Eitthvað erfiðlega gekk að ná samningi um áframhaldandi raforkuviðskipti Landsvirkjunar og járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga. Þarna stóðu viðræður lengi yfir og sífellt styttist í að raforkusamningur fyrirtækjanna rynni út. En nú er loks komin niðurstaða í málinu; niðurstaða sem ætti að tryggja starfsemi járnblendiverksmiðjunnar a.m.k. fram til 2029.
Um leið hafa líkur aukist á því að innan nokkurra ára stefni hér í það sem kalla mætti raforkuskort. Það eru nefnilega horfur á því að á næstu árum verði lítið nýtt framboð af rafmagni, meðan eftirspurnin eykst jafnt og þétt. Í þessari grein er athyglinni beint að þessari nokkuð svo óvenjulegu stöðu, sem gæti leitt til hækkandi raforkuverðs og um leið áhugaverðra tækifæra í orkugeiranum.
Raforkan sem járnblendiverksmiðjan notar, er ekki að losna
Á ári hverju kaupir Elkem nálægt 1.100 GWst eða um 8% af allri þeirri raforku sem Landsvirkjun er að framleiða. Ef pattstaðan í viðræðum fyrirtækjanna hefði dregist enn meira á langinn, hefði það getað endað með því að járnblendiverksmiðjan hefði lokað innan 2ja ára. Þar með hefði skyndilega orðið snöggt og mikið framboð af rafmagni hér strax árið 2019.
Slíkt ástand hefði haft margvísleg áhrif. Að einhverju marki hefði þetta veikt samningsstöðu bæði Landsvirkjunar og annarra raforkufyrirtækja hér gagnvart viðsemjendum í nýjum raforkusamningum. En nú er ljóst að þarna er ekki rafmagn að losna í bráð, því nú hefur verið upplýst að Elkem nýtti sér samningsbundna heimild til að framlengja orkusamninginn um tíu ár. Sjálft rafmagnsverðið sætir svo ákvörðun gerðardóms. Sem senn mun kveða upp úr með það hvert orkuverðið skuli vera á þessu tíu ára tímabili; 2019-2029.
Elkem mun kaupa raforkuna af Landsvirkjun a.m.k. til 2029
Þar með virðist tryggt að Elkem mun áfram kaupa hátt í 1.100 GWst árlega af Landsvirkjun a.m.k. til ársins 2029. Um leið ákvað Elkem að taka áhættuna af því að sæta niðurstöðu gerðardóms um raforkuverðið. Ekki hefur verið upplýst hvernig sá gerðardómur er skipaður.
Undanfarin ár hefur nálægt 65-70% (!) af öllu kísiljárni heimsins verið framleitt í verksmiðjum innan Kína og þar í landi hefur verið stórlega offjárfest í kísiljárnframleiðslu. Þessi iðnaður býr því við fremur óvissar aðstæður nú um mundir, m.a. vegna þess að ekki er lengur eins mikill uppgangur í stálframleiðslu og var. Í því ljósi má sennilega vel við una að raforkuviðskipti Landsvirkjunar og Elkem hafi verið framlengd um tíu ár.
Tenging við norrænt markaðsverð virðist líkleg
Fyrirfram vitum við auðvitað ekki hver verður niðurstaða gerðardómsins um rafmagnsverðið til Elkem. Ekki er útilokað að kveðið verði á um hærra verð en það verð sem Landsvirkjun bauð fyrirtækinu. Það boð hefur sennilega hljóðað þannig að Elkem skyldi greiða nálægt því sama verð og raforka kostar á norræna raforkumarkaðnum. Svo er mögulegt að gerðardómurinn ákveði eitthvað lægra verð og/eða að verðskilmálar verði t.a.m. tengdir afurðaverði járnblendiverksmiðjunnar.
Í ljósi þess hvernig raforkuviðskipti hafa verið að þróast í Noregi á undanförnum árum, sem er jú heimaland Elkem, er freistandi að ætla að gerðardómurinn muni tengja rafmagnsverðið við norræna markaðsverðið, sbr. einnig nýlegur samningur Landsvirkjunar og Norðuráls. Á móti kemur að járnblendiframleiðsla er alþjóðlegur iðnaður og ef dómurinn lítur til raforkuverðs í þeim geira almennt gæti niðurstaðan orðið nokkuð óvænt.
Almennt stóriðjuverð stefnir í 35 USD/MWst
Það er sem sagt ekki augljóst hvernig gerðardómurinn mun ákvarða raforkuverðið til Elkem, enda ekki opinbert hvaða forsendur dómurinn á að miða við. Það virðist samt fremur líklegt að niðurstaða gerðardómsins um orkuverðið muni leiða til verulegrar hækkunar á verðinu til járnblendisins. Í ljósi þess hvernig raforkuverð hefur verið að þróast bæði hér á landi og á norræna orkumarkaðnum, ætti niðurstaða gerðardómsins varla að verða fjarri því orkuverði sem Landsvirkjun bauð. Þarna verður m.ö.o. sennilega tekið enn eitt skref í þá átt að raforkuverð hér til stóriðju verði almennt nálægt 35 USD/MWst þegar flutningskostnaður er með talinn.
Lítið raforkuframboð gæti þrýst orkuverði upp
Vegna þess hversu fáar nýjar virkjanir eru nú í byggingu hér, mun þessi þróun mála sennilega ekki bara stuðla að hærra meðalverði á raforku til stóriðju, heldur líka verða til þess að rafmagnsverð hér til almennra notenda þrýstist upp á við. Sú þróun virðist reyndar þegar byrjuð og er það í takt við þá sýn sem boðuð var í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Copenhagen Economics vann fyrir Landsvirkjun og birt var snemma á þessu ári (2017).
Hjá Landsvirkjun virðist reyndar álitið að of mikið sé gert úr verðhækkunum fyrirtækisins á rafmagni gagnvart almenna heildsölumarkaðnum. Meðan aðrir virðast álíta verðlagningu Landsvirkjunar „úr öllum takti við verðlagsþróun í landinu“. Hvað sem þessu líður, þá má glögglega sjá í raforkuspá Orkuspárnefndar og í áætlunum um raforkuþörf vegna orkuskipta, að bæta þarf verulegu magni af raforku inn á íslenska orkumarkaðinn á komandi árum. Ef slík ný orkuverkefni tefjast, gæti það leitt til meiri hækkunar á almennu raforkuverði.
Aukin raforkuþörf
Sú þróun mála að raforkusamningur Landsvirkjunar og Elkem gildi a.m.k. til 2029 hefur talsverða þýðingu fyrir íslenska raforkumarkaðinn. Því nú er augljóst að raforkuframboð er ekki að fara að aukast snögglega hér á allra næstu árum, þ.e. engin orka að losna vegna Elkem. Þetta merkir að nauðsynlegt er að huga vel að tækifærum til að auka raforkuframboð með hagkvæmum og skynsamlegum hætti.
Ísland er einangraður raforkumarkaður og ekki unnt að sækja raforku annars staðar frá. Til að ná að mæta hér vaxandi raforkunotkun, þ.e. vaxandi eftirspurn, þarf því fljótlega að reisa hér nokkrar nýjar virkjanir eða aflstöðvar. Á næstu tíu árum eða svo þarf sennilega alls hátt í tvö þúsund GWst í viðbót inn á íslenska raforkumarkaðinn. Þetta þýðir að raforkuframleiðsla á Íslandi þarf að aukast um u.þ.b. 10% á komandi áratug eða jafnvel fyrr.
Hvert á að sækja tvö þúsund GWst?
Hluti umræddrar raforku mun koma frá stækkaðri Búrfellsvirkjun og Þeistareykjavirkjun. Þar er þó einungis um að ræða um eða innan við helming orkuþarfarinnar. Vegna annarra verkefna virðist Landsvirkjun einkum stefna að því að næstu virkjanir verði Hvammsvirkjun í Þjórsá og Skrokkölduvirkjun á hálendinu miðju.
Eftir á að koma í ljós hvort núverandi þingmeirihluti og ríkisstjórn álíti aðra kosti betri. Þar á bæ virðist a.m.k. sem varlega eigi að fara í nýjar virkjanir og þá einkum og sér í lagi á miðhálendinu. Mögulega þarf því að finna einhverjar aðrar leiðir til að mæta vaxandi raforkuþörf á komandi árum en Landsvirkjun hefur stefnt að. Slíkt verður áhugaverð og spennandi áskorun, þar sem m.a. nýting vindorku gæti orðið skynsamleg lausn.
Höfundur starfar að ráðgjöf og viðskiptaþróun í orkugeiranum og er ritstjóri Icelandic Energy Portal.