Hvenær segir ráðherra af sér og hvenær ekki?

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson spyr hvernig það eigi að vera að ráðherra sem neiti að taka ábyrgð vegna gjörða sinna, og hefur fengið á sig dóm í Hæstarétti, geti setið áfram?

Auglýsing

Mona Sahlin, fyrrum ráðherra í Svíþjóð og síðar leiðtogi jafnaðarmanna fór út af sporinu sem atvinnumálaráðherra árið 1991 og keypti bæði Toblerone-súkkulaði og bleyjur á börnin út á krítarkort sænska ríkisins. Hún misnotaði þar með stöðu sína, en tók pólitíska ábyrgð og sagði af sér. Að vísu ekki fyrr en eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun. 

Tveir hollenskir hermenn létust á æfingu í Malí árið 2016 og í kjölfarið sagði varnarmálaráðherra Hollands af sér. 

Þróunarmálaráðherra Bretlands fundaði með ísraelskum ráðamönnum, þar með talið forsætisráðherra landsins, Benjamín Netanjahú, án samþykkis bresku stjórnarinnar, og þurfti að segja af sér í kjölfarið. 

Auglýsing

Ekkert af þessum dæmum felur í sér lögbrot og í tilfelli Monu Sahlin sagðist hún hafa litið á úttektir á Júrókorti sænska ríkisins sem „fyrirfram greidd laun“. Hún skilgreindi þar með sjálf hlutina í eigin þágu. Hins vegar misbauð sænskum almenningi og féll ef til vill þessi gjörningur Monu undir flokkinn „svona gerir maður ekki“. 

Afsagnir fátíðar hérlendis 

Á Íslandi hafa mjög fáir ráðherrar sagt af sér vegna þess að þeir hafi neyðst til þess og eftir að Ísland varð lýðveldi gerðist það í raun ekki fyrr en árið 1994. Þá sagði þáverandi félagsmálaráðherra, Guðmundur Árni Stefánsson (Alþýðuflokki) af sér embætti vegna gagnrýni sem hann hafði fengið á sig vegna starfsloka Björns Önundarsonar, tryggingayfirlæknis. Málið snerist um starfslokagreiðslur læknisins, það er peninga. Guðmundur Árni var á þessum tíma ein helsta vonarstjarna íslenskar jafnaðarmanna.   

Í frétt í Morgunblaðinu um málið segir: „Með því að biðjast lausnar frá embætti félagsmálaráðherra sagðist Guðmundur Árni hafa brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu. Hann hefði tekið ákvörðun um að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri og sagt af sér embætti án sakarefna og þrýstings eftir að hafa ráðfært sig við fjölmarga stuðningsmenn sína sem hefðu látið í ljós mjög misjafnar skoðanir á málinu.“  (Morgunblaðið, 12.nóvember 1994).  

Lekamálið 

Næsti ráðherra sem þvingast til að segja af sér á Íslandi er Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra í stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (2013-2014). Þetta gerist í því máli sem kallast „Lekamálið“. Það snýst um ólöglegan leka á upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til Morgunblaðsins, frá og út úr Innanríkisráðuneytinu.  

Aðstoðarmaður Hönnu Birnu, Gísli Freyr Valdórsson, játaði að hafa lekið upplýsingunum (neitaði fyrst) um Tony Omos og Hanna Birna sjálf sagði einnig ósatt í málinu. Þann 21. nóvember 2014 sagði Hanna Birna af sér embætti, eftir mikla umfjöllun fjölmiðla og á Alþingi. En málið dró fleiri með sér, þar sem lögreglustjóri höfuðborgarinnar, Stefán Eiríksson, sagði líka af sér vegna málsins. 

Þriðji ráðherrann í stjórnmálasögu lýðveldisins til að segja óviljugur af sér er svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, vorið 2016. Hann sagði af sér embætti forsætisráðherra eftir að hafa verið afhjúpaður sem ósannindamaður í sænska fréttaskýringaþættinum „Uppdrag granskning“, þ.e. eftir rannsóknir og aðkomu fjölmiðla. Í málinu sagði Sigmundur ósatt um tengsl sín og aðkomu að aflandseyjafyrirtækinu Wintris og málið því einfaldlega kallað „Wintris-málið.“  

Til einna mestu mótmæla Íslandssögunnar kom vegna málsins og sagði Sigmundur af sér embætti þann 5.apríl 2016. Aflandseyjafyrirtæki eru í flestum tilfellum notuð til þess að fela peninga og koma þeim undan skattheimtu, af þeim auðmönnum sem eiga viðkomandi peninga. Skattar eru notaðir til þess að fjármagna meðal annars heilbrigðis, menntakerfi og vegakerfi landa, þ.e. í þágu almennings. 

Sigmundur braut í sjálfu sér ekki lög, en hann sagði ósatt. Bæði Hanna Birna og Guðmundur Árni brutu í ekki lög heldur. Heldur snýst þetta mun frekar um siðferði og traust. Traust er mjög lítið á íslenskum stjórnmálum og hefur verið svo allar götur frá Hruninu 2008. Og siðferði virðist skipta frekar litlu máli í íslenskum stjórnmálum yfir höfuð. Hvers vegna skyldi það vera eitt af einkennum pólitískrar menningar á Íslandi? 

Dómsmálaráðherra fær á sig dóm 

Og nú er svo komið að Íslendingar eru með dómsmálaráðherra sem hefur fengið á sig dóm Hæstaréttar landsins, sem slegið hefur því föstu að ráðherrann hafi brotið stjórnsýslulög í sambandi við skipan dómara í nýtt dómstig, Landsrétt, sem nú hefur hafið störf. Þetta er fáheyrt. 

En það merkilegasta er að dómsmálaráðherrann (æðsti yfirmaður dómsmála í landinu) segist einfaldlega vera ósammála dómi Hæstaréttar og hyggst halda áfram störfum eins og ekkert hafi gerst. Verður það að teljast óvenjulegt. 

Í frétt á RÚV frá 19. desember segist Sigríður Andersen vera „efnislega ósammála“ dómnum. Hvað þýðir það? Er hún þá siðferðilega sammála dómnum? Eða hvernig ber að túlka þessi orð? Í sömu frétt segist hún „ekki ætla að deila við dómarann.“ Hvað þýðir það? Ætlar hún þá að hlíta dómnum?  

Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars: „...verður að telja að meðferð ráðherra á umsóknum um embætti dómara Landsréttar í kjölfar þess að henni barst umsögn dómnefndar og það mat sem ráðherra lagði í framhaldinu á umsóknirnar hafi verið haldin slíkum annmörkum að ekki séu forsendur til að fullyrða hvort ráðherra hafi lagt til skipun 15 hæfustu umsækjendanna til Alþingis."  

Nú er sá sem ritar þessi orð ekki löglærður maður en finnst það eigi að síður liggja beint við að ef æðsti maður dómsmála ríkisins fær á sig dóm frá Hæstarétti ríkisins beri viðkomandi að segja af sér. Sérstaklega ef litið er til orða á borð við þau sem eru hér að ofan, þ.e. að hæfustu umsækjendurnir hafi ekki verið ráðnir við skipun hins nýja dómstigs. 

Skipta lög máli? 

Hvernig eiga lög og reglur, já og allt réttarríkið annars að virka þegar menn geta bara sagst vera ósammála dómum og ekkert gerist? Það er látið eins og ekkert sé og svo segjast menn bara ætla að setja nýjar reglur! Virkar réttarríkið og lagapraxís á Íslandi virkilega bara svona? Skipta lögin þá einhverju máli? Og hvað með okkur hin? 

Ráðherrar eru þeir aðilar sem eru æðstir í stjórnkerfi Íslands og þeirra landa sem við berum okkur við. Aðeins forsetinn er æðri hér á landi. Ráðherrar eru einstaklingar sem eru fyrirmyndir í samfélaginu og þeir eru kosnir af almenningi til trúnaðarstarfa, gagnvart almenningi og þeir eiga að gæta almannahagsmuna. Þeir eru í kastljósi fjölmiðla vegna verka sinna og í eru raun miðpunktur stjórnkerfisins.  

Það er ítarlega fylgst með því sem ráðherrar gera og í tilfelli Íslands eru ráðherrar líka alþingismenn, sem setja öllum almenningi lög og reglur. Hvernig á það því að vera að ráðherra sem neitar að taka ábyrgð vegna gjörða sinna, og hefur fengið á sig Hæstaréttardóm, geti setið áfram? Er ekki ákveðin þversögn í því? Þurfum við þá Hæstarétt? Ekki að undra þó maður spyrji. 

Höfundur er stjórnmálafræðingur og þarf að fara eftir landslögum hvort sem honum líkar betur eða verr.  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar