Ofangreint er hin nöturlega staðreynd sem blasir við íbúum höfuðborgarinnar eftir að tilkynning barst þann 15. Janúar síðastliðinn frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur þess efnis að jarðvegsgerlar hefðu mælst í drykkjarvatni borgarbúa. Íbúum var ráðlagt að sjóða drykkjarvatn og eðlilega setti þessi tilkynning bæði íbúa og starfsemi fjölmargra stofnana og fyrirtækja í uppnám. Misvísandi upplýsingar um orsakir og alvarleika málsins sem og feluleikur borgarstjóra bættu svo gráu ofan á svart.
Staðreyndin er sú að það er pólitísk ákvörðun borgarstjóra að grípa ekki til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að hreint vatn renni í krana borgarbúa. það hefur legið fyrir í mörg ár að hætta er á að yfirborðsvatn berst í annað af megin vatnsbólum höfuðborgarinnar sem eru Gvenndarbrunnar og þá aðallega á ákveðnum árstíma. Og með yfirborðsvatni koma jarðvegsgerlar eins og borgarbúar komust að í liðinni viku. Spurningar vakna óneitanlega um almenna hagsmuni borgarbúa þegar kemur að upplýsingagjöf um gæði drykkjarvatns borgarbúa almennt.
Hreint drykkjarvatn eru lífsgæði sem ekki má ógna
Í seinni kvöldfréttum RÚV sama dag var rætt við fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Árnýju Sigurðardóttur um mögulegar leiðir til úrbóta og hún nefndi að Veitur hafi til skoðunar hvort þörf sé á að hreinsa vatn með geislun til að tryggja hreinleika þess. Hvenær munu íbúar Reykjavíkur fá upplýsingar um með hvaða hætti verður tryggt að ekki þurfi að grípa aftur til tilkynninga um að drykkjarvatn sé ekki öruggt til neyslu eins og gert var 15. Janúar síðastliðinn? Hreinsun á vatni úr Gvenndarbrunnum er ekki flókið ferli og hefur engin áhrif á gæði vatnsins. Geislun er þekkt aðferð sem notuð er annar staðar hérlendis þar sem þörf krefur.
Vatn er sameiginleg auðlind okkar allra
Nýtt svæðisskipulag vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu tók gildi árið 2015 með samþykkt á nýju svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið 2015-2040.
Skipulagið samanstendur af afmörkun verndarsvæða og samþykkt nr. 636/1997 um verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu en ýmsar breytingar hafa orðið á lagaumhverfi og þróun landnýtingar í nágrenni verndarsvæða sem gefa tilefni til endurskoðunar. Eitt af meginmarkmiðum svæðisskipulagsins sbr. bls 60 er:
„Hreint loft, ómengað drykkjarvatn, nálægð við útivistarsvæði og
náttúrulegt umhverfi eru undirstaða þeirra lífsgæða sem felast
í að búa á höfuðborgarsvæðinu og marka sérstöðu svæðisins
umfram önnur borgarsvæði. Mikilvægt er að vernda óskert
náttúrusvæði og tryggja að aukin ásókn skerði ekki verndargildi“
Svæðisskipulag vatnsverndar ásamt samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla eru þannig hluti af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins en áður var unnið útfrá sérstöku svæðisskipulagi vatnsverndar. Það er því enn mikilvægara en áður að virkja samráð milli hagsmunaaðila um umgengni og nýtingu á þessari mikilvægu sameiginlegu auðlind okkar sem vatnið er. Þar þarf að huga að heildarnýtingu á sem hagkvæmastan hátt, sporna við sóun, framkvæma umhverfismat og gæta jafnræðis milli svæða.
Helga Ingólfsdóttir
Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs.