Þorsteinn Víglundsson fv. ráðherra fór mikinn í þættinum Sprengisandi sl. helgi þar sem hann hélt ýmsu fram sem þarfnast leiðréttingar.
- Það sem Þorsteinn gleymir að athuga í sínu máli er að verð á mjólkurlítranum er saman sett af nokkrum atriðum. 1. Greiðsla til bóndans fyrir afurðina. 2. Álagning vinnsluaðila og 3. Álagning smásöluaðila. Á síðustu árum hefur bóndinn fengið meira í sinn hlut og hlutur vinnsluaðila hefur ekki vaxið eins mikið og ætla mæti af orðum þingmannsins. Athugun Fréttablaðsins haustið 2016 sýndi að kúabændur eru að fá rúmlega 60% af smásöluverði í verslunum til sín sem var hæsta hlutfall sem íslenskir bændur voru að fá fyrir afurðir sem þeir framleiða.
- Mjólkuriðnaðurinn starfar innan gildissviðs samkeppnislaga. Það sem iðnaðurinn hefur er heimild frá lögum til þess að gera samkomulag um verkaskiptingu og hafa samstarf til þess að halda niðri kostnaði. Mörg önnur dæmi eru í lögum þar sem samstarf er heimilað, t.d. í fjarskiptalögum vegna uppbyggingar dreifikerfa.
Auglýsing
- Það eru engar samkeppnishindranir í mjólkuriðnaði. Hver sem er getur keypt mjólk af bændum og sótt mjólkina til þeirra. Hver sem er getur keypt mjólk til vinnslu af Auðhumlu, samvinnufélagi kúabænda. Auðhumla gefur minni aðilum afslátt frá því verði sem stærri aðilar, eins og td. MS, greiða fyrir sína mjólk. Í dag eru átta fyrirtæki með leyfi frá MAST til þess að vinna úr mjólk. Þar á meðal Vífilfell hf. (nú CCEP) og Býlið okkar ehf. í eigu Ölgerðarinnar.
- Mjólkuriðnaðurinn á Íslandi mjög lifandi og í stöðugri þróun með vörur og aðferðir. Árlega koma inn á markaðinn um 30-40 nýjar vörur. Sumar þeirra hafa hlotið verðlaun erlendis á matvælasýningum. Mjólkuriðnaðurinn vinnur í dag með háskólasamfélaginu, þekkingar og vísindasamfélaginu, og nýsköpunarfyrirtækjum að því að efla sprota og búa til nýjar afurðir. Þar ríkir ekki stöðnun.
- Heimild mjólkuriðnaðarins til verkaskiptingu var nýlega nýtt til þess að setja af stað próteinverksmiðju sem nýtir hráefni til fullnustu og minnkar sóun. Það gagnast umhverfinu, minnkar kostnað og skapar atvinnu á landsbyggðinni. Fullvíst er að það hefði ekki orðið ef þessarar sérstöku heimildar iðnaðarins í lögum hefði ekki notið við.
- Verðlag mjólkurvara hækkaði mikið fyrir árið 1990 vegna aukins kostnaðar við vinnslu mjólkur. Þá ákváðu stjórnvöld að reyna lækka þann kostnað með sameiningum mjólkurbúa til þess að skapa hagkvæmari vinnslu. Það hefur tekist vel. Mjólkursamsalan í núverandi mynd myndaðist í þeirri vegferð og hefur náð að lækka kostnað í samstarfi við Mjólkursamlag KS. Í dag eru afurðastöðvar 5 á vegum þessara aðila en voru áður átján. Starfsmönnum hefur fækkað um þriðjung, úr 650 í rúmlega 400. Tekið hefur verið saman á vegum SAM hvernig kostnaður við vinnslu mjólkur hefur þróast. Hann hækkaði um 38% á árunum 2003 -2014 á meðan vísitala neysluverðs hækkaði um 88% á sama tíma. Þótt staða innlendra framleiðenda hafi versnað síðustu misseri vegna kostnaðarhækkana á borð við miklar launahækkanir, koma þær hækkanir ofan á lægri grunn en annars væri. Neytendur njóta því áfram beint þeirrar hagræðingar sem náðst hefur. Út frá þeim skýrslum sem liggja fyrir um þetta má ætla að verð væri í dag um 25% hærra án þessarar hagræðingar.
- Í skýrslu Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands frá 2015 var þróuninni lýst með þessum orðum: „Lágmarksverð mjólkur til bænda hefur hækkað miðað við almennt neysluverð síðan 2003. Heildsöluverð mjólkurvara hefur lækkað á sama tíma miðað við almennt neysluverð. Þá er smásöluverð mjólkurvara lægra árið 2013 en 2003 miðað við verð á almennum neysluvörum. Með öðrum orðum hækkuðu mjólkurafurðir minna í verði en aðrar neysluvörur frá 2003 til 2013.“
Eins og sjá má hefur mikið áunnist og samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar óvíða meiri framleiðni aukning á undanförnum árum á Íslandi en í mjólkurframleiðslu. Engu að síður er alltaf nauðsynlegt að gera betur og endurskoða hlutina. Núna er í gangi endurskoðun á ýmsum þáttum í umgjörð mjólkurframleiðslu eins og flestir vita. Vonandi leggur það starf grunn að jákvæðum breytingum fyrir neytendur og bændur, sem skapa aukið traust á þeim reglum sem unnið er eftir.
Höfundur er verkefnastjóri í upplýsinga- og fræðslumálum hjá Mjólkursamsölunni.