Í haust kom út merkisritið Fjallið sem yppti öxlum eftir Gísla Pálsson. Gísli er kunnur af því að rita afar læsilegan texta og leggja efni þannig fyrir lesendur að það veki áhuga, hrifningu og löngun til að fræðast meira.
Í bók þessari setur Gísli Heimaeyjargosið í samhengi við jörðina og sitthvað sem þar hefur gerst. Einnig rifjar hann upp minningar úr æsku sinni í Eyjum og setur þær í samhengi við nútíð og fortíð um leið og hann ræðir áskoranir þær sem bíða okkar allra á næstu grösum.
Gísli hefur aflað sér heimilda um hvað eina sem gosið snertir og margt birtist nú á prenti sem fáir höfðu hugmynd um. Þótt Gísli hafi verið í Bretlandi á meðan á gosinu stóð hefur honum tekist að skapa betri heildarmynd af rás atburðanna en ég hef áður séð enda þrautþjálfaður fræðimaður og glöggskyggn.
Þegar menn lesa bókina fer ekki hjá því að menn máti sjálfa sig við efni hennar. Mér þótti vænt um að hann skyldi greina frá jarðfræðiathugunum míns gamla vinar, Jóns Ó. E. Jónssonar, sem var gamall nágranni minn, eðlisgreindur maður og námfús eins og Gísli minnist á. Eitt er víst, að þegar ég hafði lokið við að nota sumar námsbækur í menntaskóla tók Jón við þeim og síðan voru háðar miklar umræður um það sem honum þótti markverðast. Þar á meðal var jarðfræði og saga landmótunar á Íslandi.
Hlutverk Eyjapistils
Gísli Pálsson getur einnig lauslega um hlut fjölmiðla í allri atburðarásinni og minnist þar m.a. á Eyjapistil sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins frá 7. febrúar 1973 til 25. mars árið eftir. Greinir hann frá því að við tvíburabræður hefðum verið umsjónarmenn þáttarins auk Stefáns Jónssonar, þáverandi dagskrárfulltrúa og Hrafns Baldurssonar, tæknimanns.
Þarna hefur Gísli ekki kannað heimildir. Hrafn kom ekki meira nærri þáttunum en aðrir tæknimenn Ríkisútvarpsins, en annaðist öðru hverju samsetningu þeirra. Af því spratt einlæg vinátta sem stendur enn.
Þáttaskil í fjölmiðlum
Þá þótti mér nokkuð á skorta að Gísli gerði grein fyrir þeim þáttaskilum sem urðu í raun í sögu Ríkisútvarpsins þegar þessum þáttum var hrundið úr vör. Þetta var í raun í fyrsta sinn sem Ríkisútvarpið hóf þjónustu við landsmenn með markvissri upplýsingagjöf og tengdi um leið saman ákveðinn hóp.
Fortíðarhyggjan
Rúmum tveimur áratugum eftir að Eyjapistlarnir hurfu af dagskrá Ríkisútvarpsins settist ég aftur á skólabekk í Háskóla Íslands og lagði stund á svo kallaða hagnýta fjölmiðlun. Mér til mikillar furðu kom í ljós að tveir fyrirlesarar, þeir Þorbjörn Broddason og Hilmar Thor Bjarnason, fjölluðu dálítið um þættina og hlutverk þeirra. Töldu þeir að um tímamót hefði verið að ræða og nefndu ýmislegt sem dæmi. Greindi annar þeirra m.a. frá því að komið hefði í ljós við hlustendakönnun að þættirnir nutu mikilla vinsælda á meðal landsmanna.
Það væri full ástæða til þess að einhver fræðilega þenkjandi sál tæki saman efni um hlutverk þáttanna og Ríkisútvarpsins á þessum vettvangi. Þá þyrfti að hafa uppi á hlustendum og athuga um leið hvernig umsjónarmenn brugðust við ýmsum atburðum.
Bugaðir hlustendur og góðviljaðir landsmenn
Því er ekki að leyna að mjög var leitað til okkar vegna ýmissa mála. Við gáfum jafnan upp heimasíma okkar til þess að gera fólki auðveldara að koma alls konar tilkynningum á framfæri.
Ýmis samtöl bárust umsjónarmönnum og voru flest þeirra sprottin af velvild til Eyjamanna. Má sem dæmi nefna að kona nokkur stakk upp á að séra Karl Sigurbjörnsson yrði beðinn að segja af sér enda gæti það ráðið úrslitum um gosið (þjóðsaga í tveimur útgáfum þess efnis að næði byggðin upp að Helgafelli og inn fyrir Hástein eyddust eyjarnar öðru sinni).
Fyrir kom að örvæntingarfullt fólk úr Vestmannaeyjum hringdi í sjálfsvígshugleiðingum og fór þá iðulega nokkur tími í að ræða við einstaklinginn og reyna um leið að beina honum á aðrar slóðir.
Þegar tímamótaatburðir urðu svo sem gerð varnargarða og húsbrunar fór iðulega allt á annan endann. Gísli hafði ekki við að svara og ég, sem vann að nokkru leyti heima við efnissöfnun svaraði einnig.
Að lokum skal þess getið til gamans að við hættum að gefa upp símanúmerið um miðjan maí 1973 enda var þá orðið rórra yfir fólki en á meðan atgangurinn var sem mestur.
Síðasta samtalið kom kl. hálf fimm að morgni laugardags í maí. Það var drukkin húsmóðir á Neskaupstað, eins og hún kynnti sig, sem bað mig að koma því til skila að sjónvarpið sæist ekki, en hún næði ekki í neinn hjá Ríkissjónvarpinu. Ég taldi það engin undur þegar mið væri tekið af þessum tíma sólarhringsins.
Blessuð konan, sem þá kynnti sig sem fertuga húsmóður, varð klumsa og baðst afsökunar. Hún hafði haldið afmælisveislu af manninum sínum fjarstöddum og síðustu gestirnir væru nýfarnir. Sagðist hún dást mjög að þrautseigju Vestmanneyinga og þætti henni vænna um þá en aðra landsmenn. Kvöddumst við síðan með virktum og fékk hún kveðju í Eyjapistli þá um daginn með þakklæti fyrir hlýhug í garð Vestmanneyinga.