Við áramót ber hæst á stjórnmálavettvangi myndun nýrrar ríkisstjórnar undir lok ársins með flokkum sem ekki hafa áður staðið saman með þeim hætti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er óskað velfarnaðar og hún verður studd til góðra verka. Hins vegar veldur vonbrigðum að ný ríkisstjórn skuli ekki nýta einhverja mestu uppsveiflu í manna minnum til að stíga markverð skref til að bæta hag þeirra sem höllustum fæti standa í landinu.
Enginn velkist í vafa um hverjir það eru sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi. Þetta eru hópar aldraðra og öryrkja — en þessir hópar eru sem kunnugt er aldrei nefndir öðruvísi en að orðið skerðingar fylgi með — barnafjölskyldur með lágar tekjur og almennt verkafólk. Þessum hópum ber að tryggja viðunandi lífskjör í stað sífelldra skerðinga og afarkosta eins og nú eru uppi.
Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar, en það sker í augu í sáttmála hennar og stefnuræðu að metnaður hennar til að bæta kjör þessara þjóðfélagshópa sýnist hóflegur svo ekki sé sterkar að orði kveðið.
Frítekjumarkið setti svip sinn á nýliðna kosningabaráttu þar sem Flokkur fólksins tók fyrstur upp málið og aðrir fylgdu á eftir. Samt á ekki að hækka frítekjumarkið úr hinum alræmdu 25 þús. kr. í nema 100 þús. kr., sem nær ekki því sem það var fyrir ári. Nýleg skýrsla gerð fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni styður þá stefnu sem við höfum boðað að óhætt sé og rétt að ganga mun lengra í þessum efnum en ríkisstjórnin áformar. Málefni öryrkja, sem allir vita að hafa setið eftir eiga að fara í nefnd eins og undangengin ár. Í heimsókn á Alþingi á þingsetningardegi kom glöggt fram af hálfu forystumanna Öryrkjabandalagsins réttlát reiði þeirra og vonbrigði. Ríkisstjórnin verður að gera betur en hún boðar í málefnum öryrkja.
Enn annað dæmi um áberandi skort á metnaði er húsnæðisliður vísitölunnar. Meðan almennt verðlag eins og það er mælt af Hagstofu Íslands hefur farið lækkandi á umliðnum misserum hefur þessi húsnæðisliður hækkað verulega, sumpart vegna stefnu meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur sem einkennist af lóðaskorti og tilheyrandi hækkun á fasteigna- og leiguverði. Þetta rekur sig gegnum húsnæðisliðinn og hefur valdið tilflutningi á verðmætum frá heimilum landsmanna til fjármálastofnana og skaðað húsnæðiskaupendur og leigutaka. Þessar fjárhæðir sem lagðar eru með þessum hætti á heimilin hlaupa á tugum milljarða og svara til verðmætis alls þorskafla úr sjó á hverju ári undanfarin ár. Vandamálið er viðurkennt í stjórnarsáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar en stórhugur hennar í málinu reynist ekki meiri en svo að hún segir að hefja eigi skoðun á þessum húsnæðislið. Engar aðgerðir eru boðaðar til að fella þennan lið brott en látið duga að hefja skoðun.
Þessi örfáu dæmi sýna, að ríkisstjórnin þarf á aðhaldi að halda og virkri stjórnarandstöðu. Við munum ekki draga af okkur í því efni.
Vanahugsun hefur leitt til andvaraleysis þegar kemur að jafnvægi í ríkisfjármálum og stöðugleika í fjármálum. Hvers virði er jafnvægi í ríkisbúskapnum sem felur í sér að grunnstoðir samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntamál séu í fjársvelti? Hvers konar jafnvægi er það sem reist er á að ríkissjóður komist ekki af nema skattleggja tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum? Nýleg skýrsla Alþýðusambands Íslands frá því í sumar sýnir svart á hvítu að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun með þeim afleiðingum að fjögurra manna fjölskylda með lágar tekjur býr við ráðstöfunartekjur sem eru vel á annað hundrað þúsund krónum lægri á mánuði en ef persónuafslátturinn hefði tekið hækkunum í samræmi við launaþróun.
Hvers virði er fjármálastöðugleiki af því tagi sem felur í sér að þúsundir íslenskra foreldra séu rekin út af heimilum sínum leiðandi börn sín sér við hönd eins og gerst hefur með ömurlegum afleiðingum fyrir heilsu barnanna og velferð. Nýleg saga í þessum efnum er smánarblettur sem ekki má endurtaka sig.
Bjóða ber velkomnar heim þær þúsundir Íslendinga sem flæmst hafa af landi brott og búa á erlendri grundu. Við verðum að gera betur en bjóða þessu fólki í ískaldan náðarfaðm verðtryggingarinnar, heimatilbúins fyrirkomulags án erlendra fyrirmynda sem stappar nærri að svipta fólk fjárhagslegu sjálfstæði, svo víðtækar skuldbindingar sem hún leggur á lántaka gagnvart mun sterkari aðila sem lánveitandinn jafnan er.
Lítið ber á því í nýju fjárlagafrumvarpi að ríkisstjórnin hyggist efla löggæslu í landinu þó að í stjórnarsáttmálanum sé talað um öfluga löggæslu. Staðreyndin er sú að löggæslan hefur búið við fækkun lögreglumanna frá því löngu fyrir hrun og það á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað og komur ferðamanna til landsins hafa margfaldast. Þá er áberandi hve hlutur löggæslunnar úti á landi er fyrir borð borinn. Flokkur fólksins mun fylgjast vel með málefnum lögreglunnar enda er öryggi borgaranna frumskilyrði í velferðarsamfélagi nútímans.
Ríkisstjórnin daufheyrist við áskorunum um að endurmeta staðarval nýs þjóðarsjúkrahúss. Staðsetning við Hringbraut er reist á úreltum forsendum um byggingarmagn og aðkomuleiðir, gerir ráð fyrir þungaflutningum um íbúðargötur og að nýjar byggingar tengist húsum þjökuðum af raka og myglu. Bygging spítala nær miðju höfuðborgarsvæðisins væri án efa mun ódýrari og hentugri kostur. En spítalinn er fullfjármagnaður og undirbúningur virðist þykja of langur og kostnaðarsamur til að staðsetningu hans megi endurmeta. Fullfjármögnuð mistök gæti verið yfirskrift þessa verkefnis þegar þjóðinni ríður á að fá vel heppnað sjúkrahús á besta stað með greiðum aðkomuleiðum.
Á komandi ári verður minnst hundrað ára fullveldis Íslendinga. Mikilvægt er að vel takist til á þessum mikilvægu tímamótum í sögu þjóðarinnar.
Landsmönnum öllum óska ég gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.