Hafandi fylgst með stjórnmálum nánast frá því að ég man eftir mér, veit ég að væntingar stjórnmálamanna til framtíðarinnar endurspegla ekki endilega raunverulega þróun. Sérstaklega ekki þegar að áramótagreinum kemur. Þar kemur margt til; utanaðkomandi aðstæður, það sem aðrir gera hefur oft áhrif á hvort væntingarnar rætast og, frómt frá sagt, þá hefur mér þótt sem stjórnmálamenn séu ekki endilega alltaf raunsæir eða fullkomna heiðarlegir í væntingum sínum. Það læðist nefnilega að manni sá grunur að stundum blandist pólitískir hagsmunir inn í það sem pólitíkusar segja; þ.e. þeir séu að huga að fleiri þáttum en beinlínis þeim sem þeir tjá sig um.
Að því sögðu ætla ég að leyfa mér að tala eins ærlega og ég get um þær væntingar sem ég hef til ársins 2018, því þær eru töluverðar. Ég ætla ekki endilega að segja að þær séu svo miklar að ég telji árið munu skipa sér sess í sögunni líkt og árið 1492 í sögu Spánar, sem á síðari tímum var kallað annus mirabilis, eða undravert ár. Nú eða árið 1666 í sögu Bretlands, sem er það ár sem fyrst fékk þetta göfuga heiti. En ég vona engu að síður að árið 2018 verði í sögu Íslands ár samvinnunnar – annus cooperationis, svo sagnfræðitengingunni sé við haldið.
Ljóst er að miklar væntingar eru gerðar til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem birtist m.a. í skoðanakönnunum um fylgi við hana. Ég ætla ekki að lesa of mikið í þær kannanir, eða eyða of mörgum orðum í að dásama ríkisstjórnina, enda mun ég trauðla telja nokkrum hughvarf sem á móti henni er. Ég tek það eitt út úr könnuninni að miklar væntingar séu til ríkisstjórnarinnar. Það setur mikla ábyrgð á herðar okkar sem að henni stöndum, sem er gott.
Eitt af því sem ríkisstjórnin hefur einsett sér er að stuðla að aukinni samvinnu. Stjórnarsáttmálinn boðar breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Aukið samráð við vinnumarkaðinn um sterkara samfélag á sem flestum sviðum, sem er vísun í uppbyggingu félagslegs stöðugleika auk hins efnahagslega, og að samráð verði treyst og stuðningur við sveitarfélögin hvað varðar uppbyggingu innviða, byggðaþróun og fjármálaleg samskipti.
Fyrstu skrefin, af mörgum, hafa þegar verið stigin. Sest var niður með aðilum vinnumarkaðarins í stjórnarmyndunarviðræðunum sjálfum, nokkuð sem ekki hafði verið gert áður, og ljóst er að mikil áhersla verður á þá samvinnu fyrir komandi kjarasamninga. Ráðist verður í tilfærslu á tekjustofnum frá ríki til sveitarfélaga, með því að gistináttagjald renni óskipt til sveitarfélaganna.
Þá boðar ríkisstjórnin eflingu Alþingis og nánari samstarf milli flokka á Alþingi.
Samráð og samvinna verður aldrei nema í… tja, samráði og samvinnu. Allir aðilar þurfa að vera tilbúnir til samvinnunnar til að hún verði að veruleika.
Ég tel að nú sé einstakt tækifæri til að breyta stjórnmálamenningu á Íslandi. Allt of lengi hefur hún einkennst af skotgrafahernaði þar sem flokkar skipa sér í fylkingar eftir því hvoru megin hryggjar þeir lenda; í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þrátt fyrir að hafa ekki langa þingreynslu að baki, er ég viss um að sjálfur hafi ég tekið þátt í þessu. Að gagnrýna að ósekju, vegna þess að mál komu frá ríkisstjórninni, í það minnsta að gagnrýna af offorsi. Það er auðvelt að detta í það hlutverk, þegar manni hleypur kappi í kinn, en þó ber að minnast þess að stór mál síðustu ríkisstjórnar nutu stuðnings a.m.k. hluta stjórnarandstöðunnar. Eitt þeirra, jafnlaunavottun, hefði t.d. ekki orðið að lögum nema fyrir stuðning úr stjórnarandstöðunni.
Ríkisstjórnin hefur þegar sýnt það í verki að hún meinar það sem hún segir með orðum um eflingu Alþingis. Staða þingflokka verður bætt, sérfræðivinna efld og, að höfðu samráði við stjórnarandstöðu, unnið að enn frekari eflingu. Og stjórnarandstaðan leiðir þrjár af fastanefndum þingsins. Það hefur ekki gerst í um tvo áratugi og að auki gegna stjórnarandstæðingar formennsku í ýmsum alþjóðefndnum. Ólíkt því sem áður hefur gerst höfðu stjórnarflokkarnir enga skoðun á því hvaða þingmenn gegndu formennskunum.
Aukinheldur mun ríkisstjórnin, á fyrri hluta kjörtímabilsins, setja á fót þverpólitíska hópa um mikilvæg mál, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga.
Það er vel hægt að tala niður þessar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og vel má vera að ég hefði gert það, væri ég í stjórnarandstöðu og ekki í samvinnugírnum. Það er hægt að horfa framhjá því að staða stjórnarandstöðunnar hefur ekki verið sterkari en nú hvað formennsku í nefndum varðar og segja að stjórnarandstaðan hafi nú ekki fengið allar þær formennskur sem hún bað um og ekki meirihluta í einni, eins og óskað var. Og það er hægt að segja að skipan þverpólitískra hópa sé til marks um að stjórnarflokkarnir þrír nái ekki saman í mikilvægum málum. Allt fer þetta eftir því hvernig maður er stefndur, hvort þetta er jákvætt eða neikvætt.
Ég lít á það sem styrk að ætla sér að setja jafn mörg og jafn stór mál í þverpólitískt samstarf. Eitt af því sem hefur skort í íslenskum stjórnmálum, er nefnilega samstarf þvert á flokka um stefnu til lengri tíma. Í krafti meirihlutans hafa ríkisstjórnir komið sinni stefnu á, stefnu sem lifir svo sjaldnast af stjórnarskipti. Um þetta eru líklega allir flokkar sem setið hafa í ríkisstjórn síðustu áratugi sekir.
Nú er lag að breyta þessu. Það skiptir í raun engu hvort skipan svo margra þverpólitískra hópa sé til marks um styrk eða veikleika ríkisstjórnarinnar. Það sem skiptir máli er að allir flokkar taki höndum saman og vinni af heiðarleika að stefnumótuninni, landi og þjóð til heilla. Því allt eru þetta mál sem skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag.
Ábyrgð okkar stjórnarliða er mikil, en ég vona að öll þau sem að samstarfinu koma finni til einhverrar ábyrgðar. Tækifærið er núna til að gera betur, vinna saman að því að bæta samfélagið okkar. Til þess erum við jú í stjórnmálum.Megi 2018 verða ár samvinnunnar.
Höfundur er varaformaður þingflokks Vinstri grænna.