Hún er hugljúf sagan um verkstæði jólasveinsins sem nær allt árið situr með tálguhnífinn og undirbýr jólaleiðangurinn, á sleðanum með hreindýrin spennt fyrir, með allt jólaskrautið og gjafirnar. Hvar hann hefur aðsetur hefur valdið miklum heilabrotum og jafnvel deilum. Grænlendingar og Finnar deildu árum saman um ,,heimilisfangið“ en eftir að grænlenskt jólasveinafyrirtæki komst í þrot fyrir nokkrum árum hafa Finnar tekið af allan vafa: sveinki hefur aðsetur við bæinn Rovaniemi í norðurhluta Finnlands.
Þegar pistlaskrifari var að alast upp, uppúr miðri síðustu öld minnist hann þess ekki að mikið hafi verið rætt um hvar jólaskrautið hefði verið búið til. Skrautið á jólatrénu var ,,margnota“ tekið uppúr kassanum þar sem það lá í hálminum og hengt á tréð, helst á sömu grein og í fyrra! Fór svo sömu leið til baka og alla leið uppá háaloft, jólatrésserían var frá Reykjalundi. Að ógleymdu englahárinu sem var lagt yfir skrautið á trénu, englarnir sem lögðu það til höfðu greinlega ekki farið til rakarans einu sinni í mánuði, hárið næði dauðlegum mönnum niður undir hné. Ekki má í þessu samhengi gleyma öðru skrauti en því sem hékk á trénu, þar sitja músastigarnir í minninu, strengdir horna á milli í stofunni. Til að auka enn á skreytingar var litlum grenigreinum stungið bakvið málverkin í stofunni og gjarna kveikt í greninálum í öskubakka, til að fá ,,jólalyktina“.
Ef keypt var nýtt jólaskraut, sem taldist til undantekninga, stóð oftar en ekki utan á umbúðunum ,,made in Germany“ semsé Þýskalandi. Þetta var þá.
Made in China
Á síðustu örfáum áratugum hefur risinn í austri, einsog Kína er stundum kallað, orðið æ atkvæðameiri á öllum sviðum. Þar er jólaskraut ekki undanskilið. Ekki er það vegna þess að Kínverjar eigi ríka jólahefð og fæstir kannist við þennan Jesús og allt umstangið sem fæðing hans, og ævi, hefur haft í för með sér. Enda er þeim kannski alveg sama. En það hefur sannarlega ekki farið fram hjá þeim að á Vesturlöndum séu þessi ,,jól“ sannkölluð gullöld. Stendur að vísu stutt en kemur aftur að ári.
Yiwu
Um það bil 350 kílómetrum vestan við Shanghai er Yiwu, borg sem fáir þekkja. Yiwu er lítil borg, á kínverskan mælikvarða, íbúarnir um það bil ein og hálf milljón. Þessi borg er sannkölluð jólaskrautsborg. Milli 60 og 80 prósent af öllu því jólaskrauti sem er til sölu í verslunum um víða veröld, og dregið er niður af háaloftinu, fyrir hver jól verður til í Yiwu. Þrátt fyrir þetta gífurlega magn fer framleiðslan ekki fram í stórum verksmiðjum, lang mestur hluti skrautsins verður til á litlum verkstæðum og heimilum.
Vinnudagurinn er langur, oft 12 klukkustundir og launin eru lág. Vörurnar eru svo seldar á markaðnum í Yiwu sem iðulega hefur verið lýst, meðal annars af Sameinuðu þjóðunum, sem stærsta heildsölumarkaði í heimi. Þar er reyndar ekki eingöngu seldur jólavarningur, allt milli himins og jarðar væri kannski rétta lýsingin. Um það bil átta þúsund manns sem annast innkaup fyrir heildsala og fyrirtæki um víða veröld búa að staðaldri í borginni. Á áðurnefndum markaði eru milli 50 og 60 þúsund heildsölur. Vörutegundirnar, fyrst og fremst alls kyns smávarningur, skipta hundruðum þúsunda og daglega koma að minnsta kosti 50 þúsund manns, sem annast innkaup, á heildsölumarkaðinn. Í stórri skemmu, sem er hluti markaðarins eru eingöngu seldir sokkar, ítalskur blaðamaður sem fór í sokkaskemmuna fékk þær upplýsingar að þar væru seldir um það bil þrír milljarðar sokkapara á hverju ári. Í annarri stórri skemmu eru eingöngu seld gerviblóm, annað er í þessum dúr.
Heimsins lengsta járnbraut
Það er ekki nóg að selja vörurnar, það þarf líka að koma þeim á áfangastaði sem eru ekki beinlínis í næsta nágrenni Yiwu. En Kínverjar hafa líka hugsað fyrir þessu. Þeir vita vel að sjóleiðin, til dæmis til Evrópu er alltof tímafrek, tekur allt að sex vikum. Þessvegna hefur verið lögð járnbraut frá Yiwu til Madrídar á Spáni. Járnbrautin er sú lengsta í heimi, rúmlega 10 þúsund kílómetrar. Lestin fer um sjö lönd og ferðin tekur samtals þrjár vikur. Þessi flutningsmáti er sagður ódýrari en ef flutt væri með skipi, fyrir utan tímasparnaðinn er það líka mikið hagræði að geta losað frakt á leiðinni. Til baka frá Evrópu flytur lestin ýmis konar varning en kaup Kínverja á margs konar varningi frá Evrópu, ekki síst matvörum hefur aukist mikið á allra síðustu árum.