Skóla- og frístundastarf er einhver mikilvægasti þátturinn í grunnþjónustu Reykjavíkurborgar og þar er unnið afar metnaðarfullt starf. Sú þjónusta sem börnunum í borginni er veitt væri ekki framkvæmanleg án þess stóra hóps afburða starfsfólks sem vinnur á leikskólum, grunnskólum og á frístundamiðstöðvum úti um alla borg. Mönnun í þau störf hefur á stundum verið vandasöm, ekki síst á tímum eins og nú þegar mikil þensla er í þjóðarbúskapnum og atvinnuleysi í sögulegu lágmarki. Til að bregðast við manneklu á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum borgarinnar brást skóla- og frístundasvið við af mikilli festu á síðastliðnu ári og beitti öllum tiltækum ráðum til að ráðast að vandanum. Sem betur fer hefur verulegur árangur náðst og er nú svo komið að staðan er marktækt betri en á sama tíma í fyrra.
Mikil vinna skilar sér
Þann 22. janúar vantaði að ráða í 28 stöðugildi á leikskólum borgarinnar eða innan við hálft stöðugildi á hvern leikskóla að jafnaði . Nú er svo komið að meira en 80% leikskóla eru annað hvort fullmannaðir eða vantar innan við 2 starfsmenn. Það er veruleg breyting til batnaðar frá haustmánuðum en í byrjun ágúst vantaði starfsfólk í rúmlega 130 stöðugildi. Þennan árangur má þakka mikilli vinnu stjórnenda, mannauðsdeildar skóla- og frístundasviðs og þeim margvíslegu aðgerðum sem við réðumst í síðastliðið haust til að bregðast við manneklu og auknu álagi á starfsfólk leikskólanna.
Sömu sögu er að segja af mönnun frístundaheimila en þar vantar nú starfsfólk í 27 stöðugildi, borið saman við 113 stöðugildi um miðjan ágúst. Þá vantar aðeins að ráða starfsfólk í 11 stöðugildi í grunnskólum borgarinnar, 0,6 prósent allra stöðugilda í skólunum en sambærileg tala var 25 stöðugildi seinnipartinn í ágúst. Áfram verður unnið af einurð að því að fullmanna allar þessar mikilvægu stofnanir.
Aukið fjármagn til skólanna
Þessi árangur hefur náðst með samstilltu átaki starfsmanna skóla- og frístundasviðs þar sem lögð hefur verið áhersla á það annars vegar að bæta starfsumhverfi í grunn- og leikskólum, sem og frístundaheimilum. Þannig hafa ýmsar tillögur starfshóps um bætt vinnuumhverfi grunnskólakennara þegar verið innleiddar, en starfshópurinn skilaði af sér í desember síðastliðnum. Þar á meðal má nefna aukið fjármagn til verkefnastjórnar, aukið fjármagn til sérkennslu og einnig vegna stuðningsfulltrúa í 1. bekkjum, ný stöðugildi kennsluráðgjafa og móðurmálskennara sett á fót, aukin fjárveiting til túlkaþjónustu og til kennslu íslensku sem annars tungumáls, fjármagni hefur verið veitt til viðhalds skólabygginga.
Aðeins vantar að manna hálft stöðugildi að jafnaði í leikskóla borgarinnar. Það er gríðarleg breyting til batnaðar frá síðasta hausti.
Þá er verið að leggja lokahönd á nýja menntastefnu til 2030, sem mun skerpa á því hvaða þætti þurfi sérstaklega að efla til að stuðla að alhliða gæðamenntun barnanna í borginni, sem nýtist þeim í síbreytilegri veröld 21. aldarinnar. Loks má nefna að starfshópar um bætt vinnuumhverfi, bæði í leikskólum og í frístundaheimilum, eru að störfum og eiga báðir að skila af sér í næsta mánuði. Þegar allt er talið hafa fjárveitingar til menntamála í Reykjavíkurborg aukist um fjórðung á kjörtímabilinu eða heila 9 milljarða króna.
Nýjar leiðir sem virka
Að sama skapi var mikil vinna lögð í að finna nýjar og skilvirkari leiðir til að vekja athygli á þessum mikilvægu störfum. Þannig var nýrri hönnun og nálgun beitt við auglýsingar skóla- og frístundasviðs, sem bæði voru settar fram á prenti en einnig leiknar. Leitað var aðstoðar birtingaráðgjafa við val á fjölmiðlum og einnig samið við ráðningafyrirtæki um sérstakt átak við ráðningar. Þá var leitað til fyrrverandi starfsmanna á leikskólum borgarinnar, samstarf hafið við Félag eldri borgara auk fjölmargra annarra verkefna sem skilað hafa þessum góða árangri.
Byggjum upp menntaborgina Reykjavík
Grunnskólar, leikskólar og frístundamiðstöðvar borgarinnar eru öflugar, faglegar og ákaflega mikilvægar starfsstöðvar sem gegna lykilhlutverki í uppvexti barnanna í borginni. Um þetta erum við sem myndum meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur vel meðvituð. Við munum hlúa í enn frekari mæli að innra starfi þeirra og ytri aðbúnaði og beita öllum ráðum til að tryggja fulla mönnun og bætt starfsumhverfi kennara og annars starfsfólks, foreldrum og einkum börnum borgarinnar til heilla.
Höfundur er borgarfulltrúi og formaður skóla- og frístundaráðs.