Nýlega áttu sér stað í Noregi veigamiklar breytingar á þarlendu heilbrigðiskerfi þegar beint og óheft aðgengi að sjúkraþjálfun með fullri þátttöku sjúkratrygginga var sett á laggirnar. Það þýðir að Norðmenn bætast nú í hóp með Svíum, Bretum, Áströlum, Brasilíumönnum, Suður-Afríkumönnum og u.þ.b. 40 öðrum þjóðum sem geta nú leitað beint til sjúkraþjálfara, með fullri þátttöku þarlendra sjúkratrygginga, án þess að þurfa beiðni fyrir sjúkraþjálfun frá lækni. Hér á landi er forsenda þess að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiði sjúkraþjálfunarmeðferð sú að fyrir liggi beiðni um sjúkraþjálfun frá lækni.
Margsinnis hefur verið sýnt fram á að beint aðgengi að sjúkraþjálfun felur í sér mikinn sparnað fyrir samfélagið. Samantekt frá Heimssambandi sjúkraþjálfara, frá árinu 2013, sýndi að sparnaður af beinu aðgengi að sjúkraþjálfun er meðal annars fólginn í því að kostnaður vegna viðtala og/eða annarra rannsókna hjá öðrum heilbrigðisstéttum lækkar, ávísun lyfja minnkar og fólk kemst fyrr aftur til vinnu. Samantektin sýndi einnig að þeir skjólstæðingar sem nýta sér beint aðgengi að sjúkraþjálfun eru líklegri til að taka meiri ábyrgð á eigin heilsu, eru líklegri til þess að ljúka nauðsynlegri meðferð og eru ánægðari með veitta þjónustu.
Á forsíðu Morgunblaðsins 15. janúar síðastliðinn var vísað í viðtal við Reyni Arngrímsson formann Læknafélags Íslands undir fyrirsögninni „Ekki er hlustað á lækna”. Þar sagði Reynir meðal annars að heilbrigðismálum á Íslandi hafi jafnan fleygt hvað mest fram þegar ráðamenn í málaflokknum vinna náið með læknum, sem jafnan hafa mótað stefnuna í veigamiklum atriðum. Þessi setning endurspeglar stóran vanda sem heilbrigðiskerfið á Íslandi glímir við. Til þess að halda áfram uppbyggingu heilbrigðiskerfið á Íslandi þá er ekki nóg fyrir ráðamenn að vinna einungis náið með læknum. Heilbrigðiskerfið samanstendur ekki bara af læknum líkt og knattspyrnulið er ekki einungis samansett af varnarmönnum. Að mati undirritaðs liggur stór vandi kerfisins í því að ekki er verið að nýta nógu vel alla þá þekkingu og kunnáttu sem er til staðar hjá öðrum heilbrigðisstéttum. Ef við nýtum ekki almennilega allan þann mannafla sem starfar í heilbrigðiskerfinu og orkuna sem í honum býr, hvort sem umræðir sjúkraþjálfara eða aðrar stéttir, þá getur það eflaust reynst okkur þrautinni þyngra að halda áfram að bæta þetta nú þegar öfluga heilbrigðiskerfi sem við eigum hér á landi.
Dæmi um betri nýtingu mannaflans er sú breyting sem átti sér stað fyrir skömmu innan Landspítalans að sjúkraþjálfarar eru nú komnir inn í teymi starfsmanna á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Hlutverk þeirra þar er fyrst og fremst að sinna þeim sem koma inn á bráðamóttökuna með „einföld” bráða stoðkerfisvandamál en sjúkraþjálfarar eru sérfræðingar í skoðun og meðhöndlun stoðkerfisvandamála. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á kostnaðarhagkvæmni þess að hafa sjúkraþjálfara í teymi starfsmanna á bráðamóttöku þar sem ávinningurinn er meðal annars fólgin í því að biðtími minnkar, vinnuálag annarra stétta á bráðamóttökunni minnkar og innlögnum fækkar með tilheyrandi sparnaði. Aðkoma sjúkraþjálfara á Landspítalanum að bráðamóttökunni hefur einmitt skilað sér í því að tekist hefur að koma í veg fyrir innlagnir skjólstæðinga með „einföld” stoðkerfisvandamál með tilheyrandi sparnaði fyrir Landspítalann og samfélagið í heild sinni.
Í rekstri heilbrigðiskerfisins, þar sem hver króna skiptir máli, ætti það því að vera allra hagur að beint aðgengi að sjúkraþjálfun verði að raunveruleika á Íslandi og væri það rökrétt framhald í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Tölurnar tala sínu máli og reynsla erlendis frá hefur sýnt að ávinningur beins aðgengis að sjúkraþjálfun er umtalsverður bæði í krónum talið og í bættum lífsgæðum fólks. Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigðiskerfið að öll sú þekking sem býr innan þess sé nýtt, burt séð frá því hvaða hún kemur, því í krafti fjöldans leynist styrkurinn.
Höfundur er sjúkraþjálfari á Gáska og einingastjóri á göngudeild sjúkraþjálfunar á Landspítalanum.