Á dögunum sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, eftirfarandi, í umræðu um veiðigjöld: „Við megum ekki gleyma því í umræðunni um gjaldtöku af sjávarútveginum, við Íslendingar, að við erum ein örfárra þjóða í veröldinni sem höfum þá stöðu að láta þessa grein greiða til ríkiskassans í stað þess að hún sé niðurgreidd eins og víðast hvar annars staðar.“
Þessi fullyrðing er einkennileg, sérstaklega frá ráðherra úr flokki sem hefur löngum kennt sig við hægri stefnu og frjálsan markað. Nemendur í Hagfræði 101 gætu kennt Kristjáni að það að afhenda eitthvað undir markaðsverði jafngildir gjöf eða stuðningi, það að afhenda fyrirtækjum kvótann undir markaðsverði er ríkisstyrkur til fyrirtækja, sem mörg hver hafa skilað tugmilljörðum í arðgreiðslur til eigenda sinna undanfarna áratugi.
Þessi viðmiðun er víða notuð. Þannig er t.d. hægt að rifta gjörningum fyrirtækja eða einstaklinga sem hafa orðið gjaldþrota, ef talið er að þeir hafi afhent verðmæti fyrir minna en markaðsvirði þeirra á þeim tíma sem þau eru afhent. Þá túlka skattayfirvöld slíka gjörninga sem gjafir eða styrki og skal viðtakandi þeirra borga skatt í samræmi við það.
Veiðigjald á þorski hækkaði á síðasta ári úr rúmum 11 krónum í tæpar 23 krónur, sem er umtalsverð hækkun, en kannski ekki mikil í því samhengi að fyrirtækin geta síðan leigt hann á markaði fyrir 200 krónur kílóið. Og til að bíta hausinn af skömminni borgar leigutakinn veiðigjaldið að auki. Í ráðherratíð sinni festi Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, veiðigjald á makríl í tæpum 13 krónum fram til 2021, um svipað leyti og Færeyingar voru að fá 60-65 kr. fyrir kílóið á uppboði, sem rann í ríkissjóð þeirra.
Það vill svo til að Kristján Þór Júlíusson starfaði lengi hjá einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins. Hann hefur svarað því til að það geri hann ekki vanhæfan til embættisins. Ég veit ekki hvort áðurnefnd fullyrðing er sprottin af þjónkun við sérhagsmuni útgerðarinnar eða vanþekkingu – hvort sem er ætti að vera nóg til að hann teldist vanhæfur.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti íslensku, pírati og stundar meistaranám í heimspeki.