Auglýsing

Í áramótaávarpi sínu gerði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra misskiptingu gæða á Íslandi að umræðuefni. Þar sagði hún réttilega að vaxandi ójöfnuður í heiminum sé af hinum ýmsu alþjóðastofnunum metinn ógn við hagsæld, frið og lýðræði í heiminum.

Katrín sagði að mikilvægt væri að líta til þess að ójöfnuðurinn sé mestur á Íslandi í eignatekjum. „Þess vegna er hækkun fjármagnstekjuskatts sem samþykkt var nú fyrir áramót leið til að gera skattbyrðina réttlátari og auka jöfnuð. Þá skiptir máli að taka á skattsvikum og skattaundanskotum og tryggja þannig að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins. Endurskoða þarf samspil bóta- og skattkerfa og tryggja að barnabætur og húsnæðisstuðningur nýtist til að jafna kjörin,“ sagði Katrín.

Þetta er dálítið annar tónn en síðasti forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, sló í stefnuræðu sinni 13. september síðastliðinn, tveimur dögum áður en að ríkisstjórn hans sprakk. Þar sagði Bjarni: „Klisjan um vax­andi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræð­unni. Stað­reyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launa­jöfnuð en Ísland sam­kvæmt árlegri úttekt OECD á jöfn­uði meðal þjóða. En því er engu að síður haldið fram að launa­ó­jöfn­uður sé sjálf­stætt vanda­mál og vax­andi. Sá mál­flutn­ingur stenst enga skoðun.“

Auglýsing

Hvor er að segja satt?

Nú sitja þessir tveir forsætisráðherrar saman í ríkisstjórn. Sá sem talar um að vaxandi ójöfnuður sé ógn við hagsæld, frið og lýðræði og sá sem segir að vaxandi ójöfnuður sé bara klisja sem standist enga skoðun. Það er því skiljanlegt að fólk klóri sér í hausnum yfir því hvort það sé ójöfnuður á Íslandi eða ekki.

Það er líka þannig að hvorki Katrín né Bjarni eru að segja ósatt. Það er hægt að vísa í tölur til að styðja við báðar framsetningar þeirra, þótt þær virðist fljótt á litið ósamrýmanlegar. En það er hægt að rökstyðja ansi margt með því að horfa einungis á afmarkaðan hluta heildarmyndarinnar, í stað þess að taka hana alla með í reikninginn.

Tölur sem Hagstofa Íslands birti nýverið sýna að Ísland hafi verið með fjórða minnsta ójöfnuð í Evrópu þegar horft var á ráðstöfunartekjur árið 2015. Bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2016 sýni að dreifingin hafi lítið breyst frá árinu áður. Þær sýni þó að í evrópskum samanburði sé Ísland með minnstan ójöfnuð á árinu 2016 samkvæmt hinum svokallaða Gini-stuðli. Samkvæmt þessum tölum er málflutningur Bjarna ekki fjarri lagi.

Eitt prósent þénaði 55 milljarða

Vandamálið við þessar tölur er að þær taka ekki nema að hluta til tillit til fjármagnstekna. Þ.e. fólkið sem hefur aðallega tekjur af fjármagni og eignum sem það á er ekki nema að litlu leyti hluti af því mengi sem tölurnar skoða. Þannig telst t.d. hagnaður af sölu hlutabréfa og verðbréfa ekki til ráðstöfunartekna í rannsókn Hagstofunnar.

Til við­bótar má bæta að margir í hópi landsmanna sem eiga mesta eignir, geyma eignir sín­ar, þar með talið inni­stæður og skulda­bréf, í eign­ar­halds­fé­lögum með litlu útgefnu hluta­fé. Þetta er breyta sem bæði skatt­yf­ir­völd og Hag­stofan eru með­vituð um, enda 35 þús­und einka­hluta­fé­lög skráð í land­inu. Efn­aður ein­stak­lingur gæti þar af leið­andi geymt allskyns eignir inni í einka­hluta­fé­lagi sem væri mögu­lega hund­ruð millj­óna, eða jafn­vel millj­arða króna virði, en á skatt­fram­tali er eign við­kom­andi ein­ungis skráð sem 500 þús­und króna hlutafé sem greitt var inn í eign­ar­halds­fé­lagið við stofn­un.

Alls þénuðu Íslendingar 117 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2016. Það er umtalsvert meira en árið áður, þegar heildarfjármagnstekjur Íslendinga voru 95,3 milljarðar króna.

Tekjurnar dreifðust ekki jafnt á milli hópa. Þvert á móti. Tekjuhæsta eitt prósent landsmanna tók til sín 55 milljarða króna af þeim tekjum sem urðu til vegna fjármagns á því ári, eða 47 prósent þeirra. Það er bæði hærri krónutala og hærra hlutfall en þessi hópur, sem samanstendur af 1.966 framteljendum (1.331 einhleypum og 635 samsköttuðum), hafði í fjármagnstekjur á árinu 2015.

Þessi staða þýðir því að hin 99 prósent íslenskra skattgreiðenda skipti á milli sín 53 prósent fjármagnstekna sem urðu til á árinu 2016.

Segja ójöfnuð hafa aukist á síðustu árum

Í nýútkominni bók, Ójöfnuður á Íslandi, eftir Stefán Ólafsson og Arnald Sölva Kristjánsson, kemur fram að tekjuskipting á Íslandi hafi breyst mikið eftir 1995. Frá árinu 1997 hafi hlutur fjármagnstekja aukist mikið en tekjur af atvinnurekstri minnkuðu samhliða þeim vexti. Sú breyta sem orsakaði helst aukningu á ójöfnuði á árunum 1994 til 2007 var söluhagnaður verðbréfa, sem líkt og áður sagði reiknast ekki til ráðstöfunartekna útreikningum Hagstofunnar á Gini-stuðlinum. Með öðrum orðum jókst ójöfnuður vegna þess að tekjur fyrir skatt urðu ójafnari, einkum vegna mikils vaxtar fjármagnstekna hátekjufólks.

Rannsókn Stefáns og Arnaldar sýndi að skattbyrði hafi verið færð frá hátekjuhópum yfir á mið- og lægri tekjuhópa frá árinu 1995 til ársins 2008. Þróuninni var snúið við að hluta eftir hrun en hefur sveigst nokkuð í fyrri átt að ný frá 2013.

Afleiðingin er sú að tekjuskattbyrði almennings, þ.e. lægri- og millitekjuhópa, hefur aukist óvenjulega mikið á Íslandi í samanburði við OECD-ríkin. Stefán og Arnaldur rekja auknu skattbyrðina að mestu til rýrnun persónuafsláttar og breyttrar samsetningar tekna. Þ.e. að fjármagnstekjur, sem hafa aukist verulega, bera minni skatt en aðrar tekjur.

Samandregið þá komast Stefán og Arnaldur að þeirri niðurstöðu að vöxtur fjármagnstekna skýri um tvo þriðju af breytingum ójafnaðar á Íslandi á undanförnum áratugum. Á sama tíma hafi skattbyrði almennt aukist hjá lág- og millitekjuhópum. Þá skýra skattar um 20-30 prósent af þróun ójafnaðar síðustu áratugi.

Snýst um krónur, ekki hlutfall

Gæðum er misskipt á Íslandi. Það er staðreynd. Í úttektum sem Kjarninn hefur gert á undanförnum árum á þessu hefur verið horft á eignaskiptingu eða skiptingu á eigin fé til að sýna þessa mynd. Á árinu 2016 hækkaði eigið fé Íslendinga til að mynda um 394 milljarða króna samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birtir. Af þeirri upphæð fór rétt tæpur helmingur til tíu prósent ríkustu Íslendinganna. Hin 90 prósentin skiptu með sér rúmum helming. Þannig hefur þetta verið árum saman. Og opinberar tölur sýna að ríkasta eitt prósent landsmanna á um fimmtung af allri hreinni eign þjóðarinnar.

Sú eign er reyndar verulega vanmetin. Hlutabréf eru t.d. metin á nafnvirði í þessum tölum. Og efsta lagið á nánast öll hlutabréf sem eru í eigu einstaklinga hérlendis. Eignamestu tíu prósentin eiga 86 prósent slíkra og á árinu 2016 greiddu tvö pró­sent fjöl­skyldna lands­ins fjár­magnstekju­skatt vegna sölu­hagn­aðar á hluta­bréf­um. Sölu­hagn­að­ur­inn var 28,7 millj­arðar króna og hækk­aði um 38,3 pró­sent milli ára.

Inn í þetta vantar eignir sem geymdar hafa verið í skattaskjólum og hafa ekki verið rétt framtaldar hérlendis.

Því lengur sem ástandið fær að viðgangast því meiri verður ójöfnuðurinn. Það segir sjálft. Og er ekki teygjanleg breyta.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Baldur Thorlacius
Áfram gakk og ekkert rugl
Kjarninn 22. júní 2021
Sema Erla telur að dómsmálaráðherra og staðgengill Útlendingastofnunar ættu að segja starfi sínu lausu.
„Ómannúðlegar, kaldrifjaðar og forkastanlegar“ aðgerðir ÚTL
Formaður Solaris segir að aðgerðir Útlendingastofnunar séu okkur sem samfélagi til háborinnar skammar – að æðstu stjórnendur útlendingamála gerist sekir um ólöglegar aðgerðir gegn fólki á flótta.
Kjarninn 22. júní 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt samstarfsaðilum frá Namibíu er þeir komu í heimsókn til Íslands.
Samherji „hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur“
Starfshættir Samherja í Namibíu, sem voru að frumkvæði og undir stjórn Jóhannesar Stefánssonar, voru látnir viðgangast allt of lengi og hefði átt að stöðva fyrr. Þetta kemur fram í „yfirlýsingu og afsökun“ frá Samherja.
Kjarninn 22. júní 2021
Afsökunarbeiðnin sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. Undir hana skrifar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Samherji biðst afsökunar á starfseminni í Namibíu: „Við gerðum mistök“
Forstjóri Samherja skrifar undir afsökunarbeiðni sem birtist í á heilsíðu í tveimur dagblöðum í dag. Þar segir að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hafi fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.
Kjarninn 22. júní 2021
Neyðarástandi vegna faraldurs kórónuveiru var aflétt í Tókýó í gær.
Allt að tíu þúsund áhorfendur á hverjum keppnisstað Ólympíuleikanna
Ákvörðun hefur verið tekin um að leyfa áhorfendum að horfa á keppnisgreinar Ólympíuleikanna á keppnisstað en Japönum einum mun verða hleypt á áhorfendapallana. Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast þann 23. júlí.
Kjarninn 21. júní 2021
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Aðförin að lýðræðinu
Kjarninn 21. júní 2021
Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.
Segir dálkahöfundinn Tý í Viðskiptablaðinu hafa haft sig á heilanum í meira en áratug
Guðrún Johnsen hagfræðingur segir allt sem hún hafi sagt í viðtali við RÚV um sölu á Íslandsbanka í byrjun árs hafa gengið eftir. Afslátturinn sem hafi verið gefinn á raunvirði bankans sé 20-50 prósent.
Kjarninn 21. júní 2021
Tæpum helmingi íslenskra blaðamanna verið ógnað eða hótað á síðustu fimm árum
Samkvæmt frumniðurstöðum úr nýrri rannsókn um þær ógnir sem steðja að blaðamönnum kemur fram að helmingur blaðamanna hafi ekki orðið fyrir hótunum á síðustu fimm árum. Töluvert um að siðferði blaðamanna sé dregið í efa.
Kjarninn 21. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari