extra skatta á meðan því ég veit að ég get ekki orðið gjaldþrota í ókr. því ég er sá eini í öllum heiminum sem gefur út ókr.: hallinn á mínum rekstri s.s. versnaði um 150ókr. meðan Gunna var að þróa róbotinn.
Nú sér róbotinn um að þrífa herbergin svo Jón og Gunna þurfa ekki að eyða tíma sínum í það (*hóst* betra vegakerfi, betra heilbrigðiskerfi, fleiri rannsóknar- og þróunarverkefni *hóst*). Ég get þá ráðið Jón og Gunnu í að vökva blómin í staðinn eða lækkað pabbaskattinn svo þau þurfi þá yfir höfuð að vinna minna til að eiga rétt á því að búa undir mínu þaki.
Ynni þau minna hefðu þau vitanlega meiri tíma til að yrkja ljóð, þróa bíla og lesa post-Keynesian hagfræði þar sem fólki er kennt hví greinarmunurinn á milli þeirra sem gefa út peninga og þeirra sem nota peninga er svona mikilvægur í staðinn fyrir að lesa tröllasögur um að nú verði að „sýna aðhald“ til að „lækka skuldir ríkissjóðs“, „búa í haginn fyrir verri tíma“ og eiga „rými til lántöku“ þegar þess verður þörf „enda engin leið að fjármagna loforðin“ sem ný ríkisstjórn hefur gefið út.
Ef ríkissjóður notaði íslenska krónu væri allt þetta skynsamlegt. En ríkissjóður notar ekki íslenska krónu líkt og íslensk heimili og fyrirtæki: hann gefur hana út.
Rétta spurningin sem ný og komandi ríkisstjórnir verða að spyrja sig er ekki „eigum við íslenskar krónur til að borga fyrir það sem viljum framkvæma?“ heldur „eru til aðföng, s.s. vinnuafl og þekking, til að framkvæma það sem við viljum framkvæma án þess að það valdi langvinni verðbólgu?“
Og eftir því sem ég best veit hefur ný ríkisstjórn ekki svarað þeirri spurningu. Svar óskast!
Greinin birtist fyrst á patreon.com/olafurmargeirsson