Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hyggst setja á stofn nefnd til að fara yfir stöðu landsins m.t.t „nýja“ hagkerfisins sem byggist á aukinni sjálfvirkni og breytingum á framleiðsluháttum því tengdu – mál sem að Píratar vöktu athygli á og sumir hafa reyndar haft í flimtingum í tengslum við umræðu um borgaralaun.
Eitt af því sem þarf þá að taka til athugunar, er hvort mælikvarðarnir sem notaðir verða í framtíðinni séu þeir sömu og við höfum notað hingað til, þ.e. framleiðni og þjóðarframleiðsla. Þetta er nauðsynleg umræða því að leita þarf viðmiðanna sem sett verða í forgrunn, þ.e. þau sem hjálpa okkur við að meta hvort okkur miðar í rétta átt eða ekki.
Viljum við áfram taka mið af hagkerfi, þar sem fjöldi starfa og aðgengi að aðföngum/vörum skipta mestu máli og hagvöxtur er eftirsóknarverður hjálpi hann til við að skapa störf? Eða er þörf á nýjum mælikvörðum til að ná yfir framþróun „sýndar“-hluta hagkerfisins?
Það er allavega ljóst að við sjáum illa breytingar hagrænna þátta sem eiga rætur utan hefðbundinna framleiðslu- og eða þjónustuferla, þó þeir skili neytendum þeirra talsverðum ávinningi. Til að bregða ljósi á þetta hefur verið vísað á framleiðniaukninguna sem átt hefur sér stað með tilkomu netpósts, sameiginlegra vinnusvæða á netinu, ókeypis framleiðniaukandi smáforrita o.s.frv. – þ.v.s. vegna mjög ódýrra eða ókeypis aðfanga. Þar er um að ræða verðmæta- og framleiðniaukandi þætti sem koma fram í einhverjum tilfellum sem lækkun á þjóðarframleiðslu, því hún mælir (gróft séð) einungis peningaleg verðmæti vöru- og eða þjónustusölu.
Til að auðvelda skilning á vandamálinu hefur verið gripið til ímyndaðs dæmis: Ímyndum okkur hagkerfi þar sem allt er útvegað með sjálfvirkni án aðkomu manneskjunnar og án endurgjalds – maturinn, morgunkaffið, fréttir, skemmtun og annað sem við þurfum á að halda – þ.e.a.s. allt frítt. Í slíku hagkerfi væru vörur framleiddar og þjónusta veitt, en án endurgjalds. Þá væri „framleiðslan“ ekki verðlögð, enginn störf væru til staðar og engin laun greidd. Þjóðarframleiðslan eins og við mælum hana í dag væri engin og þ.a.l. framlegðin engin líka. Engu að síður væru þjóðfélagsþegnarnir að njóta þessara gæða og verðmæti þeirra væru óumdeilanlega til staðar.
Þó að þetta ímyndaða dæmi sé ýkt miðað við það sem við sjáum í dag, er það engu að síður lýsandi fyrir það í hvaða átt við stefnum. Við þurfum því nýja mælikvarða til viðmiðunar til að átta okkur á hvaða verðmæti (aukin hagsæld) felst í þessum auknu umsvifum sem mælast ekki í hefðbundnum gildiseiningum hagtalna.
Höfundur er rekstrarhagfræðingur og vottaður stjórnunarráðgjafi.