Trump tókst að mynda samstöðu í öryggisráðinu á mánudag, þar sem 14 af 15 ríkjum samþykktu ályktun gegn ákvörðun Trumps um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Pólitísk skilaboð eru ótvíræð þegar 14 ríki eru á sama máli í öryggisráðinu. Hjáseta kemur ekki til greina í slíkri stöðu.
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kemur saman til sérstaks neyðarfundar í dag. Þar munu þjóðir heims taka afstöðu til sömu ályktunar. Ákvörðun allsherjarþingsins mun hafa verulegt pólitískt gildi á sama hátt og atkvæðagreiðslan í öryggisráðinu. Samstaða sem allra flestra ríkja heims mun þar skipta mestu: Mikilvægt er að breyta ekki stöðu Jerúsalem, sem er helg borg í trúarbrögðum múslima, gyðinga og kristinna.
Þetta veit Trump og hafa stjórnvöld undir hans forystu þrýst verulega á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, ef marka má fréttir fjölmiðla. En ríki heims láta ekki hóta sér til fylgilags.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á síðustu árum, sem gæti til lengdar valdið vatnaskilum fyrir almenna borgara. Grundvallarbreyting varð þegar Palestína öðlaðist viðurkenningu sem ríki að þjóðarétti. Það gerðist með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. A/RES/67/19 frá 29. nóvember 2012. Með henni varð Palestína fullgilt áheyrnaraðildarríki SÞ í stað fyrri stöðu sem áheyrnaraðili án þess að teljast ríki.
Nákvæmlega ári fyrr hafði Alþingi Íslendinga samhljóða og mótakvæðalaust samþykkt ályktun nr. 1/140 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.
Frá þessum tíma getur markviss beiting alþjóðlegra mannréttinda- og mannúðarlaga einungis hjálpað í ómögulegri stöðu á svæðinu. Þetta er engin töfralausn en getur t.d. til lengri tíma hjálpað við að leysa úr hernámi Ísraelsmanna á landi Palestínumanna. Þar hafa verið uppi vísvitandi ögranir.
Forsætisráðherra Bretlands lýsti ástandinu þannig að umsátur Ísraelsmanna hefði breytt Gasa-svæðinu í fangabúðir. Það var árið 2010 - fyrir rúmum sjö árum. Þetta er framferði sem hefur tafið friðarviðræður og spillt vilja viðsemjenda til að koma að samningaborði. Það er grundvallaratriði að deiluaðilar láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.
Ályktanir Sameinuðu þjóðanna mynda órofa röð og sýna samstöðu alþjóðasamfélagsins yfir langan tíma. Ályktanir öryggisráðsins hafa verið í samhljómi. Norðurlöndin tala einni röddu í málinu, með Noreg í broddi fylkingar, sem hefur beitt sér með hvað virkustum hætti fyrir lausn deilunnar í gegnum árin. Afstaða Alþingis er sömuleiðis skýr og hefur verið um áraraðir.
Það má teljast öruggt að engin breyting verður á þeirri afstöðu í dag.
Markmiðið er svonefnd tveggja ríkja lausn, þ.e. friðarsamningar á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis.
Viðurkenning Trump á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels gengur þvert gegn þessum markmiðum alþjóðasamfélagsins.
Þetta vita þjóðir heims og sameinast í dag í þágu friðar. Trump hefur enn á ný sameinað heimsbyggðina með óvæntum hætti.
Höfundur er formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.