Albert Einstein skilgreindi hugtakið heimsku á þessa leið : Að gera það sama aftur og aftur, en reikna með annarri niðurstöðu.
Í stóra samhenginu er fróðlegt að heimfæra alhæfingu Einsteins yfir á Íslenska húsnæðispólítík. Því hún er í öllum aðalatriðum óbreytt frá því fyrir hrun, og í raun enn lengra aftur í tímann.
Á íslandi er rekin brauðmolastefna í launamálum, en brask og skortstefna í húsnæðismálum. Verðmyndun fasteigna er frjáls upp á við, en handbremsuð niðurávið. Eftir hrun hefur ýkt Íslensk séreignarstefna frekar færst í aukana, en hitt. Öfgafyllstu dæmin um þetta er skuldaleiðréttingin mikla. Og brunaútsala húsnæðis í ríkiseigu til einkarekinna leigufélaga. Þetta eru langstærstu aðgerðir í húsnæðismálum síðustu misserin. Viðskipamódel þessa félaga byggist á síhækkandi fasteignaverði.
Nýleg könnun sýndi að Íslensk húsnæðispólítík hefur skilað heimsmeti í hækkun á húsnæðisverði. Lífeyrissjóðir landsmanna eiga sinn þátt í þessu vafasama meti. Þeir hella olíu á hækkunareldinn með fjármögnun braskfélaga sem byggja tilveru sína á endalausri hækkun eignaverðs. Sömu sjóðir (almenningur) sitja svo uppi með eignasöfnin þegar Rússíbani eignaverðs tekur hefðbundna dýfu niðurávið.
Á höfuðborgarsvæðinu birtist brauðmolastefna stjórnvalda í nýbyggðum hverfum. Þar byggja verktakar fyrir efnafólk, og þá sem eiga eign fyrir upp í kaupin. Fjölbýli er gleypt af heildsölum eða leiguhákörlum lífeyrissjóðanna. Brauðmylsnan er svo leiguíbúðir á vegum ASÍ. Þessar íbúðir eru ætlaðar tekjulágum. Fjöldi þeirra fer eftir stofnframlögum frá stjórnvöldum. Í núverandi ástandi munu þessar íbúðir einungis leysa lítinn hluta vandans, tíund eða svo á löngum tíma.
Höfuðborgarsvæði landsins er löngu orðið að landfræðilegri heild. Samt er hvert sveitarfélag á svæðinu með sína eigin hugmyndafræði í húsnæðismálum. Sem snýst að mestu um séreignarstefnuna. Sömu sveitarfélög eru samtvinnuð í orku og almenningssamgöngum, en ekki í húsnæðismálum.
Borgaryfirvöld í Reykjavík halda gjarnan á lofti að á höfuðborgarsvæðinu sé Reykjavík með bestu stefnuna þegar kemur að félagslegu húsnæði. Hvort sem borinn er saman fjöldi, eða hlutfall félagslegs húsnæðis. Það er eflaust alveg rétt.
Í Reykjavík eru nú um 2000 félagslegar íbúðir, sem eðli málsins samkvæmt er hæsta talan miðað við nágrannasveitarfélögin. Ef Reykjavík er hins vegar borin saman við svipaðar borgir í Svíþjóð eða Danmörku, væru líklega um 10,000 leiguíbúðir í Reykjavík reknar undir hatti borgarinnar. Og leigðar út til almennings án hagnaðarkröfu. Þessi félög mynda kjölfestu og ráða leiguverði á svæðinu í krafti stærðarinnar. Á Íslandi er þessi formúla á hvolfi. Þar ráða orðið Hákarlafélög verðlagningu á leigumarkaði. Með þegjandi samþykkt yfirvalda.
Ef höfuðborgarsvæðið er skoðað þannig í heild sinni, þarf líklega að fara aftur að iðnbyltingu til að finna viðlíka ástand í húsnæðismálum hjá siðmenntaðri þjóð. Á svæðinu samsvarar nú búseta í iðnaðarhverfum íbúafjölda á borð við þann sem býr í Vestmannaeyjum eða á Seltjarnarnesi. Ekkert í kerfinu gerir heldur ráð fyrir síaukinni húsnæðisþörf erlends verkafólks í mannfrekustu atvinnugrein landsins.
Fyrir kosningar mátti sjá gamalkunnug slagorð í húsnæðismálum : Aukalán til íbúðarkaupa fyrir ungt fólk. Á skortmarkaði hverfur þannig ráðstöfun beint í hækkun á eignaverði.
Áfram má halda upptalningu um hvernig Íslendingar gera allt eins í húsnæðismálum ár eftir ár. Og fá ýktari niðurstöður (hækkanir á heimsvísu) ár eftir ár. Er ekki bara heimska að búast við Annari niðurstöðu?