Pólitísk umræða í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna er að súrna afar hratt þar sem staðreyndir virðast ekki skipta neinu máli lengur. Lesi maður greinar frambjóðenda og borgarfulltrúa er reynt að koma orðinu lóðaskortstefna inn í tungumálið. Sú stefna hefur aldrei verið rekin á þessu kjörtímabili af meirihlutanum í Reykjavík. Til marks um það úthlutaði borgin á síðasta ári lóðum undir 1691 íbúð en það er álíka mikill fjöldi og allar þær íbúðir sem finna má á Seltjarnarnesi í dag.
Yfir 900 íbúðir í byggingu árlega
Eftir litla sem enga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á árunum eftir hrun þegar ekki síst fjárfestar og verktakar héldu að sér höndum skapaðist þröng staða á húsnæðismarkaði. Staðan þrengdist ennfrekar samhliða stórauknum áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi. Þessum veruleika hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu mætt með ólíkum hætti.
Hrunárið 2008 fóru 348 íbúðir í byggingu í Reykjavík samanborið við 667 árið undan. Árið 2010 voru íbúðirnar 10 talsins sem farið var af stað með í byggingu. Árið 2016, þegar yfirstandandi kjörtímabil var hálfnað, var annað árið röð hafin bygging á meira en 900 íbúðum í Reykjavík. Áætlanir fyrir síðasta ár gerðu ráð fyrir enn frekari uppbygginu og það sama á við um næstu ár.
Fyrir fjölskyldur með lægri- og millitekjur
Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði á vegum húsnæðisfélaga á mælikvarða sem við höfum ekki séð síðan Breiðholtið var í byggingu. Alls eru um 3700 staðfest áform um íbúðir fyrir stúdenta, eldri borgara, fjölskyldur með lægri og millitekjur. Á nýjum þróunarsvæðum í Reykjavík á borð við Vogabyggð hefur verið samið um að hlutfall leigu- og búseturéttaríbúða á hverju uppbyggingarsvæði verði 20-25%. Jafnframt hefur verið samið um að Félagsbústaðir hafi kauprétt að um 5% af öllum nýjum íbúðum.
Þegar rýnt er í þær tæplega 1700 lóðaúthlutanir sem fram fóru árið 2017 má sjá að hátt í 1000 lóðaúthlutananna voru til félaga á borð við Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag námsmanna, Samtök aldraðra, Félagsbústaði, Sjómannadagsráð, Brynju hússsjóð ÖBÍ og Bjarg húsnæðissjálfseignafélag ASÍ og BSRB. Að auki er lóðaúthlutun til Háskólans í Reykjavík vegna hátt í 400 íbúða við Nauthólsveg.
Ef við skoðum sérstaklega húsnæðisfélag ASÍ og BSRB er ljóst að uppbyggingin á vegum félagsins verður fyrirferðamikil á næstunni. Á síðasta ári var Bjarg úthlutað lóðum fyrir 63 íbúðir á Hallgerðargötu nýrri götu við Kirkjusand, 156 íbúðir við Móaveg í Grafarvogi og 76 íbúðir við Urðarbrunn í Úlfarsárdal. Á upphafsmánuðum þessa árs áætlar félagið að hefja framkvæmdir vegna 392 íbúða í Grafarvogi, í Úlfarsárdal, á Kirkjusandi og í Vogabyggð.
Tölum um staðreyndir
Kosningabaráttan má ekki snúast um að tala niður Reykjavík og uppbygginguna og villa þannig um fyrir borgarbúum. Umræðan verður að snúast um raunveruleikan og framtíðina. Úrlausnarefnin eru mörg og úr þeim þarf að leysa en umræðan þarf að byggja á staðreyndum svo hún skili einhverju öðru en upphrópunum.
Húsnæðisuppbyggingin i Reykjavík er róttæk og félagsleg. Á meðan skila nágrannasveitarfélögin flest hver auðu þegar kemur að fjölgun íbúða. Sérstaklega á minni- og meðalstórum íbúðum. Þá er uppbygging félagslegs og almenns leiguhúsnæðis nær öll í Reykjavík. Í dag eru hátt í 2000 félagslegar íbúðir í Reykjavík eða 16 íbúðir á hverja þúsund íbúa en tvær íbúðir á hverja þúsund íbúa á Seltjarnarnesi. Hlutfallið er það sama í Garðabæ.
Á sama tíma og gríðarleg húsnæðisuppbygging stendur yfir í Reykjavík, meðal annars í samstarfi við leigufélög rekin án hagnaðarsjónarmiða, er lítið sem ekkert í gangi í nágrannasveitarfélögunum. Samt er fókusinn oftast nær eingöngu á Reykjavík. Það er eins og fólk átti sig ekki á því að í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu búa rúmlega 90 þúsund manns samanborið við 122 þúsund borgarbúa. Eftir hverju er verið að bíða?
Formaður borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar.