Viðburðaríkt ár er nú á enda. Sameinuð var þjóðin í von og sorg vegna Birnu Brjánsdóttur og sameinuð var hún líka í sigrum og gleði yfir velgengni í knattspyrnunni. Á árinu sátu þrír forsætisráðherrar, tvær ríkisstjórnir og enn bættust nýir flokkar við eftir kosningar síðla hausts. Sjálf sat ég í tveimur stjórnarmeirihlutum, tók að mér tvö ný verkefni, sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar og formaður utanríkismálanefndar auk þess að ljúka lögfræðiprófi með skil á meistararitgerð.
Í ár misstum við eina öflugustu stjórnmálakonu landsins, Ólöfu Nordal. Hún reyndist mér dýrmæt vinkona, samstarfskona og fyrirmynd. Ólöf var ráðagóð, hafði einstaka framtíðarsýn og næmni fyrir bæði stjórnmálum og fólki. Það er ekki bara okkar missir sem hana þekktu, heldur einnig Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar allrar. Ólöf skilur eftir mikið skarð í Sjálfstæðisflokknum sem við höfum öll fundið fyrir. Það er ótrúlegt hvað eitt ár getur verið viðburðarríkt og markað djúpar upplifanir á öllu litrófi tilfinningaskalans í bæði sigrum og sorg.
Ný ríkistjórn - breið samstaða
Við stöndum á tímamótum eftir nokkuð óróleg ár. Nú hefur verið mynduð ríkisstjórn þvert yfir stjórnmálasviðið eftir enn einar kosningarnar sem gáfu ekki skýrari mynd um niðurstöðu. Þrír flokkar ákváðu þó að vinna saman og mynda sterka ríkisstjórn þó stefna þeirra væri ólík. Ég tel þessa ríkisstjórn geta náð mikilvægum stöðugleika í íslenskum stjórnmálum. Ég vona að okkur lánist gað gera Íslendinga sáttari við landsstjórnina og að okkur lánist til að halda áfram að gera Ísland að framúrskarandi landi, því hér gengur lífið almennt vel og landsmönnum vegnar vel þrátt fyrir að nokkur upplausn hafi verið í stjórnmálunum. Hér er næga vinnu að fá, tekjur heimilanna hafa aukist og það er uppgangur í atvinnulífinu. Stjórnmálamenn eiga að vinna með þjóðinni að þessum markmiðum. Það er eitt mikilvægasta verkefni okkar.
Við höfum nú náð ákveðnu jafnvægi í stjórnmálunum og það er óhætt að segja að það sé bjart framundan. Við munum halda áfram að efla velferðar- og heilbrigðiskerfið, byggja upp öflugt atvinnulíf og leggja áherslu á menntun og nýsköpun. Um þetta eru stjórnarflokkarnir sammála og um þessi verkefni geta allir sameinast. Við viljum skapa samfélag þar sem öllum líður vel, samfélag sem einkennist hvort tveggja af velferð og lífsgæðum og ekki síður af framförum og uppbyggingu. Stór liður í því að byggja upp þannig samfélag er að treysta ungu fólki til góðra verka, treysta því til að opna á frekari nýjungar, treysta því til að koma fram með hugmyndir og ekki síst treysta því fyrir ábyrgð.
Bylting í viðhorfum
Á árinu varð bylting kvenna með átakinu ”metoo”, sem fram fór um víða veröld. Sú vitundarvakning var og er mikilvæg og ég trúi því að hún hafi haft varanleg áhrif á hugsunarhátt fólks. Við Íslendingar getum verið stolt af því hve langt við höfum náð í jafnréttismálum og að við erum þar í forystu á heimsvísu. Þrátt fyrir það höfum við einnig verið mjög framarlega í þessari umræðu einkum vegna þess að við vitum og viljum áfram gera enn betur. Stærsti árangur umræðunnar er að þeir sem tileinka sér ekki það viðhorf sem kallað er eftir gagnvart fólki dæma sjálfa sig úr leik og að við munum vonandi bregðast betur við en áður. ”Metoo” byltingin mun líka hafa áhrif til lengri tíma því unga fólkið er sammála um að tileinka sér ný viðhorf.
Tækifæri framundan
Á tímamótum er gott að staldra við og sjá hvað hefur miðað í rétta átt og hvar megi gera betur. Okkur fer sífellt fram, lífsgæði eru að batna, lífslíkur aukast og þannig mætti áfram telja. Framtíðin er björt, við getum litið stolt fram á veginn, tilbúin til að takast á við þau verkefni sem bíða okkar. Ég hlakka til næsta árs og ég óska ykkur gleði og gæfu á komandi ári.