Síðustu ár hefur Velferðarráð Reykjavíkurborgar lagt sérstaka áherslu á börn og ungmenni. Áhersla hefur verið á heilsueflingu og forvarnir annars vegar og hins vegar að einfalda og styrkja þjónustu við börnin í borginni og fjölskyldur þeirra á allan hátt. Við höfum farið yfir þjónustuna útfrá börnum og fjölskyldum og greint tækifæri til að gera betur.
Skólaþjónusta
Á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar er rekin skólaþjónusta sem styður við skólastarf og þau börn sem eiga í erfiðleikum í skóla umfram það sem starfsfólk skóla hefur tök á að mæta. Það er mikilvægt að slíkur stuðningur sé veittur á þverfaglega og í þéttri samvinnu með velferðarþjónustu í hverju hverfi því hver fjölskylda þarf nálgun sem passar akkúrat henni. Síðustu ár hefur farið fram markvisst þróunarstarf í skólaþjónusut og nú unnið samkvæmt hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun svo kölluðu Reykjavíkurlíkani sem þróað var af skólaþjónustunni í Breiðholti.
Líkanið gengur út á að veita stuðning sem fyrst í umhverfi barnsins og til foreldra eftir þörfum og meta árangur af því áður en farið er í flókið greiningaferli eða frekari sértæka þjónustu. Skólaþjónusta þjónustumiðstöðva og kennsluráðgjafar eru í lykilhlutverki í því að styðja við börn í grunnskóla, meta hvaða stuðning þarf og tengja börn og fjölskyldur þeirra við þá þjónustu sem þau þurfa. Það er mikilvægt að þeir sem vinna að þessum málum geri það faglega milli sviða og stofnana þannig að hagur barnsins sé alltaf í öndvegi. Skóla og frístundasvið og Velferðarsvið hafa nú hafið formlegt samstarfsverkefni til að tryggja að innleiðing þessa verklags gangi sem best og að færa þjónustuna sem næst börnunum inn í í leik-, grunnskóla og frístund.
Heildarsýn á þjónustu við fjölskyldur
Ég er þess fullviss eftir að hafa kynnst starfsemi þjónustumiðstöðvanna betur síðustu ár að það er mikilvægt að hafa þjónustuna sem næst þeim sem hana þurfa. Það að þverfaglegt teymi í nærumhverfi setjist niður og finni lausnir eða úrræði er að ég tel líklegast a leiðin til þess að við séum að veita viðeigandi þjónustu.
Ég mundi vilja sjá meiri þjónustu færast út í hverfin og sjá okkur efla þjónustumiðstöðvarnar sem þann hverfisvin sem þær þurfa að vera til að fólk treysti þeim og leiti þangað eftir þeirri aðstoða sem það þarf.
Það að í þjónustumiðstöðinni sé samræmingaraðili getur verið mjög mikilvægt til að árangur náist og við höfum tækifæri til að efla þjónustu við fjölskyldur og við eigum að gera það. Í rannsóknum á fátækt hefur komið fram mikilvægi þess að í þjónustu við barnafjölskyldur sé einhver aðili sem er með heildarsýn á þjónustu við fjölskylduna. Það er oft þannig að hegðun barns eða líðan skýrist af aðstæðum eða atburðum í fjölskyldu sem unnt er að vinna með sé yfirsýn yfir þjónustuna til staðar. Stundum er svarið við vanda barns að foreldri fái stuðning eða að heimilisaðstæður eru þannig að stuðningur þarf að koma til.
Stöðug þróun þjónustu
Með þverfaglegri nálgun Skólaþjónustunnar á Velferðarsviði hafa orðið til fjöldi úrræða eins og ráðgjafinn heim, morgunhani, liðveisla í samvinnu við félagsmiðstöðvar og sértæk námskeið eins og PMT, kvíðanámskeið, HAM, klókir krakkar, námskeið HAM v. tilfinninga „mér líður eins og ég hugsa, viðbragðsteymi til að bæta þjónustu við börn með fjölþættan vanda og marg fleira. Tilraunaverkefnið Tinna var þróað í Breiðholti í samstarfi við Velferðarráðuneytið. Það gengur út á að vinna með fjölskyldur sem hafa glímt við félagslegan vanda og fátækt til lengri tíma á heildrænan hátt og beinist þannig að foreldrum sem og börnum.
Foreldrafærninámskeiðin og eftirfylgnin sem kallast „PMTO“ hafa fest sig í sessi og unnið er að því að styrkja þau þannig að hægt sé að bjóða fleiri foreldrum þessa mikilvægu þjónustu, en um er að ræða hjálp til sjálfshjálpar og snemmtæka íhlutun hjá fjölskyldum sem eiga í vanda. Einnig er mikilvægt að nefna markvissa vinnu með börnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks. Veitt er sérhæfð þjónusta og unnið eftir samræmdu verklagi til að tryggja samfellda þjónustu við þennan viðkvæma hóp barna og fjölskyldur þeirra. Stundum getur það mikilvægasta fyrir barnið kannski verið að mamma og pabbi læri íslensku eða vinni utan heimilis.
Heilbrigt geð
Mikil þróun er í þjónustu við börn í borginn til að bæta aðstæður þeirra og jafna aðstöðu. En um leið sjáum við að Það er knýjandi þörf á meiri geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni, sem nú er vonandi verið að koma upp á heilsugæslustöðvum á vegum ríkisins. Við sjáum aukinn kvíða og þunglyndiseinkenni í könnunum ár eftir ár og við því þarf að bregðast með sameiginlegri samfélagslegri aðgerð.
Reykjavíkurborg skimaði öll börn í 9. bekk fyrir tilfinningavanda og var þeim sem þurftu og vildu boðið upp á stuðning og námskeið til að styrkja sitt geð og bæta líðan. Persónuvernd stöðvaði þá aðferð og hefur ekki skorið úr um hvort það sé heimilt. Það er að mínu mati afar mikilvægt að skima og leita alltaf leiða til að bregðast snemma við ef barn vill þjónustu eða stuðning og gera alltaf allt til að koma í veg fyrir frekari vanda. Reykjavikurborg hefur náð gríðalregum árangri í forvörnum, reykingar, neysla áfengis og annarra vímuefna hefur snarminnkað síðustu 20 ár meðan börn eyða meiri tíma með foreldrum og í skipulögðu fjölbreyttu frístundastarfi.
Við þurfum nú að taka höndum saman með svipuðum hætti og beina sjónum okkar að líðan barna og ungmenna og hvað við sem samfélag getum gert til að styrkja þeirra umhverfi og heilsu. Það er fylgni meðal þunglyndis og kvíða einkenna og samfélagsmiðlanotkunar, sofa of lítið og mikilvægt að við kortleggjum allt sem við getum gert til að bæta líðan unga fólksins. Fjölskyldur, foreldrasamtök, atvinnulíf, sveitarfélög, ríki og allir að sameinast um að tryggja öllum börnum og ungmennum öruggt og styðjandi umhverfi. Reykjavík er að leggja lokahönd á Lýðheilsustefnu og verið er að innleiða Heilsueflingarstarf í alla leik-, grunnskóla og frístund.
Barn sem þarf þjónustu á ekki að þurfa að vita hver veitir hana, hún þarf að koma fljótt og vera á forsendum barnsins en ekki kerfisins og það er okkar markmið.
Börnunum í borginni líður almennt vel og eru heilsuhraust en við viljum alltaf gera betur og vinna að því markmiði að öll börn fái raunverulega jöfn tækifæri í lífinu.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og varaformaður flokksins.