Kosið verður í sveitarstjórnarkosningum þann 26. maí næstkomandi víðs vegar um landið. Sveitarfélögin í landinu eru 74 en verða 73 eftir kosningarnar með sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs.
Framboð á höfuðborgarsvæðinu, og þá sérstaklega í Reykjavík, vekja eðli málsins samkvæmt mesta athygli, þar sem fólksfjöldinn á því svæði er langsamlega mestur og Reykjavíkurborg er lögum samkvæmt miðstöð stjórnsýslu í landinu.
Miðað við umfjallanir og yfirlýsingar stjórnmálaafla má jafnvel búast við metfjölda framboða í Reykjavík í kosningunum. Fjölgun fulltrúa í borgarstjórn, úr 15 í 23, gæti gert það að verkum að auðveldara verði fyrir nýja og minni flokka að koma fulltrúum að.
Þeir flokkar sem eiga nú þegar fulltrúa í borgarstjórn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Píratar hafa allir lýst því yfir að þeir muni bjóða fram og stendur val á frambjóðendum á lista flokkanna yfir.
Barist um oddvitann hjá íhaldinu
Oddvitakjör í Sjálfstæðisflokknum fer fram um helgina. Þar eru fimm í framboði, Eyþór Laxdal Arnalds, Áslaug Friðriksdóttir, Kjartan Magnússon, Vilhjálmur Bjarnason og Viðar Guðjohnsen.
Talið er að þau fyrstnefndu, Eyþór, Áslaug og Kjartan, eigi raunhæfa möguleika á að sigra kosninguna. Eyþór hefur á bak við sig svokallaða kosningavél Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, sem er afar sterk í Reykjavík. Að auki hefur hann stuðning Morgunblaðsins, þar sem hann er meðal eigenda. Áslaug hefur einnig með sér stóran hóp fólks. Hún er umkringd konum sem styðja hana, auk þess að sá hópur sem fylgdi Illuga Gunnarssyni að málum í borginni eru margir meðal stuðningsmanna hennar. Má þar nefna bæði eiginkonu Illuga, Brynhildi Einarsdóttur og Sirrý Hallgrímsdóttur, aðstoðarmann Illuga. Kjartan hefur einnig dágóðan hóp með sér í kosningabaráttunni. Kjartan hefur verið duglegur að koma sér í fjölmiðla á kjörtímabilinu með hinar ýmsu aðfinnslur á verkefni meirihluta borgarstjórnar, en meðal stuðningsmenn hans í baráttunni má nefna bróður hans Andrés Magnússon, pistlahöfund hjá Viðskiptablaðinu og þungavigtarmann í kosningavél Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Kjartan lenti tveimur sætum fyrir ofan Áslaugu í prófkjöri fyrir síðustu kosningar, en þar voru eðli málsins samkvæmt töluvert fleiri í framboði.
Kjörnefnd mun skipa aðra á lista flokksins fyrir kosningar. Margir munu vera að velta fyrir sér að gefa kost á sér á lista, þar á meðal núverandi borgarfulltrúi Marta Guðjónsdóttir, Magnús Sigurbjörnsson fyrrverandi framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og bróðir Áslaugar Örnu, varaformanns flokksins. Þar að auki hafa verið nefndir til sögunnar Björn Gíslason, varaborgarfulltrúi og Jón Axel Ólafsson, útvarpsmaður hjá Árvakri, en hann stýrir nú morgunþættinum Ísland vaknar, sem gert er ráð fyrir að leggist af þegar Logi Bergmann hefur störf eftir lögbann þann 1. mars. Einnig Vala Pálsdóttir formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, Björn Jón Bragason rithöfundur og Herdís Anna Þorvaldsdóttir, en hún hefur áður gefið kost á sér í prófkjöri á vegum flokksins.
Sitjandi borgarfulltrúar berjast hjá jafnaðarmönnum
Í Samfylkingunni er ekki búist við miklum dramatískum breytingum á lista. Helstu slagir standa á milli aðila sem nú þegar eru borgarfulltrúar flokksins eða hafa verið virkir í borgarpólitíkinni á hans vegum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill leiða áfram og Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður flokksins vill annað sætið. Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi vill einnig sama sæti. Búast má við nokkuð áhugaverðum slag þar, þar sem staða Heiðu er líklegast ekki jafn sterk og ætla mætti miðað við það embætti sem hún gegnir.
Hart verður barist um þriðja sætið þar sem fjögur gefa kost á sér, borgarfulltrúarnir Skúli Helgason og Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, formaður félags jafnaðarmanna í Reykjavík og Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi flokksins. Auk þess gefur varaborgarfulltrúinn Magnús Már Guðmundsson kost á sér aftur. Alls eru fjórtán í framboði hjá flokknum, þar á meðal Teitur Atlason fulltrúi á neytendastofu sem býður sig fram í 7. til 9. sæti, Ellen Calmon fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins sem býður sig fram í 5. sæti sem og Guðrún Ögmundsdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi og þingmaður sem gaf það út öllum að óvörum í gær að hún sækist eftir 5. til 7. sæti. Flokksval Samfylkingarinnar mun fara fram 10. febrúar.
Gæti fjölgað hjá Vinstri grænum
Vinstri græn verða með rafrænt forval þann 24. febrúar. Kjörnefnd mun síðan gera tillögu að skipan á lista flokksins í kjölfar forvalsins. Líf Magneudóttir, eini borgarfulltrúi flokksins, hefur lýst því yfir að hún vilji halda oddvitasætinu og Elín Oddný Sigurðardóttir sem nú er varaborgarfulltrúi flokksins vill annað sætið. Aðrir sem hafa verið nefndir til sögunnar sem hugsanlegir frambjóðendur eru Hermann Valsson sem var áður varaborgarfulltrúi, Þorsteinn V. Einarsson, Hreindís Ylfa Garðarsdóttir stjórnarmaður VG í Reykjavík, Gústaf Adolf Sigurbjörnsson sem á sæti í stjórnkerfis- og lýðræðisráði borgarinnar og René Biasone sem á sæti í heilbrigðisnefnd borgarinnar.
Gera má ráð fyrir að eitthvað af fylgisaukningu Vinstri grænna á landsvísu smitist yfir í borgarstjórnarkosningum, og með fjölgun borgarfulltrúa, mætti ætla að þeim standi fleiri sæti til boða nú en áður.
Oddviti Pírata í borginni og eini borgarfulltrúi flokksins, Halldór Auðar Svansson hyggst ekki gefa kost á sér áfram. Þórlaug Borg Ágústsdóttir sækist eftir oddvitasætinu í hans stað en hún skipaði þriðja sæti á lista flokksins í síðustu kosningum. Það gera einnig Svafar Helgason, Arnaldur Sigurðsson og Alexandra Briem en auk þess hefur Bergþór Heimir Þórðarson Njarðvík verið nefndur sem frambjóðandi flokksins, ásamt Elsu Nore sem verið hefur virk innan flokksins.
Flestir ef ekki allir bjóða sig fram í 1. sætið hjá Pírötum vegna fyrirkomulags kosninga hjá flokknum. Notast er við Schulze kosningakerfið en reynslan hefur samkvæmt heimildum Kjarnans kennt frambjóðendum það að bjóði frambjóðendur sig fram í sæti neðar sé það ávísun á að fá það einmitt ekki heldur færast enn neðar á lista.
Prófkjör hjá flokknum hefst líklegast í næstu viku samþykki félagsfundur þá tillögu og mun vara í einhvern tíma. Kjósendur þurfa að hafa verið skráðir í flokkinn í 30 daga til að geta greitt atkvæði í kjörinu.
Óvissa með framboð margra minni flokka
Óljóst er með stöðuna á Bjartri framtíð, sem féll af þingi í nýliðnum Alþingiskosningum. Samkvæmt heimildum Kjarnans er nú að störfum nefnd til að kanna grundvöll fyrir áframhaldandi framboði flokksins í borginni sem talið er afar líklegt. Nefndinni er einnig ætlað að finna frambjóðendur fyrir flokkinn en enginn þeirra sem gegna aðal- eða varaborgarfulltrúa störfum í dag hyggjast gefa kost á sér. Það eru þau S. Björn Blöndal, oddviti flokksins í borgarstjórn, Elsa Yeoman borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúarnir Eva Einarsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. Nicole Leigh Mosty fyrrverandi þingmaður flokksins hefur verið nefnd sem líklegur kostur til að leiða borgarstjórnarhóp flokksins.
Viðreisn hefur ekkert gefið út um framboð í Reykjavík en það er þó afar líklegt. Pawel Bartoszek fyrrverandi þingmaður flokksins hefur hvað oftast verið nefndur sem frambjóðandi í borginni, en þó er talið líklegra að hann skipi annað sæti á lista en oddvitasætið. Jarþrúður Ásmundsdóttir sem var á lista flokksins í alþingiskosningum er líklegust til að leiða listann en þar að auki hafa verið nefnd til sögunnar Birna Hafstein formaður Félags íslenskra leikara og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir fyrrverandi formaður Félags kvenna í atvinnulífinu.
Töluvert háværar raddir hafa verið um sameiginlegt framboð Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en samkvæmt heimildum Kjarnans er ólíklegt að það verði að veruleika í Reykjavík.
Þrýst á Frosta
Yfirstandandi kjörtímabil hefur reynst Framsókn erfitt. Báðir borgarfulltrúar flokksins, þær Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafa sagt sig úr flokknum. Guðfinna bauð sig fram til Alþingis á vegum Miðflokksins en náði ekki kjöri. Hún hyggst ekki gefa kost á sér áfram. Sveinbjörg Birna segist enn vera að íhuga eigin framboðsmál en útilokar framboð fyrir bæði Framsókn og Miðflokkinn.
Búið er að ákveða að stillt verði upp á lista Framsóknar í borginni en samkvæmt heimildum Kjarnans er mikill þrýstingur á Frosta Sigurjónsson að gefa kost á sér í oddvitasæti flokksins. Hann hefur fjallað töluvert um borgarmálin að undanförnu og er til að mynda alfarið á móti Borgarlínu. Auk þess hafa verið nefnd til sögunnar Jóna Björg Sætran sem er núverandi varaborgarfulltrúi flokksins, Sævar Þór Jónsson lögmaður sem situr í umhverfisráði borgarinnar og Sæunn Stefánsdóttir fyrrverandi þingmaður flokksins.
Aðrir komnir skammt á veg
Ekkert hefur heyrst af mögulegum frambjóðendum í Reykjavík fyrir hönd Miðflokksins. Miðflokksfélag Reykjavíkur var stofnað á þriðjudag en það mun starfa fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin. Flokkurinn ætlar sér að bjóða fram en samkvæmt heimildum Kjarnans er sú vinna of skammt á veg komin til að nein nöfn hafi verið nefnd í því samhengi.
Flokkur fólksins hyggst einnig gefa kost á sér í borginni. Inga Sæland formaður flokksins vildi í samtali við Kjarnann ekkert gefa upp um það hverja flokkurinn ætlaði að fá til liðs við sig á lista, til þess væri nægur tími. Vinnan væri skammt á veg komin.
Umfjöllunin birtist fyrst í Mannlífi.