Ég stundaði megnið af háskólanámi mínu í litilli borg sem heitir Giessen í Hessen í Þýskalandi. Þetta er smáborg á þýskan mælikvarða, þar búa um 90 þúsund manns, aðeins færri en í Reykjavík og svipað margir og í nágrannasveitarfélögunum. Giessen varð fyrir miklum loftárásum í seinni heimsstyrjöld og var því mikið byggt inni í borginni eftir stríð og vel fram á sjöunda áratuginn. Því miður var farin svipuð leið og í Reykjavík árum saman. Það var byggð bílaborg sem gerir það að verkum að hún er afar óaðlaðandi heim að sækja og ekkert sem togar mann þangað nema maður eigi erindi þangað.
Versta dæmið um skipulag borgarinnar í þessa veru er „fílaklósettið“ svokallaða sem var byggt rétt fyrir 1970. Þetta er risavaxin göngubrú sem leysti af hólmi hringtorg sem áður var og átti hún að gera gangandi fólki kleift að komast milli borgarhverfa í miðborginni sjálfri. Það fékk þegar í stað þetta háðslega nafn vegna hrikalegs útlits, byggt á besta stað í borginni. Brúin er risavaxin og með þremur götum í miðjunni sem minnir fólk á risavaxin klósett. Stærðin var nauðsynleg til að koma öllum bílunum sem hraðast undir hana.
Skemmst er frá að segja að þetta fílaklósett er oft tekið sem dæmi um skelfilega misráðið umferðarskipulag þar sem bílaumferð fær allan forgang. Það er mikil mengun þarna, hávaði frá allri umferðinni, það er í stuttu máli sagt bara notað þegar mikið liggur við. Það er ljótt og stangast á við umhverfið svo um munar. Það hefur sér ekkert til málsbóta annað en hraða og mengandi umferð undir sér. Ég spyr hvort fílaklósett á borð við þau í Giessen séu framtíðardraumar Reykvíkinga. Ég vona ekki, til þess eru tækifæri til að gera betur of mörg hér.
En eftir nokkur ár á Íslandi flutti ég með fjölskyldu minni tímabundið til Berlínar. Þaðan kom ég til baka hingað með reynslu af borg eins og ég vil sjá Reykjavík: skapandi, töfrandi og opin, með almenningsgörðum, kaffihúsum, matvörubúðum og iðandi menningarlífi handan við hornið, með öflugum samgöngum og bílum sem þjóna fólki en ekki öfugt.
Höfundur er varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.