Auglýsing

Nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði af sér skýrslu á fimmtudag, ári eftir að hún var skipuð og mörgum mánuðum eftir að hún átti upphaflega að liggja fyrir. Á starfstíma nefndarinnar hafa margir einkareknir fjölmiðlar hætt starfsemi eða runnið inn í fjarskiptafyrirtæki. Skýrsla nefndarinnar er góð og þær sjö tillögur sem settar eru fram til að bæta umhverfið skynsamlegar.

Fyrst ber að nefna tillögu um endurgreiðslu á hluta af kostnaði sem til fellur vegna framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni. Lagt er upp með að hlutfall endurgreiðslu geti verið allt að 25 prósent af þeim kostnað, sem er í samræmi við endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar á tónlist. Í tillögu nefndarinnar er réttilega lagt upp með að fjölmiðlar þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til að njóti endurgreiðslu og lögð til nokkur slík skilyrði. Á meðal skilyrða sem bæta mætti við er að fjölmiðlafyrirtæki sé ekki með neinar opinberar skuldir í vanskilum og að fullkomið gegnsæi ríki í eignarhaldi þess. Þá er nauðsynlegt að hámark verði sett á endurgreiðsluna þannig að þær nýtist öllum miðlum, smáum sem stórum, jafnt. Það væri til að mynda hægt að miða við að endurgreiðslur fáist af kostnaði upp að 100 milljónum króna þannig að endurgreiðsla hvers miðils geti hæst verið 25 milljónir króna.

Það verður að vera hægt að ræða um RÚV

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í gær að fílinn í herberginu þegar rætt er um stöðu fjölmiðla sé staða RÚV á þessum markaði. Það er að hluta til rétt hjá honum.

Auglýsing
Nú skal strax tekið fram að RÚV er mjög mikilvægt fyrir íslenska fjölmiðlaflóru og íslenskt samfélag. Sá miðill hefur afl, þekkingu og getu til að gera margt sem einkamiðlarnir hafa ekki. Nauðsynlegt er að á Íslandi sé rekið sterkt ríkisútvarp. En það breytir ekki þeirri stöðu að umfang RÚV á markaði og útþensla kæfir súrefnið sem er til staðar til reksturs annarra miðla. RÚV fær rúma fjóra milljarða króna á ári úr ríkissjóði til að sinna sínu lögbundna hlutverki. Til viðbótar hefur fyrirtækið getað farið í umfangsmikil fasteignaviðskipti upp á rúma 1,5 milljarða króna með eign sem það fékk í vöggugjöf frá ríkinu til að auka rekstrarhæfi sitt. Og það tekur til sín 2,2 milljarða króna á ári í auglýsinga- og kostanatekjur. Fyrir þann pening sem fer í rekstur RÚV á hverju ári væri til að mynda hægt að reka Kjarnann í rúmlega 100 ár.

Meirihluti nefndarinnar leggur til í skýrslu sinni að RÚV fari af auglýsingamarkaði. Þessi tillaga er umdeild. Góð rök hafa verið sett fram um að ef RÚV verði ekki lengur til taks sem birtingarvettvangur fyrir dýra auglýsingaframleiðslu fyrir sjónvarp sé hætt við því að dregið verði úr slíkri framleiðslu. Aðrir segja að RÚV tryggi auglýsendum dekkun sem engin annar miðil geti tryggt og þar af leiðandi væri það til vansa fyrir auglýsingageirann ef fyrirtækið væri ekki lengur á auglýsingamarkaði. Á það verður að benda að hvergi er tekið fram í sérlögum um Ríkisútvarpið að lögbundið hlutverk þess sé að tryggja auglýsendum dekkun. Þess vegna er ekki hægt að nota það sem rök í þessu máli.

Augljóst er að hægt yrði að taka skref til þess að takmarka umfang RÚV á auglýsingamarkaði, t.d. með því að meina fyrirtækinu að sækja tekjur í gegnum skjáauglýsingar og útvarpsauglýsingar. Það eru auglýsingar og tekjur sem auðveldlega ættu að finna sér nýjan farveg innan einkarekinna fjölmiðla. Þá mætti stíga það skref að banna RÚV að selja kostanir, takmarka enn frekar þann tíma í sjónvarpsdagskrá RÚV sem má fara undir auglýsingar og banna með öllu undirboð og frávik frá opinberri verðskrá. Þannig gæti RÚV enn haft tekjur af sjónvarpsauglýsingum og framleiðsla þeirra yrði áfram tryggð.

Hvort og þá hvernig RÚV yrði bætt þessi tekjumissir er síðan pólitísk spurning, sem er ekki hægt að svara fyrr en búið er að greina nákvæmlega hversu miklar tekjur RÚV þurfi til að rækja lögbundið hlutverk sitt.

Skekkt samkeppnisstaða með hæpnum rökum

Þriðja tillagan sem vakið hefur umtalsverða athygli er sú að áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar. Við hana má bæta að leyfa ætti auglýsingar frá veðmálafyrirtækjum.

Það er þannig, í alþjóðavæddum og nettengdum heimi, að íslenskir neytendur sjá slíkar auglýsingar á hverjum degi. Þær eru birtar á samfélagsmiðlum, erlendum netmiðlum, á erlendum sjónvarpsstöðvum sem sumar hverjar eru seldar í áskrift af íslenskum fyrirtækjum, erlendum tímaritum og dagblöðum og auðvitað í allskyns afþreyingarefni sem íslenskir fjölmiðlar kaupa og sýna, t.d. kappleikjum í íþróttum.

Auk þess er bæði áfengissala og veðmál, sem er lögleg starfsemi, auglýst á Íslandi. ÁTVR auglýsir verslanir sínar undir forvarnarformerkjum og Íslensk getspá auglýsir sína veðmálastarfsemi umtalsvert.

Bann við þessum auglýsingum í íslenskum miðlum, og af hendi íslenskra fyrirtækja, gerir ekkert nema að skekkja samkeppnisstöðu þeirra. Það leysir engan vanda sem af þessum vágestum hlýst. Það væri því skynsamlegra að setja skýrar reglur um hvers konar forvarnarskilaboð þurfi að fylgja birtingu slíkra auglýsinga í íslenskum miðlum en að banna þeim að hafa tekjur af þeim.

Auglýsing
Nefndin leggur einnig til að gagnsæi verði tryggt í kaupum hins opinbera á auglýsingum. Engin heildræn stefna er til staðar um það hvernig hið opinbera, sem auglýsir fyrir háar fjárhæðir á ári, gerir slíkt. Þess í stað velur hið opinbera, bæði ríkið og Reykjavíkurborg, að birta flestar auglýsingar sínar í völdum prentmiðlum sem eru að falla hratt í lestri. Vel má færa rök fyrir því að í þessu felist opinberir styrkir upp á tugi milljóna króna til valinna fjölmiðla sem séu ekki með nokkru réttlætanlegir, hvorki frá samkeppnislegu sjónarhorni né þegar horft er á til hverra slíkar auglýsingar þurfa að ná.

Ríkið á líka mýmörg fyrirtæki sem eru stórir þátttakendur á auglýsingamarkaði. Má þar nefna tvo banka, Landsvirkjun, Happadrætti Háskólans of mörg fleiri. Það mætti einnig móta heildræna stefnu fyrir birtingar slíkra fyrirtækja í stað þess að markaðsfé þeirra sé stýrt til valinna fjölmiðla. Oft er um herferðir að ræða sem hafa ekki beint markaðslegt gildi heldur er auglýst af samfélagslegum ástæðum. Það mættist birtast betur í því hvernig markaðsfénu er dreift.

Tillaga um samræmingu á virðisaukaskatti á sölu og áskriftum á rafrænu formi og að gripið verði til hvetjandi aðgerða varðandi textun og talsetningu, er eitthvað sem allir ættu að geta sammælst um að séu nauðsynlegar breytingar.

Viljum við frjálsa og öfluga fjölmiðla?

Það þarf að bregðast hratt og vel við þessum tillögum. Íslenskt fjölmiðlahverfi, og fjölbreytileiki þess, er í vanda statt. í raun má færa rök fyrir því að um bráðavanda sér að ræða.

Gömlu viðskiptamódelin sem héldu einkareknum fjölmiðlum öflugum eiga mjög undir högg að sækja, meðal annars vegna tækni- og upplýsingabyltingarinnar. Hún leiðir af sér að sífellt færri vilja greiða fyrir fréttir og fréttavinnslu og hefur gert það að verkum að nýjar tegundir miðla, sérstaklega samfélagsmiðlar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla.

Það þarf að taka ákvörðun um það hvort það sé vilji til að reka öflugt og fjölbreytt fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Engin vilji hefur verið hjá stjórnvöldum til að bregðast við stöðu einkarekinna fjölmiðla hingað til. Það er staðreynd að atgervisflótti og spekileki er úr starfsstétt blaða- og fréttamanna. Fært fólk endist ekki í starfi vegna lélegra launa, álags og áreitni sem því fylgir að fjalla um samfélagsmál í örsamfélagi. Nær öll lönd í kringum okkur átta sig á mikilvægi öflugra fjölmiðla fyrir lýðræðið og gera sitt til að tryggja starfsemi og öryggi þeirra. Færa má rök fyrir því að það sé enn mikilvægara í jafn litlu samfélagi og tungumálasvæði og Ísland er.

En það þarf ekki bara að laga reksturinn. Það þarf líka að laga hugarfarið gagnvart fjölmiðlum. Í stað þess að beita sér fyrir styrkingu stoða í rekstri þeirra hafa stjórnmálamenn frekar einbeitt sér að því að ítrekað tala niður, og jafnvel ráðast á, valda fjölmiðla fyrir að sinna nauðsynlegu aðhaldshlutverki sínu. Ekki vegna þess að fréttir þeirra séu ekki löglegar og réttar. Heldur vegna þess að viðfangsefnin henta ekki viðkomandi. Sumir hafa gengið svo langt að beita sér sérstaklega með því að grafa kerfisbundið undan miðlum sem ekki þykja þóknanlegir með lygum og atvinnurógi. Aðrir neita að tala við valda fjölmiðla eða hóta innihaldslaust málsóknum til þess eins að draga úr trúverðugleika fjölmiðla sem um þá fjalla. Samandregið þá á sér stað meðvituð jaðarsetning á gagnrýnum fjölmiðlum, ekki ósvipað og ráðandi öfl í Bandaríkjunum stunda. Og hún verður að hætta.

Íslenskt samfélag og stjórnmálamennirnir sem kosnir hafa verið til að leiða það standa frammi fyrir vali. Er vilji til þess að fjölmiðlalandslagið verði einungis saman sett af umsvifamiklu Ríkisútvarpi og örfáum einkamiðlum sem reknir eru fyrir fé úr djúpum vösum sérhagsmunaaðila, eða er vilji til þess að hér þrífist fjölbreytt, frjálst og öflugt fjölmiðlaumhverfi sem getur veitt nauðsynlegt aðhald og sinnt því gríðarlega mikilvæga lýðræðislega hlutverki að upplýsa almenning um það sem á sér stað?

Ykkar er valið.

Hægt er að styrkja Kjarnann hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari